Það er húmor í lauginni

Sund í Tjarnarbíó

Klórlyktin gýs upp þegar maður gengur í salinn og ber augum glæsilega sundlaug og heitan pott, stökkpalla og auðvitað kalda pottinn. Að ganga inn á sýninguna Sund í Tjarnarbíó er bókstaflega eins og að fara í sund í raunverulegri laug, allt frá útlitinu til lyktarinnar. Sviðsmyndin inniheldur 3000 lítra af vatni og er hönnuð af Kristni Arnari Sigurðssyni og er það flottasta sem sést hefur á íslensku sviði lengi. Sýningin er samin af leikskáldinu Birni Jóni Sigurðssyni í samstarfi við leikhópinn og sviðshreyfingarnar hannaðar af Andrean Sigurgeirssyni. Verkið vefur á þokkafullan hátt saman dansi, tónlist, leik og tjáningu til að skapa verk um sundmenningu þjóðarinnar.

Synt inn í þjóðarsál

Flest eigum við ótal minningar af sundlaugum landsins frá blautu (hehe) barnsbeini – við förum í sund með ömmu og afa, með foreldrum og vinum, í skólasund og svo mætti lengi telja. Ég heyri að unga fólkið fari meira að segja á deit í sundlaugum þessa dagana. Upphafsatriði verksins grípur áhorfenda strax, en það er dansverk þar sem leikarar taka á sig form fugla og sela sem vekur upp hugrenningatengsl um samband okkar við sjávardýrin. Við selina og þjóðsögurnar um konur sem týna selshamnum sínum og lifa í mannheimum, og við fuglana, endurnar sem kíkja stundum við í sund og við eigum flest jafn margar minningar af að gefa brauð og af laugunum góðu. Í verkinu er einmitt spilað inn á þessa sterku tengingu sem við höfum öll við laugina, hvort sem við erum tíðir gestir eða ekki. Nú fer ég ekki mjög mikið í sund en tengdi þó við allt sem gerist í verkinu. Við heyrum slúður frá gestinum í næsta potti, togum sundbolinn og eða skýluna út úr rassinum, hittum gamla kunningja og svörum hinni aldagömlu spurningu: knúsast maður þegar maður hittist í sundi? 

Samtvinnun listforma

Samtvinnun listforma er mikilvægur þáttur í verkinu og kunni ég sérlega vel að meta dansinn og líkamsbeitinguna sem fangaði tilfinningaskala, upplifun og andrúmsloft á raunsannan en þó skemmtilegan hátt. Einstaklega gaman fannst mér að sjá sundlaugargesti taka á sig form frægra listaverka, og átta sig á berskjöldun sinni, hvort sem það er líkamlega eða andlega, í miðri sundferð. 

Leikararnir stóðu sig allir mjög vel, mér fannst Kjartan Darri Kristjánsson bera af í hlutverki einstæðs sundlaugargests, og Eygló Hilmarsdóttir ná kómískri tímasetningu fullkomlega trekk í trekk. Erna Guðrún Fritzdóttir fangar svo anda Vesturbæjarins á fullkominn hátt, að öðrum leikurum ólöstuðum. Þá má ekki gleyma því að handritshöfundurinn Birnir Jón Sigurðsson lék „þvoðu-þér-um-klofið-manninn“ á mjög raunsannan hátt við mikla hrifningu áhorfenda. Auk þess þurfti ég að standast þá freistingu að athuga hitastigið á vatninu í lauginni og pottunum, því heiti potturinn var leikinn mjög heitur á raunsannan hátt, sem og kaldi potturinn. Nú er sennilegast að allt vatnið hafi verið við svipaðan hita og leikararnir leikið mjög vel

Sundlaugargestir athugið

Ég er einnig hrifin af því að verkið og leikararnir leyfðu sér að taka þann tíma sem þeir þurftu, það var ekki ætt úr einu í annað heldur var augnablikum leyft að hanga í loftinu, teygja úr sér og taka sinn sess. Áhorfendur skellihlógu og héngu á hverju orði, eða dansspori, leikaranna, svo það tókst mjög vel að halda salnum alla sýninguna. Það eina sem ég vil kvarta yfir er að mig langaði í fleiri senur, mig langaði að vita meira hvað gerist í sundi, og hvað verður um aumingja túristana sem kunna ekki sundmenninguna? Og borgarastríðið í Venesúela? Og ástir og örlög fólks í Grafarholti? En það er sennilega óþarfi að vera með græðgi.

Að lokum vil ég bara koma því á framfæri að ég vona að slagarinn „Sundlaugargestir athugið“ verði spilaður mikið á börum bæjarins í haust. 

 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.