Rússíbanareið tilfinninga

Það er alltaf jafn gaman þegar nýr höfundur stígur sín fyrstu skref á ritvellinum, í þessu tilfelli er það sérstaklega gaman þar sem höfundurinn er 17 ára menntaskólamær sem hefur afrekað það að skrifa (og fá útgefna!) heila bók. Geri aðrir betur. 

Stelpur stranglega bannaðar er eftir Emblu Bachmann sem segist sjálf vera mikill bókaormur og hafi ákveðið aðeins ellefu ára að markmiðið væri að skrifa bækur. En að bókinni sjálfri!

Hér erum við með hressandi og nútímalega barnabók sem fjallar um hina þrettán ára Þórdísi. Þórdís er mjög upptekin af því að hún sé eina barnabarnið í fjölskyldunni sem er stelpa og hún vill halda því þannig. Þegar Þórdís uppgötvar sónarmynd í síma ömmu sinnar verður það hlutverk hennar að komast að því hvort móðir hennar eða ein af þremur móðursystrum sé ólétt og hvort sú gangi nokkuð með … STELPU. 

Tilfinningar unglingsins

Þessi háleynilega meðganga er ekki það eina sem veldur Þórdísi hugarangri. Ofan á þennan leynigest er komin ný stelpa í bekkinn sem virðist gjörsamlega fullkomin. Besta vinkona Þórdísar heillast af hnyttni nýju stelpunnar og gáfum og öfundin gýs upp í Þórdísi sem hefur alltaf átt bestu vinkonu sína alein. Þetta eru stórar tilfinningar sem veltast um í huga unglings og hafa mikil áhrif á líðan hennar. Þrátt fyrir það leggst Þórdís aldrei alveg í volæði og húmorinn er alltaf nálægur sem ég kunni vel að meta. Þórdís er nefnilega með sterkan karakter og er úrræðagóð þó að allt virðist vera á móti henni. 

Raunsönn mynd af veruleika barna

Bókin er vel skrifuð og það er auðvelt að gleyma því að höfundurinn sé svona ungur ef aðeins er hugsað út í stílinn. En það skín þó í gegn að höfundurinn var á þessum aldri fyrir örfáum árum og getur því varpað upp raunsannri mynd af veruleika barna og unglinga nákvæmlega í dag. Það finnst mér einn helsti styrkur bókarinnar. Eldri höfundar gera auðvitað sitt besta og geta fengið ráðleggingar barna og unglinga við skrifin, en það er nú allt öðruvísi að hafa nýlega upplifað alla þessa hluti og hvað þá í heimi og samfélagi sem tekur svo örum breytingum, þá sérstaklega hvað varðar tækni. En í grunninn upplifum við auðvitað allar þessar sömu tilfinningar og ég gat samsamað mig við hana Þórdísi. Ég kannast vel við öfundina, hræðsluna við breytingar og pressuna að vera fullkomin frá minni barnæsku og unglingsárum.  

Í bókinni dveljum við mikið inni í hugarheimi Þórdísar og hefði ég stundum viljað sjá fleiri samtöl og uppbrot á textanum, en þau samtöl sem voru til staðar voru náttúruleg og vel uppbyggð. Í fyrri hluta bókar líður tíminn hægt en þegar líður á bókina fer tímanum að líða töluvert hraðar (enda þarf að líða heil meðganga) og mér fannst smá ójafnvægi í því. Í mínum huga hefði bókin mátt vera aðeins lengri og mikilvægum atburðum í seinni hluta bókar gefið meira rými. 

Hressandi barnabók

Ég mæli hiklaust með Stelpur stranglega bannaðar fyrir börn sem eru að skríða inn á unglingsárin og fullorðna sem hafa gaman af hressandi sögum um einmitt þessi dásamlegu börn sem eru að upplifa algjöra rússíbanareið tilfinninga. Þórdís er persóna sem við þekkjum öll og það er svo auðvelt að þykja vænt um hana. Ég ætla allavega að lauma þessari í jólapakka eftir nokkra mánuði og óska Emblu sömuleiðis innilega til hamingju með þetta afrek og bíð spennt eftir næstu bók! 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...