Við hjónin skiptumst á að lesa með tveggja og hálfs árs syni okkar á kvöldin. Sú hefð er alveg heilög á okkar heimili enda hluti af svefnrútínunni. Kvöldlestur er alveg dásamleg samverustund sem ég get ekki annað en mælt með. Í ólgusjó samfélagsins er þetta frábær leið til að komast í smá núvitund og svo eykur lesturinn áhuga krílanna á bókum. Þegar ég kem heim með nýjar bækur er erfitt að sjá hvor er spenntari, drengurinn eða eiginmaðurinn.

Bók sem er í miklu uppáhaldi þessa dagana er bókin Einu sinni var mörgæs. Höfundurinn er Magda Brol en bókin var fyrst gefin út í Bretlandi árið 2020 og kom út í íslenskri þýðingu Baldvins Ottó Guðjónssonar í fyrra. Magda fæddist í Póllandi en býr nú í London ásamt manninum sínum og tveimur unglingsdætrum.

Lítil mörgæs í stórum heimi

Sagan segir frá mörgæsinni Magna sem dettur um óvanalegan hlut. Hann er stór og rauður og mörgæsirnar geta á engan hátt áttað sig á því hvaða tilgangi hann þjónar. Hinar mörgæsirnar missa fljótt áhugann en Magni verður æ forvitnari. Hluturinn reynist vera bók og á endanum tekst Magna að læra að lesa. Þá uppgötvar hann töfraheim bókanna þar sem hægt er að nota ímyndunaraflið til að ferðast til fjarlægustu staða. Þegar lestri bókarinnar lýkur verða Magni og vinir hans staðráðnir í að finna fleiri bækur. Mörgæsirnar leggja af stað í ferðalag til borgarinnar þar sem þær finna dásamlegan stað sem kallast bókasafn.

Myndir sem vekja upp fortíðarþrá

Magda Brol er bæði höfundur og myndhöfundur þessarar skemmtilegu bókar. Sagan er frumleg en myndirnar eru það sem gerir bókina einstaka að mínu mati. Í þeim eru ótal smáatriði sem koma betur og betur í ljós með hverju skiptinu sem maður les hana. Litirnir töluðu einstaklega sterkt til mín og minntu mig á litina í bókinni Selurinn Snorri sem ég las oft sem barn. Það er kannski ekki skrítið enda gerast báðar bækurnar að mestu á snæviþöktu heimskauti.

Bókin um Magna mörgæs er í heldur stóru broti að mínu mati. Tveggja og hálfs árs snáðinn minn á erfitt með að halda á henni og fletta blaðsíðunum en myndirnar fá að njóta sín svo vel í þessari stærð að ég get ekki fett fingur út í það.

Töframáttur bóka

Bókin hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar sem best þýdda barnabókin árið 2023. Í umsögn dómnefndar segir:

Í Einu sinni var mörgæs nær Magda Brol að fanga þá staðreynd að skáldskapurinn flytur fjöll, og jafnvel mörgæsir líka. Lesendum er boðið í ævintýraför með Magna Mörgæs sem einn daginn rekst á stóran, rauðan, blaktandi-flaktandi hlut sem reynist vera bók. Fjör, fyndni og forvitni ráða för í verkinu og vinnur Baldvin Ottó Guðjónsson þýðinguna skemmtilega af hendi og tekst vel að koma til skila vandræðagangi og fróðleiksfýsn mörgæsanna. Boðskapur textans er slíkur að hann vekur upp hlýju í hjarta bókaunnenda þvert á aldur.

 Ég er algjörlega sammála þessari umsögn og vil bæta við að þýðing Baldvins er bæði aðgengileg og vönduð. Bókin náði til okkar mæðgina og ég held að þetta sé ein besta barnabók sem ég hef lesið það sem af er ári. Hún lýsir svo fallega þeirri upplifun þegar einhver uppgötvar töframátt bókanna.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.