Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til að dæma og birta svo á veraldarvefnum. Efia er vissulega spurð álits og segist vera til í verkefnið, en hversu áreiðanlegt er samþykki átta ára barns fyrir einhverju jafn stóru og útgáfu á hugleiðingum hennar fyrir hvern sem er að lesa á netinu?
Þetta er ekki efni bókarinnar Júlían er hafmeyja eftir Jessicu Love, heldur hugleiðingar mínar um þá hugsanlegu barnaþrælkun sem ég stóð fyrir þegar við Efia settumst saman og lásum um Júlían og ömmu hans, en látum það kyrrt liggja um hríð.
Júlían er hafmeyja er dásamleg, innbundin barnabók fyllt litríkum myndum. Textinn er einfaldur og fallegur, Efia las hann án nokkurra erfiðleika, og ætla má að yngri börn myndu einnig ráða við textann. Letrið er skýrt og nokkuð stórt, án þess þó að vera tiltölulega barnalegt. Aðalstjarna bókarinnar er þó án efa myndskreytingin, sem tekur mun meiri rými en orðin, en höfundur bókarinnar, sem teiknar myndirnar sjálfur, var í fimm ár að myndskreyta hana áður en hún fékk hana gefna út. Hún hefur einnig skrifað aðra bók um Júlían sem ég vona innilega að verði einnig þýdd og gefin út á íslensku.
Draumkennd umbreyting
Sagan er einföld og ósköp dásamleg. Júlían er lítill, svartur strákur sem elskar hafmeyjur. Hann sér nokkrar hafmeyjur á förnum vegi, svo hann fær hugmynd og breytir sjálfum sér einnig í hafmeyju. Umbreyting Júlíans er draumkennd og dásamleg, opnan þar sem við sjáum litla strákinn kasta af sér fötunum og láta sér vaxa sporð og sítt hár er yndislega falleg og leikræn.
Efia var hoppandi kát yfir ævintýrum Júlíans, bæði umbreytingunni á honum og jákvæðum viðbrögðum ömmu hans við búningaleik barnabarnsins síns, en hún lánar honum hálsmen og fer stolt með hann út að finna fleiri hafmeyjur.
Bókin sýnir lítinn strák sem hefur áhuga á því sem er oft dæmt sem kvenlegt í jákvæðu ljósi og hvernig amma hans samþykkir hann eins og hann er og finnur samfélag fólks sem er eins og hann. Má lesa bókina sem uppgötvun barns á sjálfi, eða sem einfalt samþykki á fjölbreyttum áhugamálum barna og upplifun.
Bókin er fullkomin til að víkka sjóndeildarhring barna og foreldra og fyrir börn sem elska myndir og liti er hún algjör veisla. Ég held það saki ekki að lauma þessari í jólapakkann handa krökkum frá fjögurra ára aldri og kannski líka þröngsýnna ættingja sem mættu aðeins gjöra svo vel.