Hispurslaus, hrá og ávanabindandi

Bergþóra Snæbjörnsdóttir er rithöfundur sem öll ættu að kynna sér, hafi þau ekki gert það nú þegar. Bergþóra vakti mikla athygli með ljóðabókinni Flórída (2017) og aftur með fyrstu skáldsögu sinni, Svínshöfuð (2019). Fyrir báðar bækur hlaut hún tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Mörg hafa beðið í ofvæni eftir annarri skáldsögu hennar, ég þar á meðal, og loksins í ár kom út skáldsagan Duft – Söfnuður fallega fólksins. Ég get sagt ykkur strax að hún veldur aðdáendum Bergþóru engum vonbrigðum. 

Duft fjallar um líf Veróniku allt frá fæðingu til ákveðinna tímamóta í hennar lífi á fullorðinsaldri. Foreldrar hennar eru þjóðþekkt í íslensku samfélagi þar sem þau eru eigendur líkamsræktarveldis sem telur fjölda starfstöðva, undir heitinu Stöðin. Verónika elst því upp í heimi þar sem útlitsdýrkunin ræður ríkjum.

„Feit, spikuð, klepruð.“

Foreldrar Veróniku eru efnaðir og hana skortir ekkert efnislegt, en er svelt af ást og umhyggju. Halldóra, móðir hennar, er glæsikvendi, falleg, mjó og spengileg. Veróníka erfði því miður ekki fullkomnu genin hennar og lifir með því að hún getur aldrei orðið jafn grönn og gallalaus og móðir sín. Halldóra kennir eróbikktíma hjá Stöðinni: 

„Það var Halldóra sem sá um að vigta kerlingarnar í megrunarhópnum á hverjum degi. […] Litlar, stórar, flæðandi og beinaberar, ungar konur með bláan augnskugga og eldri frúr með blásið hár. Ein af annarri stigu þær á litla baðvog úr plasti með grænu, loðnu tauefni, héldu niðri í sér andanum og biðu eftir úrskurði hennar.“ (bls. 17)

Fitufordómar og -smánun eru gegnumgangandi í bókinni. Verónika elst upp í þessu umhverfi, umvafin fordómum, og sem barn verður hún sjálf fordómafull, elur með sér búlimíu og dæmir hvern þann sem er með aukakíló. Lýsingarnar hitta beint í mark, ógeðfelldar hugsanir bæði Veróniku og annarra persóna í bókinni koma ekkert á óvart, en eru samt sem áður áhrifamiklar þar sem höfundur heldur ekkert aftur að sér. Þetta sést vel þegar Verónika rekst á fyrrum bestu vinkonu sínu úr barnæsku, sem hún lagði  í einelti áður en leiðir þeirra skildu:

Eva hafði blásið út en bara frá hálsi og niður. Hálsinn á henni var mjúkur og þykkur og leiddi niður að mjúkum og hlaupkenndum líkama, maginn sem hafði eitt sinn verið svo flatur að hann var innfallinn var nú þykkur og flæddi í fellingum þótt hún reyndi að fela það með því að rykkja belti utan um mittið. […] hún var feit, spikuð, klepruð. (bls. 291)

Fullkomið fórnalamb sértrúarsöfnuðar

Frásögnin af barnæsku og uppvexti Veróniku gjörsamlega gleypir lesandann í sig. Hann hverfur inn í hringiðu óheilbrigðs heimilis, sjálfumgleði, fegurðardýrkunnar og grimmilegra eineltistakta ungra stelpna. En það er bara fyrri hluti bókarinnar. Sá seinni segir frá fullorðinsárum Veróníku þar sem hún er orðin fjármálastjóri hjá Stöðinni en hefur samt ekki tekist að festa rætur:

Skyndilega kom yfir mig sú tilfinning að mér hefði mistekist. Að ég væri misheppnuð kona að hafa ekki fundið mér lífsförunaut, jafnvel eignast börn. En þegar ég fór að reyna var ég eins og saumaklúbbur í vínsmökkun, hlaupandi á milli glasa sem ég drakk örvæntingarfullt úr af svo miklum asa að ég naut ekki neins. (bls. 180)  

Verónika deitar þó mann, Kidda, í nokkra mánuði þar til hann finnst frosinn í hel fyrir utan íbúðarblokkina sína eftir að hún rak hann út í ölæði. Í jarðarför Kidda kemst hún í kynni við hinn sjarmerandi bisnessmann Prins, höfuðpaur fyrirtækisins Biology of Bliss sem hún kastar öllu á glæ fyrir. Hún selur hlut í fjölskyldufyrirtækinu til að fjárfesta í bætiefnaframleiðslunni hans og skráir sig á námskeið í höfuðstöðvunum sem á að bæta heilsu hennar og líf.

Þannig blandast Verónika inn í hálfgerðan sértrúarsöfnuð þar sem Prins er guð þeirra sem taka bætiefnin hans, duftið sem efla á heilsu þeirra allra. Verónika er fullkomið fórnarlamb, hún þráir tilgang, viðurkenningu, heilsu og fegurð – og er rík. Hún þráir jafnvel að vera refsað og láta koma illa fram við sig. Loksins lætur einhver sig hana varða nógu mikið til að brjóta hana niður og byggja hana upp aftur eftir sínu höfði. Hún verður undirgefinn fylgjandi – freka og dekraða stelpan deyr við heilaþvott Prins. 

„Líf mitt var duft í stundaglasi, efnismassi sem liðaðist í sundur í lítilfjörleg brot þegar glasið var hrist.“ (bls. 333)

Dufti er varla hægt að gera nógu góð skil í svo stuttri umfjöllun. Bókmenntafræðingurinn innra með mér vill helst skrifa um hana heila mastersritgerð, úr svo mörgu er að moða. Bergþóra grípur samtímann og dregur upp það versta í fari okkar allra, hégómann, fegurðarþorstann, hræsnina, og skapar úr því gífurlega grípandi skáldverk sem hlífir engum. Persónurnar eru meingallaðar manneskjur, ég held að mér hafi ekki líkað við eina einustu, en þær eru þó svo sannar og hráar í breyskleika sínum. Frásagnarstíllinn er hispurslaus og dáleiðandi, myndmálið ferskt og áhugavert, jafnvel ávanabindandi. Þetta er bók sem varla er hægt að leggja frá sér, hún heldur lesandanum í álögum frá fyrstu síðu. 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.