Eva Björg Ægisdóttir er hægt og rólega að skipa sér sess sem einn af okkar fremstu glæpasagnahöfundum. Síðan hún hreppti fyrsta Svartfuglinn árið 2018 fyrir bók sína Marrið í stiganum hefur bók eftir hana verið fastur liður í jólabókaflóðinu. Bækurnar hafa fengið góðar viðtökur. Í ár kemur fjórða bókin út, Þú sérð mig ekkiMarrið í stiganum hlaut verðlaun í Bretlandi sem besta frumraun í glæpasagnaskrifum og verið þýdd á ensku, frönsku og þýsku.

Ráðgáta á Snæfellsnesinu

Þú sérð mig ekki gerist alfarið á Snæfellsnesi og er ekki hin týpíska glæpasaga, þar sem lögreglumenn leysa málið. Ekki þannig. Hér fær lesandinn innsýn í líf Snæbergsfjölskyldunnar, áhrifamikla og sterkefnaða fjölskyldu, og þær upplýsingar sem mjatlað er út til lesandans í hverjum kafla kasta ljósi á lygar og leyndarmál. Það er ljóst frá upphafi að glæpur hefur verið framinn. Spurningin er bara hvernig, hvers vegna, hver dó og hver er morðinginn?

Sagan gerist árið 2017, ári áður en Elma rannsóknarlögregla, sem er aðalpersónan í fyrri bókum Evu Bjargar, flytur á Akranes. Því kemur hún ekkert við sögu í bókinni og í raun er lögreglumaðurinn Sævar líka lítill þáttakandi í sögunni. Sagan er þó sögð frá sjónarhorni meðlima Snæbergsfjölskyldunnar, það er; Petru Snæberg, Leu Snæberg og Tryggva kærasta Oddnýjar Snæberg. Inn á milli fær lesandinn innsýn í rannsókn morðmálsins sem tengist fjölskyldunni.

Fórnarlamb og morðingi?

Gestur af hótelinu hefur fallið fram af klettum og gerandinn getur aðeins verið einn af hinum gestum hótelsins. Þessa helgina hefur vínið flætt frjálst á veitingasal hótelsins, fólk hefur skemmt sér vel og flestir undir áhrifum þegar verkaðurinn á sér stað. Lesandinn hefur ekki hugmynd um hver hinn látni er. Þá er líka ráðgáta hver varð fórnarlambinu að aldurtila. Lesandinn fær frelsi til að velta fyrir sér hugsanlegu fórnarlambi og geranda eftir því sem líður á bókina og heldur bókin honum í heljargreipum. Bókin rændi mig svefni. Eva Björg kynnir til sögunnar fjölda fórnarlamba og gerenda og þegar líður að lokum er nær engin leið fyrir lesandann að sjá fyrir hver hinn látni er eða morðinginn.

Eva Björg tekur fyrir nokkur þemu í bókinni. Það er; hin undarlega dýrkun á samfélagsmiðlastjörnum, skökk ímynd almennings á því sem varpað er fram þar, aðdáun okkar á hinum ríku og frægu og svo öryggi unglinga á internetinu. Allt spilar þetta sinn þátt í framvindu sögunnar og leið lesanda að lausn málsins.

Ekki er allt sem sýnist

Mér fannst skjóta skökku við í byrjun bókar að sjá að hver kafli er skrifaður í fyrstu persónu. Það vandist þó fljótt og textinn flaut áfram áreynslulaust. Mér þykir ljóst að Eva Björg hefur fullþroskað stíl sinn í þessari fjórðu bók sinni. Hún sækir ekki eins mikið í norrænu glæpasagnahefðina, þar sem allt er heldur kalt og ofbeldisfullt, í þessari bók heldur nálgast hér ráðgátuna.

Þú sérð mig ekki er grípandi glæpasaga þar sem lygar grassera og ekki er allt eins og sýnist á samfélagsmiðlum.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...