Bækurnar sem þú ættir að lesa í febrúar

Jólabókaflóðið hefur yfir sér rómatískan blæ sem hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Í útlandinu keppist fólk við að lesa á jólanótt, eins og Íslendingar í „Jólabókaflóðinu“ – eins og Íslendingar sem fá bara bækur í jólagjöf á jólunum. Fæstir þessara útlendinga gera sér þó grein fyrir því að það sem þeir sækjast í raun a eftir er hið danska „hygge“. Stemmingin sem skapast á jólanótt með bók í hönd er „hygge“ og því skal ekki rugla saman við Jólabókaflóðið.

Jólabókaflóðið er ekkert annað en markaðsuppfinning sprottin upp af skorti á aðföngum um miðja 20. öldina. Þessi markaðshefð skapar nokkurs konar stríðsástand á bókamarkaði tvo mánuði ársins. Höfundar hafa tvo mánuði til að koma sér á framfæri og við bætast verðlaunatilnefningar, útgáfuteiti, hittast og heilsast, uppskeruhátíðir. Aðra mánuði ársins er lítið að frétta á bókamarkaði og það lítur næstum út fyrir að bækur eigi ekki pláss í samfélagi okkar nema rétt yfir myrkustu mánuðina. 

Þessi hefð hefur líka gert það að verkum að fjöldi bóka sem hefðu átt skilið mun meiri athygli týnast í flóðinu og fá jafnvel aldrei þá upphefði sem þær eiga skilið. Nýir höfundar fá ekki tækifæri til að kynna sig. Bókagagnrýnendur fá vart tækifæri til að glöggva sig á öllum bókum flóðsins. Og einhvern veginn koma allir þreyttir – úrvinda jafnvel – og svolítið pirraðir frá jólabókaflóðinu. Janúar byrjar og það er ládeyða yfir bókunum þar til Íslensku bókmenntaverðlaunin eru afhent. Eftir það gerist ekkert fyrr en í byrjun október.

Hér á eftir fer listi bóka sem okkur í Lestrarklefanum finnst að hefði mátt fá meiri athygli, enda þrusugóðar bækur. Því skal þó haldið til haga að þessi listi er langt frá því að vera tæmandi og við hvetjum lesendur okkar til að halda áfram að lesa sig í gegnum útgáfu síðasta árs þessa fyrstu mánuði ársins. 

Skáldsögur

Líklega furðulegasti og lengsti bókatitill flóðsins, en rosalega var hún góð. Rebekku Sif fannst hún: „líklega besta bók Friðgeirs hingað til.“ Katrín Lilja las hana einnig og var mjög hrifin. Seratónínendurupptökuhemlar fjallar um fjölskylduföður og hjólasala sem finnur fyrir langvarandi depurð, að öðru nafni þunglyndi. En þrátt fyrir þungt og erfitt efni, þá er bókin launfyndin á milli þess sem hún er hádramatísk.  

Men – Vorkvöld í Reykjavík kom skemmtilega á óvart. Bókin er lipurlega skrifuð og húmorinn kraumar undir textanum. Atvinnulaus flautuleikari gerist menningarblaðamaður og þarf að taka viðtal við umdeildan fyrrum pólitíkus. Keðja furðulegra atburða á sér stað sem gerir það að verkum að ekkert verður úr viðtalinu en fortíð fyrrum ráðherrans afhjúpast unga manninum á enn undanlegri hátt. 

Rambó er týndur er frábærlega skemmtileg skáldsaga eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur. Hún sló algjörlega í gegn hjá þónokkrum pennum Lestrarklefans og því verður hún að fá pláss í þessari upptalningu. Það er okkur óskiljanlegt að bókin hafi ekki fengið fleiri dóma og umfjallanir. Ástir, hundar, daglegar ferðir í Sorpu, hvað getur lesandinn beðið um meira? 

Barna- og ungmennabækur

Svikabirta

Ingi Markússon sendi frá sér fyrstu bókina í þríleik árið 2022, Skuggabrúin. Bækurnar gerast í fjarlægri framtíð, þar sem heimurinn er hulinn myrkri og ís. 

Heimur Inga er metnaðarfullur og djúpur, fullur af ískaldri hörku og með spennandi atburðarrás. Auðvelt er að tengja við persónurnar en Svikabirta er sjálfstætt framhald þannig lesandinn kynnist nýjum persónum ásamt því að fá að endurnýja kynnin aftur við Hnikar og Dimmbrá sem voru söguhetjur Skuggabrúnnar.

Skrímslavinafélagið

Hér er á ferðinni bráðskemmtileg bók fyrir börn á aldrinum 5-12 ára eftir Tómas Zoëga og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur. 

Pétur og Stefanía þurfa að leysa ráðgátu í skólanum sínum. Inn í málin blandast vatnabobbar, lífskrydd og norn í bílskúr. 

Skrímslavinafélagið hentar mjög vel í heimalesturinn fyrir krakka sem eru orðnir nokkuð öruggir í lestri. Hvern hefði grunað að hægt væri að skrifa skemmtilega barnabók um myglu í skóla!

Strandaglópar – (næstum því) alveg sönn saga

Ævar Þór Benediktsson hefur verið einn afkastamesti barnabókahöfundur landsins síðustu ár. Í jólabókaflóðinu á síðasta ári var hann þó ekki með gríðarmikinn doðrant fyrir eldri börn, heldur gamansama sögu af Surtseyjargosinu og því þegar afi hans festist á virku eldfjalli úti í ballarhafi, með myndlýsingum Annie Wilson.

Bókin hefur hlotið fjölda tilnefninga og mikla athygli fyrir bráðskemmtileg efnistök vestanhafs, en hefur farið heldur hljótt hér á landi. Mögulega er komin gosþreyta í Íslendinga. En áhugasamir um skemmtilegar barnabækur, með frábærum myndlýsingum, ættu ekki að láta þessa fram hjá sér fara. 

 

Ljóðabækur

Dimma gaf út safn verka Edgars Allan Poe fyrir jólin. Í bókinni má finna gamlar og nýjar þýðingar á ljóðum og smásögum Poe. Greinilegt er af öllum umbúnaði bókarinnar að vandað hefur verið til verka við útgáfuna og vert er að hampa því sem vel er gert. 

Sölvi Björn Sigurðsson var með tvær bækur í jólabókaflóðinu í fyrra og þar á meðal ljóðabókina Anatómía fiskanna. Bókin er ljóðsaga, þar sem Absentía Valsdóttir, sem sér um útburð á smáauglýsingum til mannlífsblaða, þarf að færa rök fyrir því að af hverju hún hefur hafnað fjölda smáauglýsinga. Smáauglýsingarnar eru í formi ljóða sem skrifuð eru á knæpunni Glóðarauganu. 

Hér er launfyndin ljóðsaga sem afhjúpar dýpri sögu eftir því sem á líður bókina. 

Paradísarmissir eftir John Milton er öndvegisverk í enskum bókmenntum og kom fyrst út árið 1667. Jón Erlendsson hefur nú þýtt þetta stórvirki á þjált og skiljanlegt mál af aðdáunarverðri eljusemi og list, ásamt því að skrifa skýringar, en dr. Ástráður Eysteinsson skrifar inngang um verkið og sögu þess.

Það er alltaf fagnaðarefni þegar stórvirki á borð við þetta koma út í vandaðri íslenskri þýðingu. 

 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.