Ég er bókasafnari inn að beini. Fyrst um sinn safnaði ég helst ævintýrabókum en nú hefur áráttan færst yfir á barnabækur. Ég vil samt meina að áráttan sé réttlætanleg þar sem ég og sonur minn lesum bækurnar út og inn, aftur og aftur í kvöldlestrinum. Bækurnar um múmínálfana gleðja safnarahjarta mitt óskaplega því þær eru bæði svo margar og flestar eru í meðfærilegu umbroti, fyrir utan hvað þær eru ótrúlega fallegar. Bækurnar eru aðlaganir á söguheimi Tove Jansson af Múmíndal fyrir yngstu lesendurnar. Þær eru gefnar út af Uglu útgáfu og hafa notið mikilla vinsælda hér á landi.

Við mæðginin höfum mest lesið harðspjaldabækur undanfarið þar sem flipabækur og bækur með hljóðum hafa verið langvinsælastar hjá mínum manni en nú erum við aðeins að færa okkur yfir í að lesa lengri bækur með þynnri blaðsíðum. Mía litla og stormviðrið er ein af þeim sem við lásum um daginn.

Mía prakkari

Það er stormur í Múmíndal og allir eru fegnir að vera inni nema Mía litla. Hana langar út að prófa nýja flugdrekann sinn en er bannað að fara út. Auðvitað lætur Mía litla það ekki stoppa sig og fer samt. Hún endar á því að fjúka burt með flugdrekanum og festast uppi í tré. Múmínsnáðinn og Múmínpabbi reyna að hjálpa henni en það er hægara sagt en gert. Óvæntur gestur skýtur upp kollinum og þetta fer allt vel að lokum.

 

Bókin er auðlesin og lesandi hrífst með sögunni eins og Mía litla hrífst burt með vindinum. Myndirnar eru dásamlegar og vekja upp fortíðarþrá hjá mér, eins og nánast allar múmínbækur sem ég les. Ég spurði son minn hvað honum þótti skemmtilegt við bókina en hann horfði bara hissa á mig, enda bara tveggja og hálfs. Ég bíð spennt eftir því að hann verði eldri og geti sagt mér hvað honum finnst áhugavert við þær bækur sem við lesum saman. En svarið við spurningunni hvort við ættum að lesa múmínbók er alltaf já!

Fleiri bækur sem við höfum lesið um Múmínálfana nýverið:

Fyrstu 100 orðin

Þetta er flipabók og þær eru alltaf vinsælar á mínu heimili. Ég komst nýverið að því að sá sem skrifað fyrstur manna flipabækur eða „lift-the-flap“ bækur var Eric Hill, höfundur hinna sívinsælu Depilsbóka. Það er hægt er að lesa um það hér.

Bestu vinir

 Múmínsnáðinn er einmanna því Snúður er farinn í ferðalag en í bókinni kemst hann að því að hann á fullt af góðum vinum. Í þessari bók er að finna örlítið erfiðari orð en í hinum bókunum, eins og þungbúinn og andköf en boðskapurinn er góður. Við eigum líka fyrri bókina Góða nótt, Múmínsnáði sem ég mæli með í kvöldlesturinn.

Hver ruglaði pökkunum?

Ég viðurkenni að barnið í mér pirraðist einstaklega mikið við það að Mía litla væri að rugla pökkunum í sögunni. Þar sem ég er yngst í systkinahópnum var það í mínum verkahring um jólin að lesa á kortin og passa að allir fengju réttan jólapakka. Að vera pakkalesari er sko ábyrgðarfullt verkefni!

Í þessum nýjustu sögum koma við fleiri persónur úr Múmínheiminum sem mér finnst ekki hafa verið mikið í bókunum undanfarið, eins og Þöngull og Þrasi og Fillífjonkan. Þetta er einmitt einn af kostunum við bækurnar – heimur múmínálfanna er stór og í honum eru margar persónur sem er gaman að kynnast.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.