Þegar ég var krakki sótti ég rosalega mikið í ævintýrabækur og furðusögur. Það voru bækurnar sem mér þótti langskemmtilegastar. Kristín Ragna Gunnarsdóttir hefur svo sannarlega verið dugleg að sinna þessum lesendahópi með bókunum sínum um Úlf og Eddu og Nornasögu þríleiknum. Í ár kom út Valkyrjusaga, nútímaævintýri í ætt við fyrri bækur höfundar þar sem furðuverur úr goðheimum birtast í Reykjavík og valda óskunda.

Persónur bókarinnar er lesendum ekki ókunnugar en hér snýr Katla og fjölskyldan hennar aftur sem við fengum að kynnast í Nornasögu. Óþarfi er að vera búin að lesa fyrri bækur Kristínar Rögnu þar sem söguþráður bókarinnar stendur sjálfstæður, þó að oft sé stuttlega vísað í fyrri ævintýri.

Allt í bál og brand

Næstum öll bókin er sögð í gegnum tölvupósta Kötlu til besta vinar síns, Mána, sem er á ferðalagi um Kína. Mæður Kötlu fara í seinbúna brúðkaupsferð og amma Kötlu, sem kölluð er amma klettur, og systir hennar, Hlaðgerður, mæta til að passa Kötlu og systkini hennar. Þær systur eru furðulegar og mögulega göldróttar. Katla sjálf hefur verið að uppgötva eigin galdramátt en er óviss í upphafi bókar hvort hún hafi gjörsamlega tapað honum. Það er þó fótboltinn og nýstofnað fótboltalið sem á hug Kötlu allan. Það fer þó allt í bál og brand þegar sex Valkyrjur birtast í miðbænum og undarlegar fréttir fara að berast um hatursglæpi gagnvart hinsegin fólki. Þetta er allt saman mjög dularfullt og Katla virðist einhvern veginn vera í miðpunkti þess alls.

 

Fordómar eru bráðsmitandi

Ég hef alltaf verið stórhrifin af því hvernig Kristínu Rögnu tekst að flétta inn málefni líðandi stundar inn í barnabækur sínar. Hún er óhrædd við að fjalla um erfið málefni eins og bakslagið sem hefur orðið í baráttu hinsegin fólks. Þetta á auðvitað beint við Kötlu og hennar fjölskyldu, þar sem hún á tvær dásamlegar mæður. „Fordómar eru vissulega bráðsmitandi eins og hver önnur pest,“ segir Hlaðgerður ömmusystir Kötlu. Hatursglæpirnir tengjast svo inn í ráðgátuna sem Katla þarf leysa varðandi óprúttna aðila sem kalla sig Fánabera. 

Það verður að minnast á það að bókin er stútfull af frábærum myndlýsingum Kristínar Rögnu. Sérstaklega fannst mér myndirnar af gleðigöngunni glæsilegar og þar sem hinsegin fáninn fékk að njóta sín. Það er mikil litadýrð inni í bókinni þar sem varla er opna þar sem vantar einhversslags myndlýsingu. 

 

Valkyrjusaga er hröð ævintýrabók stútfull af furðulegum verum úr norrænni goðafræði, fótboltadrama og lífsháska. Hún hentar einnig krökkum sem finnst gaman af uppbroti í texta og ríkulega myndlýstum bókum. Hasarinn einn og sér ætti að halda þeim við lesturinn. 

Lestu þetta næst

Upp og niður stiga

Upp og niður stiga

Ljóðakollektívið Svikaskáld er orðið flestum kunnt enda hafa nú fæðst fimm skáldverk frá þessari...

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...