Verið óhrædd, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð: Rambó.

Fyrir þremur árum eða svo, las ég í fyrsta skipti bók eftir höfundinn Yrsu Þöll Gylfadóttur. Ég verð að viðurkenna að væntingarnar voru ekki miklar, ég á það til að dæma kápurnar eftir útlitinu og kápa skáldsögunnar Strendingar lofaði ekki góðu, fannst mér. En þarna misreiknaði ég mig heldur betur. Strendingar reyndist vera virkilega góð skáldsaga og var að mati Lestrarklefans ein af bókum þess árs sem drukknaði í jólabókaflóðinu. Ég varð því himinlifandi þegar ég fékk í hendurnar bókina Rambó er týndur, nýjustu skáldsögu Yrsu Þallar, þó svo að kápan væri frekar óspennandi eins og í fyrra skiptið.  Bókabeitan gefur bókina út og hjá þeirri útgáfu má líka finna léttlestrarbækur eftir Yrsu Þöll sem eru allrar athygli virði.

En aftur að Rambó. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum og tel þessa sögu mun stærri en blaðsíðufjöldi segir til um. Óheiðarleg samskipti, yfirborðsmennska, tilgerð og óheilbrigð tengsl. Allt er þetta umfjöllunarefni sem talar til okkar í dag, á tímum sýndarveruleika samfélagsmiðla og yfirborðskenndra samskipta.

Aðalpersónan Sandra Söderström er grunnskólakennari á fertugsaldri. Hún býr ein en þráir ástina og það að tilheyra. Einsemdin dregur hana út á lífið, oftar en góðu hófi gegnir. Á djamminu gerir hún sér vonir um nánari kynni og jafnvel hina einu og sönnu ást. Sandra á í erfiðleikum með áfengi, kann sér ekki hóf og rekkjunautarnir eru ekki alveg að hennar skapi þó hún láti sig hafa þá á meðan ekkert betra býðst. Hún verður því frekar undrandi á að finna ástina í Sorpu, af öllum stöðum, sem gerir það að verkum að tiltektaræði grípur hana og Sorpuferðirnar verða því tíðar. Og Sandra lætur sig dreyma um Sorpusjarmörin Leif, kemst að því að hann hefur týnt hundinum sínum og heill her af fólki leitar hundsins dag og nótt. Svo Sandra slær til og gefur sig alla í leitina að hundinum Rambó, enda leiðin að hjarta mannsins hundurinn hans.

Ást þar sem síst skyldi.

Þessi bók er feikilega vel skrifuð, persónusköpunin er djúp, flókin og hittir lesandann stundum óþægilega fyrir. Öll þekkjum við týpuna Söndru, sem í upphafi er heillandi og skemmtileg, þar til glansinn fer að dofna og í ljós kemur sjálfhverfur einstaklingur, fastur í hlutverki fórnarlambsins og getur ekki með nokkru móti séð neitt rangt við sína hegðun eða framkomu. Saga Söndru er að mörgu leyti saga margra.

Einelti og erfið uppvaxtarár marka hennar karakter og með brotna sjálfsmynd dregst hún að einstaklingum sem hafa tilhneigingu til að fara illa með hana eða að hún fer illa með þá.  Óuppgerð mál úr bernskunni birtast okkur hér og þar í frásögninni sem varpa sýn á orsakir þess að Sandra er eins og hún er.  Aldrei nokkurn tímann er ýjað að réttlætingu á hennar hegðun en lesandinn fær að mynda sér skoðun sjálfur, ákveða hvort hann horfi á persónuna með gagnrýnum augum eða  sýni henni skilning og samkennd.

Leifur hinn fagri, Sorpumaðurinn, og Birkir, samkennari Söndru, eru ekki síður áhugaverðar persónur.  Leifur spilar með fólk, nýtir útlitið, sjarmann,  og ekki síst sýndarveruleika samfélagsmiðlanna til að spila með fólk sem hann þekkir í raun ekki neitt. Hins vegar kynnumst við honum í gegnum Söndru og það þarf ekki langan lestur til að komast því hversu óáreiðanleg heimild hún getur verið. Birkir, samkennari Söndru, er hinsvegar heilsteyptur að innan, þekkir sín mörk og lætur ekki spila með sig. En Sandra lýsir honum á kaldhæðnislegan hátt og dregur dár að honum og mig langaði virkilega að hrista hana til, fá hana til að sjá hvaða manni hún væri að kasta frá sér.

Á bakvið glansmyndina er eitthvað allt annað.

Svo er það þetta með gæludýrasamfélagið og samstöðu. Þegar kemur að málum sem mögulega gætu verið umdeild þá veigrar fólk sér við að taka afstöðu en sýnir þeim mun meiri samheldni um málefni sem eru örugg, málefni sem samfélagið getur verið sammála um. Gæludýrasamfélagið í sögu Yrsu leggur sig fram í samstilltu átaki til að hafa uppi á týndum gæludýrum bláókunnugs fólks. Sjónarhornið sem Yrsa sýnir lesendum á hópinn er virkilega vel mótað.  Lesandinn skynjar hversu áhrifarík og mögnuð svona samtök geta verið.

En skuggahliðar þess koma líka í ljós, múgæsingur á það til að myndast og erfitt er að greina á milli þess hvað sé rétt eða rangt þegar upplýsingum er miðlað í gegnum samskiptaforrit.  Það þarf ekki nema eina misheppnaða færslu til að koma heilum hópi af fólki í gríðarlegt uppnám. Þetta vakti mig líka til umhugsunar um af hverju við getum þjappað okkur saman um málefni eins og gæludýr, staðið saman sem ein heild en þegar kemur að öðrum málefnum þá er samstaðan enginn og fólk horfir í hina áttina.

Þessi skáldsaga sýnir svo ekki verður um villst hversu næm Yrsa er á bresti okkar, væntingar og þrár. Hún fléttar þessu öllu listilega saman svo úr verða trúverðugar persónur í trúverðugum aðstæðum. Hrynjandinn í sögunni er jafn og þéttur og hvergi er misfella, hvergi ósamræmi í persónusköpun.  Hún hittir okkur sjálf fyrir, þörf einstaklingsins fyrir að tilheyra og sú yfirborðskennda þörf fyrir að líta vel út útávið, vera með flotta prófílmynd á Facebook. Og hver kannast ekki við þá tilfinningu að þurfa að láta allt líta eins flott út og framast er hægt, einmitt þegar allt er í tómu tjóni.

Kilja sem á erindi í jólapakkann

Rambó er týndur er vel gerð skáldsaga um raunveruleg málefni líðandi stundar. Hún deilir á yfirborðsmennsku og hittir lesandann oft óþægilega fyrir.  Yrsa Þöll sýnir í þessari bók að hún er með okkar allra bestu höfundum og handleikur mannlega bresti, samskipti kynjanna og nútímasamfélagið listilega vel. Og það sem er líka vert að taka fram er að hún er jafnvíg á að skrifa djúpar skáldsögur fyrir fullorðna og svo bækur fyrir börnin.  

Ég hefði viljað fá þessa bók innbundna. Enn erum við stundum föst í þeirri villu að kiljur eða þiljur, eins og þessi skáldsaga myndi flokkast, séu ekki gjaldgengar sem gjafir. Því gæti farið svo að hún færi halloka þegar velja þarf bók í jólapakkann. En verið óhrædd við þessa kilju, hún er allrar athygli verð.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...