Lestur á skáldsögunni Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson er orðin að árlegri hefð hjá mörgum í jólamánuðinum. Á mörgum stöðum er hún lesin upp, til að mynda í Gunnarshúsi í boði Rithöfundasambandsins, sem minnir á gömlu húslestrana. Sagan fjallar um Fjalla-Bensa, eða Benedikt, sem fer í leit að flökkukindum á öræfum fyrsta sunnudag í aðventu ásamt föruneyti sínu, hundinum Leó og forystusauðnum Eitli. Gunnar byggir verkið á sannri sögu eða upp úr frásögn Þórðar Jónssonar úr tímaritinu Eimreiðinni. Skáldsagan er stutt, í raun nóvella eða styttri-skáldsaga en í þessari stuttu frásögn nær Gunnar að magna fram djúpa og marglaga sögu ásamt sterkum og eftirminnilegum persónum. 

 

 

En hvað er það við þessa bók sem kemur fólki í jólaskap? Jú,  hún heitir Aðventa og tímabil sögunnar er nokkrum dögum fyrir jól en það er í sjálfu sér aldrei nóg. Hvað er það við þessa sögu sem við sækjum í svona ítrekað? Þráum við bítandi kuldann eða er það bara vegna þess að hann er kunnuglegur og okkar arfleifð? Eða er það einfaldleikinn sem við viljum hjúfra okkur upp að og minna okkur á í aðdraganda jólanna?

Söngur og ljóð í skáldsögu

Söguþráðurinn sjálfur er í raun ekki það sem er mest grípandi í Aðventu heldur mætti frekar segja að það sé úrvinnslan og tónninn sem spilar lykilhlutverk í hughrifunum og vinsældum sögunnar. Hér eru einhver magnþrungin áhrif á ferð. Það hvernig hann lýsir nístingskuldanum, óveðrunum, kafaldinu og snjóbylnum. Lesandi verður einhvernveginn eitt með frásögninni. Lesandi snjóar inni með Benedikt í holunni uppi á fjöllum og finnur svo sterkt fyrir mjöllinni sem umlykur allt og hvernig kuldinn þyrmir yfir. Þegar myrkrið verður kæfandi og nánast lifandi fær lesandi innilokunarkennd af lestrinum einum saman.  En jafnvel þó þetta sé nöturlegt umhverfi, ískalt og stingandi þá er rómantík yfir vötnum. Veðráttan og fjöllin sem gnæfa yfir honum og umfaðma gefa einhvern lífsins þrótt og vilja og lesandi fer jafnvel að þrá þetta undarlega hlutskipti hans Benedikts. Að vera einn með fjöllunum og náttúrunni, finna kraftinn sem Gunnar nær að fela svo einstaklega vel í orðum. En þetta er mest lesna og þýdda bók Gunnars. Margar setningar eru svo fallega meitlaðar að þær eru nánast eins og söngur eða ljóð og óma svo undurblítt en á sama tíma kröftuglega. 

“Birtunóran, sem mjallarþyrlarnir mólu á milli sín fölnaði æ meir, mólst í myrkur með daufa tunglsglætu einhversstaðar að baki, mjallarmyrkur, rjúkandi rofalausa aldimmu. 

Það er síðan eitthvað svo innilega fallegt og tært við kjarna söguþráðarins, það hvernig Benedikt er tilbúinn að fórna lífi sínu til þess eins að finna fyrir og upplifa tilgang sinn. Það er þessi einfaldleiki aðalpersónunnar, hvað hann er trúr sínu markmiði, nægjusamur í lífi og starfi og með sterka náttúru- og tilfinningargreind sem grípur ást lesandans. Það hvernig hann finnur allt lífið og þakklætið í einum kaffisopa. 

“Því það vil ég láta þig vita, Leó minn, að sjálfur páfinn í Róm býr ekki betur og höfðinglegar en þú og ég né hefur hreinni samvisku …”

Fulltrúi hins einfalda

Það er ekki annað hægt en að vera með honum í liði, feta þessa slóð með honum óhikað og finna til tilfinningalegra tengsla við textann og örlög persóna. 

Aðventu er best að lesa hægt, eða oft (til dæmis árlega) og japla á henni, láta fannfergið umlykja sig og nísta inn að beinum. Önnur frábær leið er einmitt að hlusta á hana í upplestri. Það er eitthvað við að heyra fagurlega mótaðar setningarnar og öll þau sterku og fallegu íslensku (og oft gleymdu) orð um veðráttu lesnar upp sem vekur upp sérstaka ánægju. Umhverfislýsingarnar hjá honum eru svo beittar og hrjúfar en flæðandi, á sama tíma svo innilegar. Lesandi finnur sterkt fyrir ást sögumanns, eða kannski frekar ást Benedikts, á landinu, óstýriláta veðrinu og þrá hans eftir friði og einsemd. 

Benedikt er fulltrúi einfalds lífs, þegar við öll þráum einhvers konar innri ró og einfaldleika. En það er hollusta hans við þennan undarlega tilgang sinn, tilgang sem hann er tilbúinn til að deyja fyrir sem að glæðir ljósi í hjarta lesenda. 

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...