Í maí síðastliðnum kom út bók sem gífurleg eftirvænting var fyrir en það var Long Island eftir írska rithöfundinn Colm Tóibín. Bókin er framhald af hinni geysivinsælu Brooklyn sem kom út árið 2010 eða fyrir heilu fermingarbarni síðan. Sú bók var kvikmynduð en hin dásamlega írska Saoirse Ronan fór með aðalhlutverk Eilis Lacey í kvikmyndinni sem kom út árið 2015.

Ég las sjálf Brooklyn árið 2015 og var djúpt snortin. Bókin segir frá ungri írskri stúlku Eilis Lacey sem lifir afar hefðbundnu lífi í smábæ á Írlandi en á erfitt með að finna atvinnutækifæri líkt og margir aðrir á sjötta áratug síðustu aldar. Þegar henni býðst tækifæri til að flytja til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til Brooklyn þiggur hún það. Hún á gríðarlega erfitt með að fóta sig í fyrstu, heimþráin er mikil en loks fer hún að finna nýjan takt og ástina.

long island colm tóibín

Raunir Íra í New York

Brooklyn þótti mér dæmi um gríðarlega vel skrifaða bók, en jafnframt raunsæja. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir allan þennan fjölda ungra Íra sem fluttu vestur um haf í leit að betra lífi. Írskar fjölskyldur eru gjarnan stórar og nánar og því erfitt að skilja við sitt nánasta fólk og hafa lítið tækifæri til samskipta svona langt að heiman. Saga Eilis er saga margra írskra kvenna, hún fær vinnu í verslun, sækir kvöldskóla og fer stundum á böll. Þar kynnist hún ítölsk amerískum manni að nafni Tony Fiorello. Allt í einu er aðeins meira gaman í hversdagsleikanum í Brooklyn, en þegar hún þarf að snúa aftur til Írlands gera vart við sig tilfinningar gagnvart hinum feimna Jim Farrell og Eilis þarf að ákveða hvar hún á raunverulega heima. Nú er kominn dágóður tími síðan ég las þessa bók en guð hvað hún situr enn í mér.

Ég man kannski ekki allan söguþráðinn en ég man upplifunina að finnast örlög Eilis svo ósanngjörn á margan hátt og hve raunsætt það er hvernig hún tekst á við þessa snúna stöðu. Raunveruleikinn er jú aldrei eins og rómantísk gamanmynd eða hvað?

Er besta vinkona mín morðingi?

Brooklyn þurfti ekki á framhaldsbók að halda en auðvitað voru flestir lesendur hennar ofboðslega spenntir fyrir því að heyra hvernig fór fyrir henni Eilis. Ég mæli með að kynna sér ekki Long Island ef man ætlar að lesa Brooklyn fyrr en að lestri fyrri bókarinnar liðnum. Hér kemur því höskuldarviðvörun.

Ég meina það…ekki lesa nema þú sért tilbúin!

Jæja!

Í bókinni Long Island er Eilis einmitt flutt þangað, aldarfjórðungur er liðinn frá ástarþríhyrningnum með Tony og Jim og nú á Eilis tvö börn á fullorðinsaldri. Bókin hefst heldur betur á sterkan hátt en henni er tilkynnt á fyrstu blaðsíðum að Tony (sú sem hún ákvað að snúa aftur til frá Írlandi) eigi von á barni með annarri konu og er planið að það verði alið upp á heimili þeirra Tony. Eilis er svo aldeilis ekki sátt með þetta og nú hafa tímarnir breyst svo frelsi hennar til að skilja er örlítið meira en áður. Hún heldur af stað til Írlands undir því yfirskyni að þar eigi að fagna stórafmæli móður hennar en vill í raun komast burt til að hugsa sinn gang. Börnin hennar Rosella og Larry eru væntanleg síðar um sumarið til Írlands en hún fer ein af stað. Þegar til Írlands er komið endurnýjar hún kynnin við Jim Farrelly, sem er enn ógiftur. Hins vegar er auðvitað flækja til staðar til að torvelda þeim ástarsamband á nýjan leik.

Ég vil lítið meira segja um söguþráðinn en ja hérna hér, Eilis er flókin kona og ótrúlega vel skrifuð. Tóibín er meistari í því að skapa ástríðufull sambönd og leika sér svo með tilfinningar lesenda. Auðvitað heldur man með Eilis í báðum bókum og vil að hún fái sinn hamingjusama endi, en lífið er sjaldan eins einfalt og í sögubókum og Tóibín er alltof mikill raunsæismaður fyrir Hollywood-endi.  Á meðan Brooklyn er þroskasaga ungrar konu sem ég heillaðist af sem ung kona finnst mér Long Island verk fyrir lengra komna; hún endurspeglar flækjur í lífi eldra fólks sem er engann veginn jafn frjálst og áður og með mun meiri bagga. Ég gæti ekki mælt meira með að lesa þessar bækur og spyrja svo Tóibín hvort einhver megi einhvern tímann fá sín hamingjusömu endalok?

Brooklyn

Lestu þetta næst

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu.