Ó Macbeth, leikrit Shakespeares um valdagráðugt, skoskt par sem myrðir konung og kemst í bobba. Hvað á betur við á þessum síðustu og verstu tímum en klassískt verk í nýjum búning, í rúmri þriggja tíma sýningu? Það er eitthvað svo huggulegt við að sjá verk sem maður þekkir vel á sviði en þó í nýrri uppfærslu. Maður veit við hverju má búast, en er þó tilbúinn að láta koma sér á óvart.
Síðast sá ég Macbeth í Þjóðleikhúsinu 2012, þar sem leikarar voru í hermannagöllum og reimuðum gönguskóm, umgjörðin var mínímalísk og blóðið fékk að renna nokkuð óhindrað. Ef ég man rétt. Það eru rúm tíu ár síðan og hver veit hvort minnið svíkur mig.
Nútíma stríðsfílingur
Ég fór í það minnsta spennt – og örlítið hrædd – í leikhús föstudaginn 13. janúar 2023 að sjá uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur á Macbeth í leikstjórn hinnar litháensku Uršulė Barto á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu. Ég passaði auðvitað að krossa mig í bak og fyrir og kasta salti yfir öxlina á mér fyrir sýninguna, og hef enn sem komið er ekki orðið fyrir bölvun Macbeths eða þessa óhuggulega föstudags.
Verkið heillaði mig um leið og að hófst. Stórir skjáir eru á sviðinu og tökumenn með fréttamyndavélar taka upp leikarana í rauntíma og efninu varpað á skjáina. Bæði skapast með þessu nútímalegur stríðsfílingur, sem og stjörnumenningarelement. Ljósmyndarar fylgja eftir blóðugum hermönnum, kóngum og merkisfólki og öllu er varpað óklipptu á skjái. Einnig opnar það á nýja leiki með fjórða vegginn, eða þann fimmta? Að sjá leikarana tala öðruvísi við myndavélarnar en hvort við annað og áhorfendurna.
Keðjureykjandi örlaganornir
Það sem mér fannst standa upp úr í góðri sýningu var útfærslan á nornunum. Örlaganornirnar þrjár eru leiknar af Esther Thalíu Casey, Rakel Ýr Stefánsdóttur og Þórunni Örnu Kristjánsdóttur, í ótrúlega töff búningum úr efni sem speglast á og skiptir lit eftir ljósi. Nornirnar leika sér með textann, tungumálið og tilbrigði á listilegan hátt og það er magnað hvernig þær fylla rýmin sem þær nýta. Rými sviðsins er í raun allt mjög vel nýtt – leikmunir eru fáir en margnota og marglaga, þar stendur sérstaklega upp úr baðkar og glerveggir, og fjölbreytileiki sviðsmyndarinnar er nýttur á einstaklega flæðandi hátt.
Leikarar völduðu hlutverkum sínum vel og var hver af þrettán (!!!) leikurum verksins öðrum betri. Ég hafði sérlega gaman af votti af kynusla og hinseginleika í verkinu. Hægt er að sjá með einfaldri kynbreytingu á Herra Macduff, leiknum af Haraldi Ara, að auðvelt er að auka inngildingu (e. inclusive) í leikritum.
Hjörtur Jóhann Jónsson var öflugur Macbeth og ég var mjög hrifin af Sólveigu Arnardóttur sem konu hans, það er eins og hún sé fædd í hlutverkið. Sérstaklega er gaman að sjá á sviði aldursmun gagnkynja pars þar sem konan er eldri, það er aldrei nóg af því. Sölvi Dýrfjörð dansari og leikari var stórglæsilegur og skapaði mikið sjónarspil í mótvægi við stríð og æsing, fegurð í dauðanum og mótvægi við ljótleikann.
Árni Þór Lárusson var ljómandi flottur prins með Hello Kitty húðflúr á enninu. Hann fór með flókinn og þungan texta á fallegan og skýran hátt, og greip áhorfendur algerlega með sér inn í Shakespearískan heim. Svo var hann líka í flottasta búningnum, en það var bara bónus.
Lifandi búningar
Búningar Liucija Kvašytė voru einmitt dásamlegir, en mínímalisminn sem einkenndi mörg verk fyrir Covid hefur hörfað fyrir meiri fjölbreytileika. Búningarnir voru blanda af einföldum nútímafötum, Shakespeareslegum klæðnaði, glimmeri, púffermum, há- og lágtísku.
Textinn er þýddur af Kristjáni Þórði Hrafnssyni og fannst mér hann mjög góður. Flakk milli háfleygs og lágstemmdari talsmáta virkaði vel og leikrænir tilburðir við mismunandi meiningar textans voru mjög grípandi.
Macbeth er sérlega skemmtileg sýning og mikið sjónarspil, sem öll ættu óhikað að fara á, nema þau sem eru viðkvæm fyrir hávaða og ljósablikki. Reyndar var víst vesen á ljósunum þegar ég sá sýninguna svo kannski þurfa viðkvæmir ekki að passa sig, nema bara á bölvun Macbeths. En þrátt fyrir að ógæfa skoska leikritsins léti sig ekki vanta á frumsýninguna er ekki hægt að segja annað en það hafi gengið ótrúlega vel.