Lífið og tilveran í leikjaheiminum

Tomorrow, and Tomorrow, and Tomorrow eftir Gabrielle Levin kom út á síðasta ári og vakti strax mikla athygli. Bókin var ein sú heitasta þegar ég var í London í sumar og plaköt af henni út um allt í bókabúðum Waterstones. Ég viðurkenni að það er asnalegt en svona mikil athygli á bók hefur oft öfug áhrif á mig. Ég er oft í mótþróa við að lesa bækur sem taka svona pláss og verð gjarnan fyrir vonbrigðum þegar ég loks geri það þar sem væntingar eru í hámarki. En nóg um það, um daginn ákvað ég loks að reyna við bókina og hún olli til allrar hamingju ekki vonbrigðum.


Bókin segir frá Sam Masur og Sadie Green. Hún hefst á endurfundi þeirra á lestarstöð í Boston árið 1995 þegar þau eru tvítug og ljóst er að þau eiga flókna fortíð saman. Fljótlega kemur í ljós að þau voru æskuvinir í Los Angeles þaðan sem þau bæði eru og deila áhuga á tölvuleikjum. Þau kynnast þegar systir Sadie er í krabbameinsmeðferð á barnaspítala (hún lifir af) og Sam er að jafna sig af slysförum. Þegar sagan hefst eru þau bæði á þriðja ári í háskóla og hafa ekki talast við í sex ár eftir að slettist upp á vinskapinn. Þau hafa þó vitað af hvort öðru í Boston og þegar Sadie lætur Sam hafa tölvuleik sem hún hannaði í kveðjugjöf er ekki aftur snúið. Þau hefja sameiginlega vegferð sem tölvuleikjahönnuðir og slá rækilega í gegn strax með fyrsta leik sínum Ichigo. Bókin fylgir svo vegferð þeirra næstu áratugina.

Óflokkanleg bók

Það er erfitt að flokka Tomorrow, and Tomorrow, and Tomorrow og það er eflaust meðal ástæða þess að hún hefur náð svona velgengni. Bókin er ólík flestum að því leyti að aðal sambandið sem knýr söguna áfram er vinasamband en ekki ástarsamband. En einnig spilar Marx, meðleigjandi Sam þegar þau Sadie endurnýja kynnin, einnig lykilhlutverk í bókinni og er velgengnin í tölvuleikjaheiminum mikið honum að þakka. Snemma í bókinni lánar hann Sam og Sadie íbúðina sína til að vinna í Ichigo yfir sumarið milli háskólaanna, en endar á að verða framleiðandi og reynist þeim báðum mjög vel. Hverju á sinn hátt. Persónurnar þrjár eru mjög vel skrifaðar með sína kosti og galla og það er raunsætt hvernig misskilningar verða til og ósætti koma upp. Man vill helst setja Sam og Sadie inn í herbergi saman til að ræða opinskátt saman og leysa þessar flækjur oftar en einu sinni! Framvinda sögunnar er jafnframt ekki fyrirsjáanleg og nokkur atvik sem koma manni algjörlega í opna skjöldu. Flakkað er fram og til baka í tíma en aðeins flett af einu lagi í einu til að varpa ljós á hvað gerðist í fortíðinni. Höfundur nýtir sér alls kyns frásagnar form eins og viðtöl við fólk í framtíðinni sem mér fannst ganga mjög vel upp, en slíkt hefur maður sér nýverið í bókum Taylor Jenkins-Reid.

Metnaður lagður í tölvuleikjahönnun

Sagan lifir og hrærist í tölvuleikjaheiminum og mikill metnaður lagður í sögusviðið, það hlýtur að hafa farið gríðarleg vinna í að þróa alla tölvuleikina sem koma fram í bókinni og eru auðvitað ekki til í alvöru. Ég hef núll áhuga á tölvuleikjum þannig mér fannst stundum full mikið af lýsingum um þá en get trúað því að fyrir fólk sem spili tölvuleiki þá dýpki þetta upplifun þeirra af bókinni. Að því sögðu væri ég mjög til í að spila morðrannsóknar leikinn sem kemur fram seint í bókinni og er því miður ekki til!

Eitt sem mér þótti óþarfi í bókinni var að höfundur var að útskýra of mikið hvernig tæknin var árið 1995 þegar Sam og Sadie ná aftur sambandi, t.d. með óþarfa innskotum um að þá hafi fæstir átt farsíma og því erfitt að ná sambandi við fólk. En kannski finnst mér þetta augljóst þar sem ég ólst upp á tíunda áratugnum en þetta gæti verið framandi fyrir næstu kynslóð lesenda.

Heilt yfir er Tomorrow, and Tomorrow, and Tomorrow áhugaverð saga sem er mjög grípandi og forvitnileg. Ég mæli með henni nú þegar er byrjað að hausta og gefst meiri tími fyrir bókalestur undir teppi með góðan bolla í hönd.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.