Eva Björg Ægisdóttir sigraði Svartfuglinn með glæpasögu sinni Marrið í stiganum árið 2018 og hefur árlega gefið út bók í jólaflóðinu síðan þá. Eva Björg var ekki lengi að stimpla sig inn sem einn af mínum uppáhalds íslensku glæpasagnahöfundum og hefur hún bæði náð vinsældum hér á landi og í Bretlandi og Frakklandi svo einhver lönd séu nefnd. Bækur hennar hafa raunar verið þýddar á tuttugu tungumál.

Í ár er Heim fyrir myrkur framlag Eva Bjargar til flóðsins. Bókin sker sig úr frá fyrra höfundaverki þar sem um sögulega glæpasögu er að ræða og óupplýst, kalt, mannshvarf.

 

Festist aldrei í sama farinu

Árið 1966 hefur hin 14 ára Marsibil bréfaskriftir við pennavin, unglingsdreng sem býr hinum megin á landinu. En Marsibil skrifar undir bréfin með nafni Kristínar, eldri systur sinnar. Bréfaskiptunum lýkur ári síðar með ákvörðun, Marsibil og pennavinurinn ætla að hittast. Marsí missir af stefnumótinu en á sama stað og þau ætluðu að hittast finnst blóðug úlpa systur hennar sem hverfur sporlaust sama kvöld. Tíu árum eftir hvarfið fær Maribil nýja sendingu frá óþekkta pennavininum.

Eva Björg festist aldrei í sama farinu og býður alltaf upp á eitthvað nýtt fyrir lesendur. Að þessu sinni er sagan sögð frá sjónarhóli Marsibiliar eða Marsí sem er í upphafi sögu á leið frá borginni til foreldra sinna á Vesturlandi í skálduðum bæ þar sem þau reka eggjabú. Marsí er 25 ára gömul og hefur búið í borginni í einhvern tíma og fer sjaldan heim, hún fer þó árlega til foreldra sinna í skammdeginu í lok nóvember til að vera með þeim á deginum sem systir hennar hvarf. Fyrir utan blóðugu úlpuna sem fannst kvöldið sem Stína hvarf eru engar vísbendingar. Allt líf er farið úr foreldrahúsum Marsíar, foreldrar hennar eru orðnir eins og draugar og anna bakkusi mikið. Marsí hefur alltaf kennt sjálfri sér um hvarfið þar sem hana grunar að Stína hafi hitt óþekkta pennavin hennar þetta kvöld og það hafi verið henni bani. Hún sagði hvorki lögreglu né foreldrum frá pennavininum á sínum tíma og þegar henni berst bréf frá honum á ný þegar hún er hjá foreldrum sínum ákveður hún að gera það sem hún hefði átt að gera áratug fyrr og reyna að leysa málið.

Mannshvarf í litlu plássi

Bókin fer af stað á spennandi hátt og það er við hæfi að lesa hana í skammdeginu þar sem hún gerist á þessum köldu, myrku dögum. Eins og áður nýtir Eva Björg sér minna pláss (í fyrri tilfelllum m.a. Akranes) til að skapa trúverðugt sögusvið þar sem allir þekkjast og fólk rekst hvert á annað úti á götu. Sögusviðið er einhvers staðar nálægt Kleppjárnsreykjum þar sem er einungis ein krá og því raunsætt að Marsí rekist strax á fyrrum vini systur sinnar sem hún vill spyrja nánar út í hvarfið. Ég kveikti strax á perunni að á Kleppjárnsreykjum voru stúlkur sem voru í „ástandinu“ þar sem frábær heimildamynd Ölmu Ómarsdóttur um málið hét Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, en án þess að segja of mikið kemur þessi svarti blettur í sögu Íslands að hluta til inn í söguna.

Eva Björg nýtir sögusviðið vel en er minna að vinna með tíðarandann. Það fer lítið fyrir því að sögunni sé lyft upp með málfari tímans, lýsingum á fatnaði og umhverfi og þótti mér það miður. 

Of margir þræðir

Skipt er milli sjónarhorna í bókinni þannig að lesandinn fær aðeins að fylgjast með lífi Stínu sem var tveimur árum eldri en Marsí og þannig 16-17 ára gömul þegar baksagan á sér stað. Það kemur fljótlega í ljós að ýmislegt annað var í gangi í hennar lífi sem gæti hafa haft áhrif á hvarf hennar. Foreldrar Marsí fara svo sífellt að reyna að draga úr því að hún rannsaki málið, sérstaklega mamma hennar. Vegir liggja því til margra átta og á Marsí í fullu fangi með að reyna að greiða úr öllum vísbendingunum.

Ég hef verið afar hrifin af öllum verkum Evu Bjargar þó mér finnist ennþá Þú sérð mig ekki standa upp úr. Heim fyrir myrkur greip mig í byrjun en því miður þótti mér bókin missa marks þegar hún var um það bil hálfnuð. Kannski voru þræðirnir einfaldlega of margir og mín upplifun var að sumir þræðir voru settir til hliðar og hurfu eiginlega í bókinni. Bókinni hélt þó dampi og var spennandi og kom sífellt á óvart. Því miður þótti mér þó fléttan, sér í lagi undir lokin, ekki nógu góð. Það er alltaf spennandi þegar höfundur reynir stöðugt við eitthvað nýtt form og nýja karaktera og hlakka ég því til að lesa það sem Eva Björg skrifar næst.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...