Gáskafullt verk sem gleður hjartað

3. júní 2025

Hin sextuga Didda Morthens er leikaramenntuð en hefur ekki unnið við leiklist í fjöldamörg ár. Hún er hamingjusamlega gift, en hann Elli hennar hefur aldrei tíma fyrir hana, er alltaf að vinna og að farast úr áhyggjum yfir rekstrinum og peningunum. Uppkomin börn Diddu eru allt of upptekin til að vera stöðugt að heyra í mömmu sinni, enda öll í spennandi og krefjandi vinnum eða störfum. Vinkonur Diddu er svo meira og minna uppteknar við barnabörnin og ekki til í sprell með stuttum fyrirvara. Foreldrar hennar eru dánir, hún á engin systkini og þó hún elski tengdó er takmarkað fjör í þeirri gömlu. Svo hvað á Didda Morthens þá að gera við allan tímann sem hún hefur aflögu?

Karíókíbarir, viðreynslur og valdabarátta

Skáldsagan Hefnd Diddu Morthens er sigraði handritakeppni Forlagsins, Nýjar raddir, og er fyrsta bók Sigríðar Pétursdóttur, kvikmyndafræðings og dagskrárgerðarkonu. Didda kemur eins og ferskur andblær inn í bókmenntasenu sumarsins, en eitt það allra besta við hana er að fá konu á sjötugsaldri skrifaða af konu á sjötugsaldri, án einhverrar vorkunnar eða ýktra ellimerkja, heldur sem fjöruga, frakka konu sem lendir í ævintýrum á eigin vegum og reddar sér sjálf úr klípum. Þá er ég ánægð með það hvað Didda er viðkunnaleg söguhetja, þó hún sé auðvitað ekki gallalaus. Ég hef lesið mjög margar bækur með ósköp aumkunarverðum aðalpersónum sem eru svo erfiðar að maður vorkennir þeim, og þó ég fíli þannig bækur ennþá þá er frábær skemmtun að fá að halda með Diddu Morthens í hennar hendingsköstum um djammið, karókíbari, viðreynslur og valdabaráttur.

Fjölbreytt persónugallerí

Þá er æði að hafa sextuga söguhetju sem er ekki bara mannleg og breysk heldur líka kynvera, sem talar um breytingaskeiðið og áhrif þess á hormóna, testósterón og kynkvöt. Hversu hressandi? Persónur sem tilheyra minnihlutahópum eru einnig vafðar inn í söguna á góðan hátt, ekki er til þess að finna að höfundur sé að reyna að troða fólki inn til að skreyta sig inngildingarfjöðrum, heldur finnst manni hún virkilega vilja hafa fjölbreytt persónugallerí. Trans vinkona Diddu er vel og fallega skrifuð af manngæsku, og tekst Sigríði í sinni fyrstu bók að gera trans persónu betur skil en allflestir stærstu höfundar landsins fyrr og síðar. Þá er eikynhneigð vafin fallega inn í söguna án þess að beita öðrun, og velmeinandi kynþáttafordómar tæklaðir á flottan hátt.

Auðvitað má finna einhverja vankanta á bókinni, mér finnst höfundur stundum fara mjög hratt yfir stóra atburði og hægt yfir litla, og segja kannski meira en að sýna við og við, en sem fyrsta bók er þetta meira en glæsilegt verk sem gleður hjartað. Mér finnst Didda frábær söguhetja og væri alveg til í að fylgja henni eftir í fleiri verkum, sjá hvernig hún tækist á við ömmuhlutverkið, við stærri verkefni í vinnunni, ferðalög eða bara hvað sem er. Áfram Didda Morthens og til hamingju Sigríður með æðislega bók.

Lestu þetta næst

Sannleikanum er hvíslað

Sannleikanum er hvíslað

Ljóðabókin Mara kemur í heimsókn er önnur útgefin ljóðabók höfundar, en sú fyrri, Máltaka á...

Hús táknar sálina

Hús táknar sálina

Félagsland er fyrsta ljóðabók Völu Hauks, handhafa Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2024. Félagsland...

Ég fæðist dáin

Ég fæðist dáin

Gólem eftir Steinar Braga „Við erum öll líkön. Sjálf okkar eru líkön hýst í taugum. Efni er líkan...