Eins og ég sagði í fyrri umfjöllun um Múmínálfabækurnar hefur skapast sú hefð á mínu heimili að enda daginn á að lesa saman. Það er hluti af svefnrútínu okkar hjónanna með tæplega tveggja ára syni okkar og mig langar að fara yfir bækurnar sem hafa verið í uppáhaldi hjá okkur undanfarið. Flipabækur eru langvinsælastar núna en þar á eftir fylgja bækur með hljóðum og það er að miklu leiti bókunum um Depil eða Depi, eins og sonur minn kallar hann, að þakka.

Ég man sjálf eftir því að hafa lesið þessar bækur þegar ég var lítil en var samt engan veginn búin að átta mig á hversu gamlar þær eru og rak upp stór augu þegar ég sá límmiða aftan á einni bókinni. Þar stendur: Til hamingju með 40 ára afmælið Depill! Vá! Ætli sonur minn muni lesa Depilsbækurnar með börnunum sínum?

Hér er listi yfir bækurnar sem við skiptumst á að lesa á kvöldin:

Hvar er Depill?

Það er kominn matur og Depill er týndur! Mamma leitar hans um allt en finnur í staðinn fullt af dýrum á furðulegum stöðum. Á endanum finnur hún þó hvolpinn sinn. Ég las þessa bók þegar ég var barn og man að mér þótti apinn í fataskápnum fyndinn en krókódílinn undir rúminu angraði mig. Lengi vel kíkti ég undir rúm áður en ég fór að sofa. Sonur minn virðist þó pæla hið minnsta í þessu og skemmtir sér konunglega við að lyfta öllum flipum.

Depill, hvaða hljóð er þetta?

Depill heyrir undarleg hljóð og fer að rannsaka uppruna þeirra. Í þetta sinn er það hann sem rekst á alls konar dýr á undarlegum stöðum þar til hann finnur hvaðan hljóðin berast. Þetta er bókin sem hefur verið mest lesin undanfarið. Ástæðan er sú að þetta er hljóðabók sem gefur frá sér hljóð mismunandi hljóðfæra. Ég gleymi ekki hversu uppnuminn drengurinn varð í fyrsta sinn sem hann heyrði bók gefa frá sér hljóð!

Bíb-Bíb! Depill á ferðinni

Þessi er svipuð fyrri bókinni með hljóðum en í staðinn fyrir hljóðfæri koma hljóðin frá bílum og tækjum. Þessi hefur heldur betur slegið í gegn hjá bílakallinum mínum!

Hundurinn Depill

er svolítið öðruvísi af því hún er ekki í laginu eins og bók heldur eins og hvolpurinn Depill. Mjög lítill texti er í bókinni en hún er talsvert litríkari en hinar bækurnar og það er skemmtilegt hvað formið er öðruvísi.

Bækurnar eru vandaðar og harðspjalda svo þær þola örlítið nag og henta því markhópnum einstaklega vel. Myndirnar í Depilsbókunum eru ofureinfaldar og í raun sígildar. Þær eru ágætis tilbreyting frá bókum þar sem blaðsíðurnar eru troðfullar af fígúrum og mikið er í gangi. Það er nefnilega svo mikil fegurð í einfaldleikanum.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.