Hinum almenna lesanda gæti þótt yfirþyrmandi að taka þá stefnumarkandi ákvörðun að lesa rússneskan doðrant. En í nútímanum með sínum ofsahraða er kannski fátt meira töff en að gefa raunveruleikaþáttum og því nýjasta úr smiðju Netflix kærkomna hvíld og helga sig þess í stað í heilan mánuð hugsunum manns frá 19. öld. Því sjá ég boða yður mikinn fögnuð, Karamazov-bræðurnir efir Fjodor Dostojevskí er meistaraverk sem er bara ekki svo erfitt að lesa. Ég myndi flokka bókina sem aðgengilegan doðrant.
Vissulega krefjast tæplega 900 blaðsíðurnar u.þ.b. mánuð í lestur (ég gef mér í þessu samhengi að ég lesi á meðalhraða) en það skiptir í raun engu máli. Ég las sjö bækur í janúar en bara þessa einu í febrúar, það eina sem þetta breytir er að ég er aðeins fjær Goodreads markmiðum ársins varðandi fjölda bóka. Ef þið þurfið áfallahjálp í þeim aðstæðum höfum við pistil gegn Goodreads markmiðum sem má nálgast hér.
Svo verð ég eiginlega að benda á að það að leggjast upp í rúm með Karamazov-bræður hvert einasta kvöld þessa mánaðar skilaði mér ofboðslega góðum nætursvefni, ég þreyttist alltaf við lesturinn og lognaðist auðveldlega út af. Áhrif Netflix á svefn eru svo sannarlega ekki þau sömu!
Magnaðasta skáldsaga sem hefur verið skrifuð
Oft held ég að það sé ekki einungis lengd doðranta í klassískum bókmenntum sem fælir frá heldur líka staðan sem bókin hefur skipað sér í menningarsögunni. Karamazov-bræðurnir var endurútgefin í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttir árið 2021 og á lýsingu af þýðingunni á vef Forlagsins kemur meðal annars fram að þetta sé eitt frægasta skáldverk allra tíma og að Sigmund Freud sjálfur sagði bókina vera mögnuðustu skáldsögu sem skrifuð hefði verið. Væntingar geta verið of miklar til svona verks og kannski einungis til þess fallnar að man verði fyrir vonbrigðum. En um hvað fjallar þessi fræga bók?
Föðurmorð og réttarhöld
Upplegg bókarinnar er í raun sáraeinfalt. Bókin hefst á því að ónefndur sögumaður rifjar upp atburði sem áttu sér stað fyrir nokkrum árum þegar Fjodor Karamazov var myrtur. Sögumaðurinn segir frá lífi og starfi Fjodors og skilgetinna sona hans þriggja, svallarans Dmítrí, hugsuðins Ivan og dýrlingsins Aljosha. Ýmislegt gengur á í aðdraganda föðurmorðs og svo fara réttarhöld fram. Þetta er að sjálfsögðu mjög mikil einföldun þar sem bókin er mjög heimspekileg og fjallar að miklu leyti um trúna og guðleysi á 19. öld. Fjöldi annarra eftirminnilegra persóna kemur við sögu og margir kaflar stíga út fyrir aðal söguna til að Dostojevskí geti teflt fram hugmyndum og kenningum sínum.
Persónulegt lokaverk
Þegar ég var ung og með endalausan frítíma las ég dágóðan slatta af sígildum rússneskum bókmenntum sem eru eins og flestir vita afbragðs góðar bókmenntir. Mér þótti orðið allt of langt síðan ég hafði sökkt mér í þennan heim þegar ég ákvað loksins að grípa Wordsworth Classics útgáfuna af Karamazov-bræðrum í enskri þýðingu sem ég hafði keypt í von um að framtíðar-ég myndi lesa hana fyrir rúmum áratug síðan. Ég las því miður ekki þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur í þessu tilfelli, en það verður aldrei of oft sagt hvað hún lyfti grettistaki varðandi að kynna Íslendingum fyrir afbragðsvel þýddum bókmenntum Rússlands.
Það sem gerir oft rússneskar bókmenntir óaðgengilegar eru nöfnin. Flestar persónur bera þrjú nöfn og mörg gælunöfn sem geta ruglað alveg í lesandanum sem reynir að halda þræði. Ég átti ekki í miklum vandræðum með það í þessari bók og þakka ég Dostojevskí fyrir fjölbreyttara nafnaval en venjulega. Þó er góð regla að hafa nafnalistann aðgengilegan við lestur.
Dostojevskí er einn risi sígildra bókmennta. Ég mæli endalaust með Glæp og refsingu en get með góðri samvisku einnig mælt með Karamazov-bræðrunum. Bókin er á köflum afar spennandi enda ekki ljóst framan af hver myrti föðurinn og hvernig réttarhöldin munu fara. Ég hef sjaldan lesið bók sem er yfir 500 síður án þess að hugsa að það hefði alveg mátt stytta hana eitthvað. Kenningin mín varðandi doðranta 19. aldar er að þeir birtust oft fyrst vikulega í tímaritum og því var hvati til að hafa þá eins langa og hægt væri. Það er þó ekki þar með sagt að það sé ekki hægt að njóta lengdarinnar. Það verður smá tóm í hjartanu manns við lok bókar á borð við Karamazov-bræðurna. Auk þess er þetta síðasta verk Dostojevskí, hann lést aðeins fjórum mánuðum eftir að útgáfu sögunnar lauk og kannski er þetta hans persónulegasta. Hann var að syrgja ungan son sinn sem lést og margt úr hans eigin lífi er speglað í sögunni.
Ég vona að þessi pistill verði ykkur hvatning kæru lesendur til að ná í doðrantinn sem þið eigið eftir ólesinn uppi í bókaskáp og hella ykkur í heimspekilegar hugsunar fyrri alda! Þið verðið aldrei svikin af því!