
Félagsland er fyrsta ljóðabók Völu Hauks, handhafa Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2024. Félagsland fjallar um samfélag, stolt, þörfina fyrir að tilheyra, um heimili og um togstreitu sveitarinnar við borgina. Bókin inniheldur um fimmtíu ljóð. Í bókinni er einnig fallegt úrval mynda sem eru frá Byggðasafni Dalamanna en ljósmyndunum er fléttað í falleg mósaíkverk inn á milli ljóðanna sem auðgar verkið enn meira lífi.
Sterk heild
Það er mjög sterkur heildarbragur á verkinu og ég myndi segja að hvert ljóð og hvert orð eigi þarna erindi og ekkert hefði mátt missa sín. Vala hefur náð að mála upp mjög skýrar og lifandi myndir af tilfinningum, ósögðum orðum, samfélagi og mennskunni. Þá eru mér sérstaklega minnistæð ljóð á borð við Sjálfsmynd samfélags, þar sem ljóðmælandi lýsir uppbyggingu samfélags og uppbyggingu sjálfsmyndar í einungis örfáum orðum. Einnig er þarna ljóðið Regn á stjörnubjörtum febrúarmorgni þar sem tár renna treg niður trekt þar til þau fylla könnu. Myndirnar svo fallegar að augljóst er að það hefur verið nostrað við þær af natni. Svo er þarna verðlaunaljóðið hennar sem ber titilinn Verk að finna sem hlaut ljóðstaf Jóns úr Vör. Mjög meitlað og öruggt ljóð.
Kitlandi lýsingar
Það eru svo skemmtilegar lýsingarnar hjá Völu á öllu sem fyrir ber en þarna eru félagsheimilin meðal annars með „flúrljós linóleum“ og „snagaregnskógi úr smíðajárni“. Þetta er heimur þar sem „við erum öll / í Ungmennafélaginu“ og „Fjöll eru stallar fyrir stolt“. Ljóðin svo áþreifanleg í hversdagsleika sínum en samt svo djúpstæð og stór.
Það er lúmskur húmor í verkinu og ljóðin kitla við flestar taugar en þarna er einnig mikil væntumþykja og merkjanleg innsýn í yrkisefnið. Mörg ljóðanna eru þannig að það er hægt að smjatta á þeim endalaust, þá er gott að prófa lesa þau upphátt og jafnvel aftur og aftur yfir. Og þannig finna nýja vídd á þeim og finna nýjar tilfinningar vakna við upplesturinn.
Félagsland er heildstætt og sterkt verk, skrifað af athygli, innsæi og hlýju. Hún fer á lista yfir eina af mínum uppáhalds íslensku ljóðabókum sem ég hef lesið á áratugnum. Takk fyrir mig.