Fyrir ári kynntumst við unga rithöfundinum Emblu Bachmann þegar hún gaf út sína fyrstu barnabók Stelpur stranglega bannaðar og nældi sér í tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Og það sautján ára!
Í ár gefur hún út bókina Kærókeppnin og nældi sér auðvitað í aðra tilnefningu fyrir hana, undrabarn eða hvað?
Kærasta eða kærasti?
Kærókeppnin fjallar um bestu vinina Davíð og Natalíu sem hafa keppst við hvort annað síðan þau voru í bleyjum. Þau eru bæði hörkuduglegir íþróttamenn, Davíð er í handbolta og Natalía í fótbolta, og því ekki furðulegt að þau hamist við að sigra hvort annað í allskonar fáránlegum og jafnvel tilgangslausum keppnum. En einn örlagaríkan dag í byrjun sumars móðgast Natalía þegar Davíð gefur í skyn að hann muni augljóslega byrja fyrstur í sambandi af þeim tveimur. Natalía heldur sko ekki og þá hefst hin æsispennandi og flókna KÆRÓKEPPNI. Bæði hamast þau við að finna sér álitlegt ástarviðfang en mistekst sífellt því þau virðast bæði jafn óheppin í ástum.
Skemmtilegt fannst mér að bæði Davíð og Natalía virtust ekki kippa sér upp við hvort þau enduðu með kærustu eða kærasta. Þá er það sérstaklega Davíð sem gefur þó nokkrum drengjum séns með misjöfnum árangri. Mér fannst þetta vel gert þar sem aldrei er beint fjallað um kynhneigð þeirra, enda þarf það ekki að skipta máli, heldur er þetta bara sjálfsagður partur af tilveru þeirra.
Gamansöm framvinda
Framvindan í bókinni er hröð og gamansöm, tempóið er svo þétt og vel unnið að lesandanum leiðist ekki eina sekúndu. Það finnst mér mikill kostur. Hugmyndaflug höfundar þegar kemur að skondum deitstöðum og broslegum atvikum er einkar auðugt. Stundum minnti bókin mig jafnvel á vel heppnaða rómantíska gamanmynd þegar þær voru upp á sig besta (ekki þetta fjöldaframleidda Netflix-drasl sem virðist vera að fylla veituna þessa dagana).
Án þess að skemma fyrir neinum endann á bókinni langar mig að segja að ég var mjög ánægð með hann. Það hefði verið auðvelt að enda á klisjukenndan, „Hollywood“ hátt, en Embla gerði það svo sannarlega ekki og fannst mér hún hnýta þetta vel saman.
Kærókeppnin er alveg einstaklega vel heppnuð bók fyrir yngstu unglingana okkar. Hröð framvinda, hlægilegar senur og viðkunnanlegar persónur skapa óneitanlega frábæra bók.