Wrong place wrong time

Reykjavík – glæpasaga eftir Ragnar Jónasson og Katrínu Jakobsdóttur kom út í jólabókaflóðinu í fyrra og gekk heldur betur vel en bókin var mest selda bók ársins hjá Pennanum Eymundsson. Það er ef til vill ekki eitthvað til að undra sig á. Ragnar Jónasson hefur skipað sér sess meðal vinsælustu glæpasagnahöfunda landsins og þó víðar sé leitað og Katrín, forsætisráðherra vor, er svakalegur glæpasagnaaðdáandi sem skrifaði meðal annars BA-ritgerð sína um íslenskar glæpasögur því þær höfðu þá ekki verið rannsakaður áður og tók einnig fyrir glæpi í meistararitgerð sinni.

Það vakti mikla athygli þegar þessi tvö ákváðu að slá til og skrifa glæpasögu saman og eftirvæntingin var mikil. Fram kemur í bókinni að aðdragandinn var ansi langur, hugmyndin um samvinnuna kom upp en svo var það ekki fyrr en þegar Covid-19 faraldurinn skall á sem andrými skapaðist til að skrifa bókina.

 

Skemmtilegt sögusvið

Sagan er söguleg og sögusviðið skemmtilega öðruvísi. Árið 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, á meðan hún er í vist hjá heldra fólk í Viðey. Í áratugi miðar málinu ekkert áfram en þegar Valur, ungur blaðamaður á Vikublaðinu, fer að skoða málið árið 1986 virðist loksins einhver lausn í sjónarmáli.

Höfundarnir voru bæði tíu ára árið 1986 og rifja upp í miklu nostalgíukasti 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar og leiðtogafundinn sem fór fram þetta ár. Umgjörðin er skemmtileg, en undirrituð sem var ekki fædd á þessum tíma fannst stundum um og of í lýsingum af þessum tíma og atburðum. Hvarfið á sér stað árið 1956 og eru kaflar sem gerast 1966 og 1976 og ljóst er að höfundar kynntu sér vel tísku, tónlist og fleira sem einkenndi tíðarandann. Mér fannst þó heldur oft of augljóst hvernig þetta var gert, það tókst betur að láta til dæmis fundi Vals og Sunnu systur hans gerast á Mokka sem var vissulega til á þessum tíma.

Hefði viljað fleiri tvist

Bókin er auðlesin og skemmtilega skrifuð, vandamálið með uppbygginguna er að það skortir spennu. Það gerist mjög lítið framan af í bókinni, margir viðburðir sem tengjast afmælinu og verið að rifja upp málið en lítil framvinda. Svo ber að lofa eitt tvist sem kom mér á óvart í miðri bókinni en aftur var man farið að langa að vita hver morðinginn var og ekki blasti mikið við undir lok bókarinnar. Einnig var minna af því sem kallast “red herring” einhver sem virðist í fyrstu vera sekur en kemur málinu ekkert við sem til dæmis Agatha Christie, átrúnaðargoð Ragnars og Katrínar, er þekkt fyrir. Það kom aftur tvist sem var kærkomið í síðustu blaðsíðum bókarinnar en mér fannst ekki nægilega góð skýring á morðinu sjálfu og hvað hefði gerst.

Reykjavík-glæpasaga er fín afþreying sem auðvelt er að gleyma sér í á helgardegi eða við sundlaugarbakkann, en ég vona að það verði meiri spenna í næstu bókum ef Ragnar og Katrín leiða saman hesta sína á ný.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...