Hann kallar mig örverpið sitt

Verðlaunahandrit bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar var gefið út sem ljóðabókin Örverpi í lok síðasta árs og er hún fyrsta bók höfundar. Birna Stefánsdóttir, höfundur bókarinnar, er með bakgrunn í stjórnmálafræði og meistarapróf í ritlist frá Háskóla Íslands.

Ljóðin eru leitandi og opin, en fyrst um sinn leita á lesanda spurningarnar:

Við hvern er ljóðmælandi að tala?

Um hvern er ljóðmælandi að tala?

Hver er ljóðmælandi?

Og, er ljóðmælandi höfundur?

 

Ljóðmælandi er ráðgáta

Á fyrstu síðunum hélt ég að ljóðmælandi væri kona sem ætti ömurlegan kærasta. Ég féll auk þess í þá algengu grifju að halda að ljóðmælandi væri höfundur sjálfur eða staðgengill hennar, eins og lesendur eru gjarnir á að gera. Eftir nokkrar síður taldi ég að ljóðmælandi ætti bróður sem væri haugur, þar sem móðir ljóðmælanda kom við sögu. Svo hélt ég að ljóðmælandi ætti bróður sem var langveikur eða fatlaður. Svo áttaði ég mig á því að bókin fjallar um föður ljóðmælanda, og að öll gleymskan er ekki tákn um lélega athyglisgáfu eða að varpa þriðju vaktinni á kvenfólk, heldur um heilabilun.

Hann borðar fjögur epli í röð

Ljóðmælandi lýsir ástandi föður síns á þann hátt að heilabilunin verður skýrari eftir því sem líður á. Mælt var með því við mig að lesa bókina tvisvar. Í fyrra skiptið er lesandi leynilögreglumaður að ráða gátu, leitandi að svörum við spurningunum sem ég taldi upp hér að ofan og hakkar bókina í sig í leit að svarinu. Í seinna skiptið er lesið af meiri yfirvegun, lesandi finnur sársauka, angurværð og að lokum deyfð þeirra sem sætta sig við það sem enginn fær breytt. Það er magnað hvernig hægt er að lesa bókina í einum bita, setja saman brotin sem mynda heildina og frelsa söguþráð úr línunum. Einnig er hægt að lesa bókina hægt, nokkur ljóð í einu, jafnvel bara eina opnu í senn, láta merkinguna gerjast innra með sér og njóta hennar.

Framarlega í bókinni koma fyrir lýsingar á borð við:

Hann borðar fjögur epli í röð og segir mér í hvert skipti hvað þau voru góð.

og

Hann telur tröppurnar tvisvar, svo þrisvar.

Þegar þær eru lesnar í fyrsta sinn er auðvelt að halda að þetta séu ekki merki um heilabilun heldur um glaðværan persónuleika. Ég sá fyrir mér kærasta sem hljóp upp tröppur Akureyrarkirkju af því það er svo gaman, ekki af því hann gleymdi að hann var búinn að telja. Ég sá fyrir mér ungan mann að borða epli af einstakri lífshamingju þeirra sem aldrei setja í uppþvottavél eða kaupa í matinn. Í öðrum lestri sé ég fullorðinn mann sem gleymir eplabragðinu í hvert sinn sem hann kyngir síðasta bitanum, safi eplisins er rétt þurrkaður af hökunni þegar minnið bregst og hann sér epli í skál. Grípur það og bítur í. Segir dóttur sinni hvað það er gott. Sér ekki rauða augnhvarma dóttur sem er að missa föður sinn jafn hratt og undurhægt og eplið hverfur ofan í hann. Svo næsta.

Faðirinn fær inn á hjúkrunarheimili. Hann gleymir nútímanum, lítur til baka. Man ekki eftir breytingum sem áttu sér stað fyrir löngu. Hann týnist og villist. Lesandinn syrgir með ljóðmælanda.

Eins og skrifuð fyrir mig

Öll ljóðin eru stutt og hnitmiðuð og saman spinnst úr þeim falleg heild, en þau geta þó líka staðið ein. Til dæmis þetta hér:

Ég sendi mömmu skilaboð um að ég sé stolt af henni.

Hún er búin að sjá þau.

Í þessu stutta ljóði finnst mér höfundur fanga vel upplifun á samskiptum milli kynslóða, af þúsaldardóttur að segja uppgangskynslóðarmóður að hún sé stolt af henni og mamman kann ekki að svara.

Bókin er, að mínu mati, ferskur andblær í ljóðaúrval ársins, og vel að sigri sínum í keppninni komin. Það er mikil list að segja svona mikið í svo fáum orðum. Ég elska stutt og einföld ljóð sem eru samt ótrúlega djúp og flókin þegar þau eru krufin. Ég elska óbundið mál, fallega uppsetningu og hráan hversdagsleika í listformi. Það er eins og höfundur hafi skrifað bókina fyrir mig og passað að nota eingöngu stílbrögð sem eru mér að skapi. Svo reyndar á ég  ættingja sem er hægt og bítandi að hverfa fyrir augum okkar, svo það kannski spilar inn í áhrifin. Talmál og endurtekningar vinna saman til að skapa nístandi sorg og söknuð í hversdeginum og sagan sem brýst fram við lesturinn snertir innsta kjarna. Að sjá föður breytast í barn, í nýja manneskju, jafnvel þó sá sem les hafi ekki upplifað það á eigin skinni þá getur hann ímyndað sér viðsnúninginn og tilfinningarnar sem honum fylgja.

Ég veit ekki hvernig bókin snertir þá sem þekkja upplifunina svo náið sér, en ég get ímyndað mér að þráðurinn sem bókin vefur búi djúpt í hjörtum þeirra. 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.