Hver með sínu nefi

25. febrúar 2025

Dýrasinfónían eftir Dan Brown. Já, þann Dan Brown.

Dýrasinfónían eftir Dan Brown er besta Dan Brown bók allra tíma. Eða það held ég að minnsta kosti. Hún inniheldur vissulega enga óvænta fléttu, afkomendur Jesú eða munka með albínisma, EN hún fjallar um villidýr sem spila í sinfóníu. Hversu geggjað?

Af hverju er hljómsveitarstjórinn alltaf mús?

Bókin er sett upp á bundnu máli, þar sem meistaramúsin kynnir verkið fyrir lesendum og leiðir þá svo í gegnum bókina þar sem við hittum alls kyns dýr í sínu náttúrulega umhverfi. Öll eiga dýrin sameiginlegt að vera mjög músíkölsk, og þau spila öll og dansa af bestu list meðan mýsla fylgist með.

Það sem gerir bókina æðislega eru þó aðallega myndlýsingar Susan Batori, en bókin er mjög litskrúðug og mikið skreytt, hver einasti millimetri er litaður, teiknaður, með litlu dýri, gróðri, veru eða hljóðfæri. Þá eru dýrin ekki teiknuð á raunsæjan hátt heldur eru þau skopstæld. Það er gert á fallegan og barnvænan hátt og heldur teiknari góðri heildarmynd á útliti bókar.

Brugðið á leik

Ekki er nóg með að myndlýsingarnar séu fallegar, heldur felast í þeim alls kyns leikir og púsl. Til dæmis er lítil býfluga á hverri síðu sem gaman er að reyna að finna. Textinn er heldur ekki af verri gerðinni, en Árni Sigurjónsson þýðir hann fyrir íslenska lesendur. Það er gaman að lesa ljóðin upp, og fylgja frásögninni eftir á myndunum.

Eitt af því skemmtilegasta við bókina er hversu víða músin fer til að kíkja á tónlistardýr, en hún fer meðal annars á hafsbotn og hittir þar skötu, rekst á stóran hval, og fer svo alla leið upp í tré að kíkja á fuglanna. Þá eru skordýr ekki skilin útundan heldur er litið við hjá bjöllum og kónguló. Það eina sem ég myndi setja út á í bókinni er mjög neikvæð lýsing á rottum, sem ég held að sé ekki raunsönn heldur, því rottum bókarinnar er lýst sem hræddum og feimnum, og ég hef aldrei hitt rottu sem fellur í þann hóp. En kannski hefur Dan Brown eitthvað óuppgert rottuhatur í sálinni sem fær útrás hér. 

Tónlistarskemmtun

En haldið ykkur fast. Bókin býr yfir fleiri leyndardómum. Hægt er nefninlega að skanna QR kóða fremst í bókinni og ná sér í Dýrasinfóníuappið! Já, ég hugsaði líka fyrst, hvaða rugl! Ég get bara lesið bókina á gamla mátann, en í ljós kemur að appið er aðgangur að tónlistinni sem dýrin eru að spila. Stutt sinfóníuverk fylgir hverri síðu, hverju dýri, og barnið mitt var í það minnsta ofsalega hrifið af því að heyra fallega tónlistina. Svo er hægt að hlusta á allt verkið á almennum streymisveitum og blessunarlega samþykkti barnið mitt að hlusta á það í bílnum í gær svo ég fékk hlé frá Frozen. 

Ég mæli sérstaklega með þessari fallegu og margslungnu bók í gjöf fyrir litla tónlistarunnendur og foreldra sem vilja að bókin lesi sig stundum bara sjálf fyrir krakkana.

Lestu þetta næst

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...

Hratt, hratt…hægt

Hratt, hratt…hægt

Mér er það afar minnisstætt þegar ég fletti fyrst í gegnum Reese's Book Club í leit minni að góðri...

Ég er ofurhetja

Ég er ofurhetja

Kapteinn Frábær í Tjarnarbíó. Kapteinn Frábær er engin venjuleg hetja. Eða er hann kannski allra...

Dásamlega upplífgandi

Dásamlega upplífgandi

Á dögunum var ég í leit að góðri ástarsögu, the Guardian var með fínustu samantekt þar sem...