Ljúflestrarbókin hennar Bókhildar

Mynd af bókinni Takk fyrir að hlusta

Bókhildur er ekki nafn á sögupersónu í nýrri bók heldur á nýjum bókaklúbb sem Bókabeitan stendur fyrir. Sá bókaklúbbur er frábrugðinn öðrum á íslenskum bókamarkaði að því leyti að áskrifendum er lofað að inn um lúguna detti reglulega ljúflestrarbækur. Undirrituð sem er mikill aðdáandi slíkra bóka taldi sig ansi heppna þar enda búin að bíða lengi eftir að slíkur bókaklúbbur líti dagsins ljós á Íslandi. Það var því rokið inn á vef Bókabeitunnar og smellt á áskriftarhnappinn. 

Nokkrum dögum síðar datt bókin Takk fyrir að hlusta eftir Julia Whelan inn um lúguna sem fyrsta bók áskriftarklúbbsins Bókhildar. Bókin er þýdd af Sunnu Dís Másdóttur.

Í grunninn er bókin ástarsaga en eins og góð ljúflestrarbók þar sem ástin kemur við sögu þá er meira í hana spunnið en bara það. Sewanee Chester var á unglingsárum sínum rísandi stjarna í Hollywood en þurfti að gefa leiklistardrauma sína upp á bátinn eftir hörmulegt slys. Hún finnur sér nýjan farveg í leiklistinni með því að gerast hljóðbókalesari og tekst það svo vel að vinsæll ástarsagnahöfundur vill að hún lesi nýjustu bók sína inn á hljóðbók á móti einum vinsælasta karlkyns lesaranum, Brock McNight. Hún samþykkir þó hún sé ekki sérlega hrifin af því, þar sem hún er hætt að lesa inn ástarsögur en hún þarf pening og þetta verkefni lofar slíku. Bæði Brock og Sewanee vinna undir dulnefni, hvort í sínu landinu en þegar þau taka verkið að sér hefjast samskipti þeirra sem fara að mestu fram í gegnum tölvupóst og síma skilaboð. Þau mynda óvænt og náin tengsl og einhverjir neistar kvikna.


Klisja? Já takk

Bókin er að sjálfsögðu og eðlilega klisjukennd. Höfundur hennar er þaulvanur hljóðbókalesari þar sem hún hefur lesið inn ógrynnin öll af ástarsögum. Hún þekkir því ástarsögur mjög vel og allar helstu klisjurnar sem í þeim finnast og nýtir sér þær óspart. Hún tvinnar þær þó inn í söguna á skemmtilegan hátt. Aðalpersónurnar eru, líkt og höfundurinn, einnig þaulvanir hljóðbókalesarar ástarsagna. Þau þekkja klisjurnar líka og eru meðvituð um þær. Þau gera grín að þeim á kaldhæðinn og skemmtilegan hátt. Það er líka í fínasta lagi að hafa klisjur í ástarsögum og í svona ljúflestrarbókum. Það er það sem gerir þær að ljúflestrarbókum. Við viljum fyrirsjáanleikann, ástina, kósýheitin, góðu tilfinningarnar og ánægjulega endinn. Annars værum við að lesa bækur eftir Jo Nesbø eða Lars Kepler og værum áskrifendur að einhverjum krimmabókalúbb. 

 

Bókhildur byrjar vel

Bókalúbburinn Bókhildur byrjar svo sannarlega vel þar sem fyrsta bók hans er skemmtileg saga þar sem ást og húmor en líka dass af erfiðleikum (þó ekki of miklum!) kemur við sögu. Ljúflestrarbækur eru nauðsyn og þær eiga jafn mikinn rétt á sér og allar krimmabækurnar sem bókabúðir og bókasöfn eru að drukkna í. Bókabeitan hefur reynslu af því að gefa út ljúflestrarbækur og hitta naglann á höfuðið með þessari bók. Þau skildu þörfina fyrir bókaklúbb með ljúflestrarbækur og létu vaða. 

Þessi áskrifandi og aðdáandi slíkra bóka er sáttur.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.