Þegar bókin er betri en skjárinn, nýjasta spennubókin um Lalla og Maju.

Ellen Alexandra Tómasdóttir er nemandi í 5.bekk í Grunnskóla Grundarfjarðar. Hún er mikill lestrarhestur og ákvað að skella sér í Lestrarklefann til mín til að ræða nýjustu bókina um þau Lalla og Maju, Spítalaráðgátuna. Spítalaráðgátan er í bókaflokknum Spæjarastofa Lalla og Maju og hafa þessar bækur verið með þeim vinsælustu á skólabókasafninu í Grundarfirði sem og víðar í skólabókasöfnum landsins. Bókin er sú fimmtánda í röðinni um Lalla og Maju og í þessari bók þurfa þau að leggja lögreglunni lið við að leysa snúið mál á spítalanum í bænum. Bókin er gefin út af Forlaginu og er skrifuð af Martin Widmark með myndskreytingum Helen Willis.

Spennandi frá fyrstu blaðsíðu

„Bókin er mjög spennandi og myndirnar svakalega flottar. Það skiptir mjög miklu máli að hafa flottar myndir ef það eru myndir“ segir Ellen og bætir við að textinn sé auðveldur, eiginlega sé hægt að flokka þessa bók sem léttlestrarbók. En skiptir það máli? Nei, Ellen vill ekki meina að það skipti svo miklu máli. Ef bókin sé vel skrifuð og fallega myndskreytt þá sé hún ekki að spá hvort bókin sé ætluð fyrir yngri krakka eða krakka sem séu að byrja að læra að lesa. „Bókin er spennandi frá fyrstu blaðsíðu“ segir Ellen og þar sem hún hafði lesið allar fjórtán bækurnar um Lalla og Maju sagðist hún hafa vitað að bókin yrði spennandi. Hún hafði því ákveðnar væntingar sem bókin stóð svo fyllilega undir.

En af hverju eru þessar bækur svona vinsælar? Ellen Alexandra á ekki í vandræðum með að svara því.  „Þetta eru bækur sem eru spennusögur, með flottum myndum og góðum texta og lesandinn veit að þær enda vel.“ Og Ellen heldur áfram: „Málið er að krakkar geta oft gert miklu meira en fullorðna fólkið heldur. Og þó við séum kannski ekki að aðstoða lögregluna við að leysa glæpamál þá kannski gætum við það samt alveg, allavega stundum. Fullorðna fólkið á ekkert endilega að ákveða hvað við getum og hvað við getum ekki.“ Hvað finnst Ellen þá um umræðu fullorðna fólksins um barnabækur? „Sko, fullorðið fólk veit oft ekkert hvað okkur finnst gaman að lesa, ég held að við vitum það best bara sjálf,“ segir hún og hlær.

„mamma segir að það sé betra að lesa bók en góna á símann…“

Af hverju ætli Ellen sé svona mikill lestrarhestur? „Lestur er róandi, hann er skemmtilegur og góður fyrir ímyndunaraflið. Svo voru mamma og pabbi dugleg að lesa fyrir mig þegar ég var lítil. Pabbi les þó sjálfur bara hræðilegar bækur, ekki fyrir mig samt. Mamma segir að það sé betra að lesa bók en góna á símann og það er bara alveg rétt hjá henni“. En aftur að bókinni um Maju og Lalla, Ellen mælir svo sannarlega með þessum bókum og þessi nýjasta viðbót í bókaflokknum stenst algjörlega hennar væntingar.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...