Marglaga og mannlegur Laddi

14. mars 2025

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda í Borgarleikhúsinu. Ég hugsaði það sama eins og mögulega margir aðrir gerðu; er nú enn önnur sýning um Ladda?

Ég var líka efins þegar ég sá að aðrir leikarar myndu túlka frægu karakterana hans Ladda; er það yfirleitt hægt? Eiga karakterarnir möguleika á sjálfstæðu lífi utan Ladda?

Efi minn þrefaldaðist í hugsunum um þau lög og grín sem voru barn síns tíma og eiga ekki samleið með okkur í dag; verður það addressað?

Í stuttu máli get ég sagt að eftir allar þessar efasemdir fann ég til léttis og nostalgískrar gleði í brjóstinu eftir að hafa gengið út úr leikhúsinu.

 

Kemur á óvart

 

Þetta er Laddi er ævisögusýning og gamansöngleikur í ætt við Ellý og Níu líf en Ólafur Egill Egilsson sem setti upp Níu líf um ævi Bubba er aftur kominn í leikarastólinn en handritið að Þetta er Laddi vann hann með Völu Kristínu Eiríksdóttur.

Það sem kom mér síðan skemmtilega á óvart var að Laddi er þarna þungamiðja verksins, hann birtist áhorfendum sem hann sjálfur,  þó hann stundum sé fenginn til að bregða sér í ýmis gömul hlutverk.

Vala Kristín leikur þáttastjórnanda eða sýningarstjóra sem spyr réttra spurninga með húmorísku ívafi.

Laddi samofinn okkur öllum

 

Ég, eins og flestir, ólst upp með Ladda og er hans mikla arfleifð af gríni og glensi því fínlega ofin inn í tilveru mína og uppvöxt. Þetta var því persónulegt ferðalag að fara að sjá sýninguna, og þar ekki síður vegna þess hversu mikið Ladda-húmorinn minnir mig á mömmu mína sem lést of ung. Ég var því bæði spennt en líka smá hrædd að fara inn í þetta ferðalag. Ég trúi því að flest okkar eigum einmitt slíka persónulega tengingu við Ladda.  

Ég var samt fegin því að sýningin ákvað ekki einungis að vera lofgjörð og stanslaust stuð, einmitt út frá þeim efasemdum sem ég hafði í upphafi. Þarna var Laddi spurður að erfiðu spurningunum. Vala Kristín fer á kostum sem spyrillinn sem í ákveðni sinni og hispursleysi vill kryfja Ladda, afhjúpa hann eða láta hann fella niður grímuna. Hún lætur jákvæðni og stóíska ró Ladda ekki á sig fá, því jú, samkvæmt henni hlýtur hann að eiga sína djöfla eins og við hin.

 

Einn, tveir og einn tveir þrír og – 

Sýningin er þó fyrst og fremst gríðarleg skemmtun. Strax í upphafi eru áhorfendur fengnir með í dans og öllu er til tjaldað til að búa til almennilegt sjónarspil. Það er dans, söngur og stórgóður leikur hjá einvalaliði í gríni. Því já, það kemur vissulega á óvart hversu vel hópurinn nær karakterunum sem erfitt var að ímynda sér í höndum annarra leikara. Þarna er einnig hljómsveit á sviðinu, undir góðri stjórn Jóns Ólafssonar og leikmyndin í höndum Evu Signýjar Berger er mjög í anda Ladda en hún er áhugaverð, grípandi og spennandi. Það hvernig sófasettinu er skipt út fyrir hvert tímabil í lífi Ladda er algjör snilld. Það hvernig talað er um skiptingarnar sérstaklega er ennþá meiri snilld.

 

 

 Tilfinningaskalinn

Þetta er verk sem hefur mjög sveiflukennt tempó í tilfinningum. Leikstjóri og leikarar ná að gleðja jafn vel og þau ná áhorfendum niður og inn á við.

Þarna er farið yfir æviferil Ladda, allt frá því hann var í hljómsveitinni Faxar, upp í útvarpshús, á sveitaböllunum og í hægari tímabil eins og þegar Laddi rak barinn Sir Oliver. Elsa Lund, leikin afar fimlega af Björgvini Franz, setur sig í hlutverk kvennanna í lífi Ladda eins og til dæmis fyrstu eiginkonu hans. Einmitt eitt af því athyglisverðasta við þessa sýningu er hvernig karakterarnir hans Ladda, sem eru leiknir af leikhópnum, eru síðan að setja sig í hlutverk raunverulegra persóna í lífi Ladda. Úr verður einhver skemmtilegasta marglögun sem ég hef séð. Sem einmitt verður enn áhrifameiri vegna þess hversu vel við þekkjum öll þessa karaktera. Villi Neto fer vel með að leika Dengsa, en Dengsi, sem leikinn er af Villa bregður sér einnig í hlutverk Gunna Þórðar, svo dæmi sé tekið. Þarna eru líka ýmsir úr hópnum sem bregða sér í hlutverk Ladda, og svo auðvitað Halla, bróður hans. Leikhópurinn samanstendur af Ásthildi Úu Sigurðardóttur, Birnu Pétursdóttur, Björgvini Franz Gíslasyni, Halldóri Gylfasyni, Hákoni Jóhannessyni, Kötlu Margréti Þorgeirsdóttir, Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, Ladda, Völu Kristínu Eiríksdóttur, Margréti Erlu Maack og Vilhelm Neto.

