Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr miðsvæðis. Í upphafi bókar fær hún skilaboð frá fyrrum stjúpmóður sinni sem vill hitta hana í kaffi. Skilaboðin koma Eyju í uppnám og hún fer að kafa í fortíð sem hún vildi sennilega helst gleyma.

Ný rödd 

Ragnhildur Þrastardóttir vann handritakeppnina „Nýjar raddir,“ hjá Forlaginu og er sagan Eyja afraksturinn. Hún minnir mig á bækur eins og Fólkið í kjallaranum og Að telja upp í milljón, þar sem maður kynnist breyskri persónu stöðugt betur. 

Það sem mér finnst einna best við Eyju er að mann langar alltaf að vita meira og meira, líka eftir að sögunni líkur. Maður ímyndar sér framtíð Eyju, hvað mun koma upp næst og hvernig höndum lífið á eftir að leika hana. Og ég held að það sé eitt af merkjunum um góða skáldsögu, það að hún skilji mikið eftir hjá lesanda, að persónurnar verði ljóslifandi í hugskotum hans og eigi sér sjálfstætt líf í huga hans að lestri loknum.

Sagan er stutt og maður er eldsnöggur að lesa hana, sérstaklega þegar líður á síðari helming bókar og spennan fer að magnast. Framan af er ýjað að einhverju sem gerðist, einhverjum atburði, og lesandi verður stöðugt forvitnari. Mér finnst líka áhugavert að lesa um stjúpforeldrasambönd við uppkomin börn, og hvaða áhrif það hefur þegar stjúpforeldri hverfur úr lífi barns eða ungmennis. Það að sagan byrji á því að fyrrum stjúpmóðir og barn hittast finnst mér spennandi tilbreyting og lét það mig strax langa að lesa meira.

Lifandi persónur og meingallaðar manneskjur

Þá er bókin mjög vel skrifuð og það sést að höfundur hefur gott vald á tungumálinu. Textinn er líka fyndinn, persónurnar eru lifandi og heillandi og mér finnst höfundi takast sérstaklega vel að mála upp erfitt samband við foreldri, andlegt ofbeldi og óttann sem fylgir því að vera algerlega kominn upp á meingallaða manneskju, bara af því hún er foreldri þitt.

Ég vil alls ekki skrifa of mikið um söguna, en ég held að hún njóti sín best þegar lesandi fer inn með opinn og ferskan huga. Þetta er ekta sumarbók, fullkomin til að lesa úti í sólinni eða á strönd, sé maður svo heppinn að finna eina slíka, ef mann langar í bitastæða og áhugaverða sögu sem maður er fljótur að lesa. Ég vona að höfundur skrifi meira og mun hundrað prósent næla mér í næstu bók þegar og ef hún kemur út.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...