Naskar mannlýsingar í misjöfnu verki

 Dagur Hjartarson gaf nýlega út skáldsöguna Sporðdrekar, sem er hans áttunda útgefna verk. Dagur er ekki nýskáld og hafa flestir heyrt um einhverjar af bókum hans. Hann hefur unnið til ýmissa verðlauna fyrir skrif sín, svo sem ljóðstaf Jóns úr Vör og var hann auk þess  tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2022.

Í Sporðdrekum tekst Dagur á við atburði eins dags árið 2016, sem og langs aðdraganda þessa tiltekna dags, og það stundum mörg ár aftur í tímann. Við fylgjum fimm persónum eftir , þeim Stellu, Vilborgu, Finnboga, Bjarka og Sigvalda. Öll eru þau ungt fólk sem standa á tímamótum, ýmist í starfi eða ástarlífinu, eða finnst þau hugsanlega örlítið föst á  stað sem þau ætluðu ekki að enda á.

Vinir á tímamótum

Karlmennirnir eiga það sameiginlegt að vera styttra komin faglega en konurnar tvær. Finnbogi hefur flosnað upp úr lögfræði og vinnur á frístundaheimili án þess að vilja viðurkenna að það gæti verið framtíðarstarf. Bjarki er óviss með eigin sjálfsmynd eftir sambandsslit við Stellu rúmu einu og hálfu ári fyrr og Sigvaldi er hálfgerður lúser sem lendir í slagsmálum og drekkur úr hófi. 

Þá er Stella sennilega í hvað bestu stöðunni andlega af þessum hópi, en hún hefur lokið kennaranámi, er enn að melta sambandsslitin við Bjarka að einhverju leyti, en nýtur sín ágætlega. En þegar hana fer að dreyma undarlega drauma um einn nemanda sinna og uppgötvar aukin tengsl hans við sinn nánasta hring fara atburðir að verða undarlegir.

Persónurnar misáhugaverðar

Það er ekki hægt að segja meira án þess að segja of mikið. Þessi bók er bara fín, hún rennur ágætlega, en dettur í fullmiklar djammsögur að mínu mati. Þá eiga persónurnar sennilega að vera marglaga og flóknar en enda allar sem svolítil staðalmynd. Ég hefði viljað skerpa aðeins á frásögninni, leyfa kannski einhverjum karakterum að flakka úr sögumannssæti, til að mynda Bjarka, og eyða frekar meiri tíma með áhugaverðari karakterum eins og Finnboga, sem er að takast á eftirtektarverðan hátt við sorg. Eða fylgja eftir Sigvalda sem barni, sem myndi þá sýna lesanda meira hvers vegna hann er eins og hann er, eða gera það að verkum að lesendum líki kannski betur við hann. 

Lokaniðurstaðan er að fyrsti hluti bókarinnar er spennandi en mér fannst hún missa svolítið dampinn um miðbik. Þetta er ágætlega skemmtileg og fljótlesin bók sem er fyndin á köflum og nösk á mannlýsingar. Hún mun passa fullkomlega í jólapakkann fyrir unga menn í millibilsástandi og jafnvel fleiri til.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...