Þetta er laddi

Margfalt hliðarsjálf

En sýningin er alls ekki einungis til þess gerð að sýna að hver sem er geti leikið Ladda-karakterana. Og í raun held ég að það geti ekki hver sem er – þessi leikhópur er bara mjög fær og vel samsettur. En það verður mikill fögnuður hjá áhorfendum þegar Laddi sjálfur stenst ekki mátið og fer í ýmis hlutverk. En hápunktinum er svo náð þegar að Laddi, eftir eggjan og ákveðni Völu Kristínar, opinberar sig og kafar djúpt í eigin æsku. Honum er það samt um megn og því enn og aftur setur hann upp grín-grímuna og fær hjálp frá góðvini sínum Eiríki Fjalari til að klára frásögnina. Þegar restin af leikhópnum gengur svo inn á svið í sama atriði, öll íklædd Eiríki Fjalari, verður úr svo kröftug dýnamík og svo innileg stund sem allir skilja og tengja við. Þetta er áhrifamikið atriði. Það hvernig þau sprengja út hliðarsjálf Ladda til þess að gefa ræðu hans um æskuna og grímurnar aukavigt er alveg snilldarlega útfært. Þegar Laddi syngur síðan um móður sína er erfitt annað en að hrífast með og kannski ég sérstaklega þar sem ég var á mínu persónulega Laddaferðalagi sem er svo samofið mömmu minni og eigin æsku.

Marglaga mannleikinn

Varðandi problematísk lög og grín að þá voru þau sem betur fer tekin sérstaklega fyrir og þessi ákvörðun handritshöfunda og leikstjóra, að stara beint í augun á bleika fílnum, gerði það að verkum að Laddi, þessi stóra fígúra í íslenskri dægurmenningu, varð mannlegri og breyskur. Alveg eins og við hin. Handritshöfundar eiga hrós skilið fyrir að fara þessa leið og sömuleiðis Laddi að bjóða upp á þessa nærgöngulu innsýn inn í eigið sjálf og eigin misbresti.

 

þetta er laddi

Vala Kristín lykillinn

Erfitt er að tala um senuþjóf þar sem leikhópurinn er ótrúlega sterkur og kannski kemur það á óvart hvern ég nefni þar sem sýningin er lofsöngur til Ladda en Vala Kristín á alveg sérstakt hrós skilið fyrir frammistöðu sína sem stjórnandinn. Það hvernig hún nálgast viðfangsefnin með ívafi af húmor, öryggi og alvarleika er lykillinn að því að sýningin púslast saman í þessa frábæru heild sem úr verður. Tilfinningaskalinn fullkomnast í hennar beinskeyttu og  óþægilegu spurningum og nálgun á viðfangsefnið.  

Þarna er leiksýning sem bæði gefur áhorfendum það sem þeir vonuðust eftir ásamt því að gefa þeim eitthvað óvænt líka. Þarna er gleði og sorg og leikhústöfrarnir springa út í síbreytilegri leikmyndinni, litríkum búningunum og fjörugri tónlistinni sem allt skapar sjónarspil sem fyllir salinn. Leikhópurinn er gríðarlega vel samsettur og það er mikil gæfa fyrir okkur að eiga svona hæfileikaríkt fólk sem getur tekið okkur frá innilegum hlátri yfir í djúpa angurværð með svo stuttu millibili. Handritshöfundar og leikstjóri eiga hrós skilið að ná öllum skalanum og finna nýja hlið á Ladda til að færa okkur. 

Lestu þetta næst

Hratt, hratt…hægt

Hratt, hratt…hægt

Mér er það afar minnisstætt þegar ég fletti fyrst í gegnum Reese's Book Club í leit minni að góðri...

Ég er ofurhetja

Ég er ofurhetja

Kapteinn Frábær í Tjarnarbíó. Kapteinn Frábær er engin venjuleg hetja. Eða er hann kannski allra...

Dásamlega upplífgandi

Dásamlega upplífgandi

Á dögunum var ég í leit að góðri ástarsögu, the Guardian var með fínustu samantekt þar sem...

Tár, bros og trúðaskór

Tár, bros og trúðaskór

Innkaupapokinn í Borgarleikhúsinu Leikhópurinn Kriðpleir ræðst ekki á garðinn þar sem hann er...