Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn Helga Reykdal.

Fyrri bókin um Helga, Hvítidauði, kom út árið 2019. Eftir það tók Ragnar sér hlé frá Helga og gaf út bækurnar Vetrarmein (2020), Úti (2021) og Reykjavík (2022) með Katrínu Jakobsdóttur.

Ég var mjög hrifin af Hvítadauða og því þótti mér alveg kærkomið að fá framhald af sögunni um Helga.

Mannshvarf og trufluð fyrrverandi kærasta

Árið er 2012 og lögreglumaðurinn Helgi Reykdal hefur fengið það verkefni að rannsaka hvarf rithöfundarins Elínar S. Jónsdóttur, en hinn sjötugi höfundur er frægasti glæpasagnahöfundur landsins. Hún hefur notið mikillar velgengni bæði innanlands sem utan og selt bækur í milljónavís. Ekki er vitað hvort Elín er lífs eða liðin og vegna þess hve þekkt hún er þá er farið lágt með hvarfið. Helgi þarf því að vinna að málinu í hálfgerðum felum.

Þegar vinnu sleppir þarf Helgi að kljást við flækjur í persónulega lífinu. Faðir hans er látinn og hann hefur áhyggjur af móður sinni sem er orðin heilsuveil. Í byrjun bókar hefur hann slitið samvistum við Bergþóru og er nýlega tekinn saman við Anítu. Fljótlega verður ljóst að Bergþóra er mjög trufluð manneskja og neitar að gefa samband þeirra upp á bátinn.

Lesendur fá að skyggnast inn í hugarheim Elínar í gegnum viðtal sem var tekið við hana nokkrum árum áður en einnig er flakkað aftur til sjöunda og áttunda áratugarins þar sem Hulda Hermannsdóttir, aðalpersóna úr fyrri bókum Ragnars, skýtur upp kollinum.

 

Lágstemmd ráðgáta

Bókin er ráðgáta frekar en spennusaga, eins og Ragnar lýsir henni sjálfur. Takturinn í sögunni er hægur og lengi vel er ekki einu sinni vitað hvort um dauðsfall sé að ræða.

Andi Agöthu Christie svífur yfir vötnum svo vægt sé til orða tekið. Hvarf Elínar minnir óneitanlega á hvarf Christie sjálfrar árið 1926 en hún fannst 11 dögum síðar á hóteli þar sem hún hafði verið innrituð undir dulnefni.

Helgi er forfallinn glæpasagnaaðdáandi og það er mikið lagt upp úr því að lýsa dálæti hans á bókum. Sérstaklega gömlum glæpasögum. Ég hugsaði með mér hvort glæpsagnanördaskapurinn sé of mikill til að höfða til hins almenna lesanda. Það er erfitt að komast hjá því að velta fyrir sér af hverju Helgi er í lögreglunni en ekki bóksali eða rithöfundur. Þar sem um þríleik er að ræða er ekkert ólíklegt að höfundur sé að byggja persónuna upp í þá átt. Það jákvæða er að stundum er forvitni manns vakin og nú langar mig að lesa bókina Leyndardómur Byggðarenda (e. Peril at End House) eftir Agöthu Christie og er á leslista Helga.

Ég átti erfitt með að sjá aðalpersónuna Helga fyrir mér. Miðað við hvernig honum er lýst finnst mér eins og hann sé háaldraður. Á tímabili óttaðist ég hreinlega að hann myndi lognast útaf sitjandi í stólnum sínum með gamla glæpasögu í hönd, hlustandi á vínylplötur. Ég segi bara svona, en Helgi er greinilega gömul sál og höfundi tekst vel að koma því til skila.

Dimmt andrúmsloft

Eins og í mörgum fyrri bókum Ragnars tekst honum vel að skapa andrúmsloft sem er dimmt, drungalegt og lágstemmt. Einmanaleiki er sterkt þema í bókinni. Persónurnar eru margar hverjar einstæðingar eða koma úr litlum fjölskyldum og áleitnum spurningum um einveru er velt fram. Það hefði gert gæfumuninn að glæða persónurnar meira lífi. Það vantar upp á að leyfa lesendum að upplifa heiminn í gegnum skynfæri persónanna. Mér fannst ég ekki tengjast þeim því ég fann ekki nógu mikið til með þeim.

Frásögnin gat verið ruglingsleg því það er flakkað á milli nútíðar og fortíðar á mismunandi árum. Höfundur fléttir Huldu, lögreglukonu úr fyrri bókum sínum, inn í söguna þegar hann skyggnist aftur til fortíðar. Skiptar skoðanir eru um ágæti þess að láta persónur úr eldri seríum öðlast líf í nýjum. Persónulega fannst mér það heppnast ágætlega.

Hvítalogn er lágstemmd ráðgáta sem inniheldur konfektmola um gamlar glæpasögur fyrir unnendur þeirra. Mig grunar að hinn almenni lesandi verði ekki eins hrifinn af spekúlasjónum um hina og þessa glæpasagnahöfunda sem voru uppi á tímum fyrri heimsstyrjaldar. En hver veit. Ég skora á alla að prófa og sanna að ég hafi rangt fyrir mér.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...