Glöggt er gests augað

ljósbrot

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði, væri að skrifa glæpasögur. Sem forfallinn glæpasagnaaðdáandi ætlaði ég því að kynna mér þessar bækur sem allra fyrst…það var bara einn galli…þær voru á finnsku! (Lesendur Shopaholic vita að það er ekkert verra í þessum heimi en að ljúga til um finnsku-kunnáttu!).

Því voru það gleðitíðindi þegar fregnir bárust af því að fyrsta bók Satu, Hildur væri að koma út í íslenskri þýðingu Erla Elíasdóttur Völudóttur og var ég ekki lengi að næla mér í eintak.

Ég held við getum öll verið sammála um að það sem Finnar skapa sé gott: Moomin, Marimekko, Norræna húsið, lengi mætti telja. Það gleður mig að segja að hér sé engin undantekning á ferð, þessi glæpasaga er finnsk-íslensk blanda sem einfaldlega virkar!

 

 

 

Brimbrettakappinn og prjónarinn

Glæpasagan Hildur er fyrsta bók í seríu sem gerist á Ísafirði. Sagan segir frá aðalpersónunni Hildi, lögreglukonu á fertugsaldri sem býr ein í firðinum. Hún vinnur hefðbundin lögreglustörf en hefur sérhæft sig í málum er varða börn. Hildur er alin upp á Vestfjörðum og þegar hún var lítil hurfu litlu systur hennar sporlaust einn daginn og því ekki undarlegt að hún hafi helgað sig málefnum barna innan lögreglunnar. Hildur er langt frá hinum hefðbundna miðaldra, fráskilda lögreglumanni með áfengisvanda sem við könnumt öll við í skandinavískum krimmum en hefur þó sína djöfla að draga. Stuttu eftir hvarf systra hennar sem aldrei hefur verið upplýst létust foreldrar hennar og fyrir utan Tinnu frænku hennar, sem tók hana í fóstur, á hún fáa að. Hún fer á brimbretti til að dreifa huganum og á bólfélaga í Freya nágranna, en er ansi einræn. Hún er haldin skyggnigáfu, sem Tinna frænka telur hana hafa erft frá formæðrum, og finnur á sér þegar eitthvað slæmt er að fara að gerast. Það eru mikil þyngsli hjá Hildi þessa dagana enda er stutt í að morð verði framið í firðinum. Mitt í þessu öllu saman mætir finnski lögregluneminn Jakob í starfsnám. Hann er að skipta um kúrs í lífinu eftir að hafa kennt líffræði og lent í hræðilegri forræðisdeilu og velur að koma til Ísafjarðar í sex mánuði. Hildi og Jakobi kemur strax vel saman en sá síðarnefndi er hlédrægur og prjónar til að róa taugarnar.

 

Ísafjörður þriðja persónan

Heilt yfir er Hildur fínasta frumraun í glæpaskrifum og flott kynningarbók fyrir seríu, miklu púðri er eytt í að skapa sögusviðið sem skilar árangri. Það er skemmtilegt að lesa bók sem gerist á Íslandi með sjónarhorni rithöfundar sem er aðfluttur. Satu hefur búið í tuttugu ár á Íslandi og þekkir samfélagið mjög vel. Í viðtali við höfund kom fram að það hafi verið smá snúið að þýða bókina yfir á íslensku þar sem mikið af upplýsingum eru gefnar um Ísland í finnsku útgáfunni til að setja hlutina í samhengi. Ég held að það hafi verið gott að huga að einmitt þessu þó að fyrir mína parta hefði jafnvel verið hægt að sleppa nokkrum útskýringum í viðbót sem stóðu. Þetta var þó ekki þannig að þetta truflaði lesturinn neitt.

Aðalpersónurnar Hildur og Jakob eru skemmtilegir karakterar með flókna fortíð sem vilja samt gera sitt besta í starfi. Mér fannst dýnamíkin þeirra á milli góð og vonast til að dýpka kynni mín af þeim við lestur næstu bóka. Ísafjörður er eins og þriðja persónan í bókinni, ég hafði unað af ljóslifandi lýsingunum af bæ sem ég þekki ágætlega en langaði helst bara að sitja á Hamraborg með sveitta pizzu meðan ég naut bókarinnar. Ég hafði líka mjög gaman af því þegar verið var að pota í landsbyggðarfordóma lögreglufólks að sunnan. Eitthvað sem eflaust kemur oft upp í raunheimum.

 

Hröð atburðarás

Bókin er grípandi þar sem atburðarásin er hröð og nóg í gangi á hverjum tíma, snemma kemur fram grunur um morð og stuttu síðar er annað framið. Á þessari annars rólegu lögreglustöð er því óvenju mikið fyrir Hildi og Jakob til að leysa úr. Milli kafla um framvindu sögunnar kemur sjónarhorn morðingjans fram og einnig er vísað til atburða sem gerðust fyrir mörgum öldum síðan. Hvaða merkingu þetta hefur fyrir söguna mun svo að lokum koma í ljós. Að mínu mati kom lausn málsins aðeins of hratt upp og hefði ef til vil mátt gefa því fleiri blaðsíður. Bókin endar svo á svakalega spennandi nótum varðandi hvarf systra Hildar og því ætla ég rétt að vona að við þurfum ekki að bíða í fjögur ár eftir þeirri þýðingu!

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....