Barnabækur Am forlag

Barnabækurnar sem AM Forlag gefur út eru alltaf eitthvað svo töff. Ekki það að töffaraleiki bóka skipti öllu máli, en á sama tíma spyr ég mig, skiptir það samt ekki ákveðnu máli? Innihald og uppsetning sögunnar er kannski mikilvægast en samt er líka nauðsynlegt að myndlýsingarnar grípi augað og áhugann. Töffaraleikinn felst þá aðallega í því hvað þær eru nánast eins og listaverk. Hver bók er ólík og með sinn eigin sjarma. Þær grípa augað. Þær eru jafn ánægjulegar fyrir fullorðna og þær eru fyrir börn. Fagurfræðin spilar þar mikilvægt hlutverk. Bók er ekki einungis frásögn heldur einnig listaverk. En það er sérstaklega í barnabókaforminu sem að sjónræn list og huglæg fær sitt magnaða samspil.

Risaeðlur 

Nýlega kom út bókin Risaeðlur eftir Bastien Contraire en sá er sjálflærður myndhöfundur og útgefandi. Í myndlýsingum sínum nýtir hann grafíska tækni, meðal annars stensla sem kemur einstaklega skemmtilega út. Myndirnar eru einfaldar en samt með sinn sérstaka karakter og ákveðna dýpt. Bókin kynnir okkur fyrir hinum ýmsu risaeðlum sem voru uppi hér á jörðu. Ólíkindi þeirra eru undirstrikuð, hvernig sumar voru risavaxnar á meðan aðrar voru agnarsmáar, sumar með vængi og aðrar með brodda. Það er svosem ekkert nýtt í söguþræðinum, eða frásögninni. Margar barnabækur hafa verið gerðar um hinar ýmsu tegundir risaeðla.  En hvað er það við risaeðlur sem heillar okkur svo? Er það vegna þess að þær voru svo gríðarlega stórar? Eða er það vegna þess að þær dóu út og við erum sífellt að spá okkar eigin ódauðleika? Endalokum okkar. Það er merkilegt að heilu tegundirnar þurrkuðust út. En börn virðast heillast af þessum verum, enda eru þær nánast ævintýralegar. Við þurfum að bera þær saman við einhverja stærð sem við þekkjum, setja þær upp við eitthvað form til að skilja. 

Mannslíkaminn

Bókin Mannslíkaminn eftir Joëlle Jolivet er mikilfengleg bók, þá bæði að stærð og myndsköpun. Bókin leiðir okkur í gegnum mannslíkamann og sýnir okkur alla hans innri starfsemi. Risavaxnar myndir þar sem barnið getur flett hinum ýmsu flipum leika þar aðalhlutverk. Hérna er töffaraleikinn allsráðandi. Litirnir sterkir og snarpar og skýrar teikningar eru í þannig stíl að þær grípa augað auðveldlega. 

Forvitnin fær byr undir báða vængi og mikilvægast af öllu er að hér í þessari bók er notast við orð og hugtök sem að læknisfræðin notar. Engin feimni við að sýna raunveruleikann. Þessa bók er því bæði hægt að nota til að útskýra muninn á líkamsfræði karla og kvenna og svo einnig til að útskýra barnsburð.  Ég var handviss um að dóttir mín, tveggja ára, ætti ekkert erindi strax með að lesa þessa bók, enda er hún merkt fyrir sex ára og eldri, en þetta var bókin sem vakti mestan áhuga hjá henni. Henni finnst gaman að skoða þróun barnsins í leginu og svo einnig að sjá hinar ýmsu útgáfur af „köllum“, sumir brosandi beinagrindur og aðrir skemmtilega skrautlegir.  Auðvitað eru aldursmerkingar bóka alltaf bara viðmið og ekkert að því að prófa að kynna börn fyrir bókum utan þeirra aldursbils. 

Feluleikur

Feluleikur fjallar um vinina Núk og Bartok og ævintýrin sem þau lenda í í miðjum feluleik. Bókin er eftir Lolitu Séchan og Camille Jourdy en höfundarnir sömdu textann og teiknuðu myndirnar í sameiningu. Bókin var valin til þýðingar af bókaráðuneyti barnanna sem Alliance Francaise og sendiráð Frakklands á Íslandi bjóða upp á. Þar velur hópur barna úr fimm bókum sem þeim eru kynntar. 

Feluleikur er í myndasögustíl en það eru myndagluggar sem sýna framgang sögunnar. Myndirnar eru litríkar og fullar af lífi. Það er hægt að rýna í þær endalaust og finna eitthvað alveg nýtt í hvert sinn.  Margar undarlegar persónur verða á vegi þeirra vina, en þar má helst nefna Ömmu sætu, sem er einhver vera sem felur sig í garðinum innan um hreina þvottinn og á sér það helsta markmið að ná að kyssa þá Núk og Bartok sem þeim þykir ekki skemmtilegt og heldur ógeðfellt. Aðrar persónur eru til að mynda spilavinirnir uppi í tréhúsinu sem virðast svo á kafi í rifrildi að þeir sjá ekkert né heyra og svo úlfurinn í skóginum sem vill éta þá báða með grænum baunum og uppstúf. Og það helsta sem þeir vinir sjá að því er að uppstúfur er ógeðslegur. Sagan og persónurnar bjóða því upp á mjög skemmtilega túlkun í leiklestri þess sem les fyrir barnið. Raddir persónanna eru svo skýrar og greinilegar að auðvelt er að detta í hlutverkin. Sagan er fyndin og stórskemmtileg en þá er sérstaklega gaman að orðanotkun þeirra vina og annarra persóna.   

Barnabækur mikilvægar

Það er Sverrir Norland sem þýðir bækurnar Risaeðlur og Feluleikur en Mannslíkamann þýddi hann í samvinnu við Cerise Fontaine. Þýðingarnar eru mjög áreynslulausar en þá helst tekur lesandi eftir sérlega góðri þýðingu við að ná glettni textans í bókinni Feluleikur

Barnabækur eru oftast fyrstu kynni okkar af söguheimum, hið myndræna er svo mikilvægur partur af því að við þróum með okkur ímyndunaraflið. Mikilvægt er að bjóða upp á vítt úrval og ólíka stíla til að kveikja áhuga og gefa barninu nýjar tengingar við umheim sinn.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...