Gullveig ginnir með gylliboðum

Hér sjáum við á bókarkápunni Íslandskortið sem olli öllum þessum óskunda.

…og hvað eru mörg G í því? Hin frábæra Nornasaga – Hrekkjavakan er nýjasta bók Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur, rithöfunds og myndskreytis. Kristín Ragna er þekkt fyrir bækurnar sínar um Eddu og Úlf og hefur verið meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Nornasaga fjallar um Kötlu sem verður fyrir þeirri ólukku að opna galdagátt á sjálfri hrekkjavökunni. Hún snertir ævafornt Íslandskort og upp úr því gýs nornin Gullveig, full hégóma og í hefndarhug. Bókin er sú fyrsta í þríleik og verður spennandi að fá að vita meira um hana Kötlu í næstu bókum.

Söguhetjan Katla er frekar seinheppin ung stúlka sem þráir ekkert heitar en að falla í hópinn og eignast alvöru vini. Það lendir á hennar baki að bjarga Íslandi (jafnvel öllum heiminum) og sínum eina vini, Mána, frá hræðilegum ráðagerðum Gullveigu. Það verður algjört kaos og múgæsingur þegar Gullveigu tekst að koma allri þjóðinni undir sitt band með notkun samfélagsmiðla en hún verður áhrifavaldur sem allir þrá að komast í kynni við. Með göldrum ýtir Gullveig undir neysluhyggju og kaupæði landans sem fellur fyrir gylliboðum hennar.

Skrautlegar uppákomur á hverri síðu

Ég var alveg rosalega hrifin af myndskreytingum hinnar fjölhæfu Kristínar Rögnu.

Orðaforðinn í bókinni er litríkur og skemmtilegur, hver kafli er sannkölluð rússíbanareið. Þetta er bók sem ég hefði viljað hafa í höndunum þegar ég var yngri, en viðurkenni þó að þetta er bók sem ég mér fannst stórskemmtilegt að hafa í höndunum svona fjörgömul eins og ég er núna… Allavega, söguþráðurinn er hraður og spennandi með endalaust af skrautlegum uppákomum á hverri einustu blaðsíðu. Karakterarnir eru líka jafn skrautlegir og fjölbreyttir og þeir eru margir. Katla á tvær mæður og birtingamyndir fjölskyldunnar eru í mörgum formum í bókinni sem er svo mikilvægt að börn fái að sjá í dag. Bókin er undursamlega myndskreytt á frumlegan hátt, nánast hver opna er brotin upp með lítilli mynd eða feitletruðum orðum til að leggja áherslu á textann sem gerir lesturinn skemmtilegan og grípandi.

Kapítalískt kaupæði

Vinnsla Kristínar Rögnu á norrænu goðafræðinni er einstaklega skemmtileg en Völuspá og Konungsbók Eddukvæða koma meðal annars við sögu. Bókin Völuspá, þar sem Þórarinn Eldjárn enduryrkir Völuspá fyrir börn og Kristín Ragna sjálf myndskreytir, kemur fyrir í Nornasögu og verður lykillinn að lausn ráðgátunnar um uppruna Gullveigar. Mér fannst mjög gaman af því hvernig Kristín Ragna blandaði fyrri bók sinni inn í skrifin sín.

Völuspá leikur hlutverk í Nornasögu.

Ég verð að minnast á það hversu  stórkostlegt það er hvernig miðbær Reykjavíkur stökkbreytist í konungsríki Gullveigar. Þekktar götur fá ný nöfn, Skólavörðustígurinn verður Gullveigargata og Hallgrímskirkja verður Gullveigargarður. Þessum umbreytingum er öllum lýst á svo skemmtilegan og frumlegan hátt að lesandinn upplifir Reykjavík alveg upp á nýtt sem ævintýraborg úr norrænni goðafræði.

Þó að hér sé bók sem er fyrir ungan aldurshóp má finna beitta samfélagsádeilu í henni, meðal annars á kapítlaískt kaupæði og ofnotkun samfélagsmiðla og snjallsíma. Einnig fannst mér gaman af því þegar ádeilu á ríkisstjórnina er laumað inn þar sem meðal annars má sjá styttu af menntamálaráðherra klífa himinhátt bókafjall með sekk á bakinu með áletruninni Bókaskatturinn.

Fróðleg fjölskylduskemmtun

Í Nornasögu er nútímanum og gamla tímanum blandað saman listilega, samfélagsmiðlar og áhrifavaldar kallast á við sögur og minni Eddukvæðanna. Ég held að bæði ungir og aldnir gætu orðið fróðari eftir lesturinn. Ég var innilega ánægð með þessa bók og finn fyrir mikilli gleði að íslensk börn eigi von á slíkum gullmola í jólapakkann í ár. Öll fjölskyldan getur skemmt sér konunglega saman yfir þessari fjörugu bók sem tekst á við mikilvæg málefni, fjölskylduna, vináttuna og sjálft samfélagið.

Lestu þetta næst

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...