Bestu bókabúðirnar í London

London er draumur allra bókaorma, sögusvið fjölmargra bóka, heimabær stórkostlegra rithöfunda og að sjálfsögðu er þar í bæ að finna fjöldann allan af frábærum bókabúðum. Hér má finna lista sem er alls ekki tæmandi af helstu perlum borgarinnar.

Heimsmetabókarbúðin

Uppáhalds bókabúð margra Lundúnabúa er Foyles sem er í návígi við Oxford Street verslunargötuna. Búðin var stofnuð árið 1903 og er því rótgróin. Hún komst í Heimsmetabók Guinness fyrir að vera stærsta bókabúð heims mælt í hilluplássi. Það er einfaldlega svo mikið úrval að sumum gætu fallist hendur. Ég mæli með að vera ekki í tímaþröng og njóta þess að vafra um þessa mögnuðu búð.

Daunt Books

Tæknilega séð er um þrjár búðir að ræða sem bera þetta nafn (lítil keðja) en mín uppáhalds búð er Daunt Books í Marylebone. Verslunin er ekki einungis full af góðum bókum heldur einnig gullfalleg. Bækur eru flokkaðar eftir löndum sem er mjög skemmtileg tilbreyting, þá er t.d auðvelt að fara í flokkinn Ítalía og velja bækur sem gerast þar, fjalla um landið, eða jafnvel ferðahandbækur ef leiðin liggur þangað næst.

Broadway Bookshop

Í austur London við Broadway Market er markaður á laugardögum sem er yndislegt að heimsækja. Þar í kring er allt úti í skemmtilegum búðum, þeirra á meðal lítil bókabúð með vel völdu safni. Það er óhætt að gera sér ferð þangað og fara svo í göngutúr við kanalinn.

Notaðar bækur

Eitt það besta í London er sá fjöldi bókabúða sem selja notaðar bækur, þá er hægt að gera góð kaup. Oxfam er ein mest áberandi keðja góðgerðarbókabúða og eru margar verslanirnar mjög fínar. Hægt er að versla þar og láta gott af sér leiða. Vert er þó að taka fram að fyrir nokkrum árum kom upp hneykslismál hjá samtökunum en nánar ma lesa um það hér.

Word on the Water

Bókabúð í bát við kanal, þarf ég nokkuð að segja meira?

Góða gamla!

Waterstones er ein stærsta bókakeðja í Bretlandi og því ekki efst á lista hjá fólki sem vill sækja einstakar bókabúðir. Staðreyndin er þó sú að þetta er mjög vel heppnuð keðja og margar skemmtilegar búðir með frábæru úrvali sem gaman er að heimsækja.

Fyrir lengra komna: Blackwell’s í Oxford

Margir kíkja í dagsferð til háskólabæjarins Oxford þegar þeir kíkja í ferð til London. Þar búa eins og þekkt er einhverjir mestu hugsuðir okkar tíma og bera bókabúðirnar þar þess merki. Blackwells við Broad Street virðist utan frá ekki merkileg en þegar inn er komið tekur við mögnuð búð með alla kyns fræðibókum, barnabókum og skáldsögum. Tíminn stoppar þarna inni og hægt er að fá sér ljúffengan kaffibolla og sökkva sér í lesturinn.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...