Sannleikanum er hvíslað

16. júní 2025

Ljóðabókin Mara kemur í heimsókn er önnur útgefin ljóðabók höfundar, en sú fyrri, Máltaka á stríðstímum, hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Í Möru fjallar Natasha S. um flóknar tilfinningar sem fylgja því að vera af rússneskum uppruna á þessum síðustu og verstu tímum þegar Rússar hafa gert innrás í Úkraínu og stjórnvöld beita þegna sína sem eru ósammála stríðsrekstrinum miklu harðræði.

 

Mara þýðir margt

Í upphafi bókar kynnir ljóðmælandi okkur fyrir Möru, sem leggst þung á hana í kjölfar veikinda föður hennar heima í Rússlandi. Ljóðmælandi leggst í orðsifjar og leggur línurnar fyrir bókina, Mara er ekki bara eitthvað þungt sem leggst á hana, ekki bara martröð heldur eins konar draugur, vofa sem ásækir, sem lætur ekki í friði. Þyngsl sem fylgja manneskju í daglega lífinu, herða að hálsinum, leggjast á axlirnar, kúra hjá henni. Koma sér vel fyrir. Poppa.

Ljóðmælandi er á leiðinni til Rússlands, en lesandi gerir ráð fyrir að höfundur sé sjálfur ljóðmælandinn, vitandi að Natasha er rússnesk kona sem hefur lengi búið á Íslandi, sem lítur á Ísland sem sitt heimaland og yrkir á íslensku. Lesandi veit að stjórnmálaástandið í Rússlandi er púðurtunna, og það eitt að vera ósammála stjórnvöldum þar í landi getur verið ávísun á fangelsisdvöl og pyntingar. Ljóðmælandi er skiljanlega óöruggur á leiðinni í fæðingarland sitt, eyðir öllu úr símanum sínum sem gæti bendlað hana við stjórnarandstöðu, felur allt sem sýnir hvaða mann hún hefur að geyma til að geta verið örugg. Hún veit að kortin sín munu ekki virka í Moskvu, að GPS virkar ekki í Moskvu, að enginn er raunverulega öruggur.

Ástand innan og utan veggja heimila

Í sambland við lýsingar á ástandinu í heiminum, í Rússlandi og Úkraínu, á mikilvægri, sterkri og fallegri mótspyrnu sem fer fram á ýmsan máta í hversdegi ógnarstjórnar, talar ljóðmælandi um föður sinn, sem er veikur. Barnið er vaxið úr grasi, og nú er það ekki faðirinn sem er stór og ósigrandi og verndar barnið frá umheiminum, heldur er faðirinn lítill og þarfnast umönnunar, og barnið, sem nú er fullorðin kona og getur umvafið föður sinn, þarf að vernda sig sjálft. Togstreitan milli skoðana foreldra ljóðmælanda og hennar sjálfrar er áþreifanleg, og sennilega eitthvað sem ófáir kannast við úr eigin lífi. 

Falleg orð sem fanga ljótleika

Uppsetning ljóðanna spilar mikilvægan þátt í hvernig þau lesast, sérstaklega eitt ljóð þar sem orðin hoppa eins og ruglað GPS, og annað þar sem brotin í ljóðlínum styrkja boðskapinn. Á einni síðu bókarinnar eru hvítir stafir á svörtum bakgrunni og kjarnar í einfaldleika sínum boðskap bókarinnar, sem þrátt fyrir að fjalla um hræðileg málefni, er full af eins konar von þeirra sem þurfa að halda áfram að lifa sama hvað.

Bókin er mjög stílhrein, ljóðin taka það plás sem þau þurfa, allt frá einni upp í tvær blaðsíður hvert, og er þeim þétt raðað en þó á þann hátt að hvert ljóð hefur rými til að anda og njóta sín. For- og baksíða bókar er einnig mjög falleg, sett upp eins og póstkort með mynd af Moskvu, og titill og nafn höfundar, sem og tilvitnun aftan á, eru skrifuð með letri sem líkist rithönd. Þá er bókin lítil og nett og passar vel í veski eða vasa, svo auðvelt er að taka hana með sér út í daginn.

Ég mæli eindregið með þessari fallegu bók sem ég finn að mun sitja í mér lengi. Natasha S. sannar enn og aftur að hún er meðal okkar allra bestu skálda og á mikið hrós skilið fyrir fallega og sanna bók, fulla af sársauka og fegurð, mótspyrnu á myrkum tímum, mannlegri breyskju og brothættri ást sem nær til föðurlandsins, fjölskyldunnar og fortíðarinnar, hversu gölluð sem hún kann að vera.

Lestu þetta næst

Hamingjusöm sögulok?

Hamingjusöm sögulok?

Þessi umfjöllun inniheldur spilla.  Ég er nýflutt í íbúð með góðar svalir sem baðaðar eru...

Hinsegin hugarheimur

Hinsegin hugarheimur

Sjálfsævisögulegi söngleikurinn Góðan daginn faggi kom fyrst á svið árið 2021 og hlaut mikið og...

Að sleppa tökunum

Að sleppa tökunum

Spennusagan Bylur er önnur bók höfundarins Írisar Aspar Ingjaldsdóttur sem hefur áður gefið út...

Mega þorskar segja frá?

Mega þorskar segja frá?

Þorskasaga  eftir HAFstein Níelsson og Ólíver Þors(k)teinsson    Nú er loksins komið að því! Ég...

Ég vil bara að einhver muni

Ég vil bara að einhver muni

Ég vil bara að einhver muniGunnella eftir Kötlu Þórudóttur Njálsdóttur hjá Afturámóti Á sviðinu er...

Rústaðu mér

Rústaðu mér

Vinkona mín gerði mér á dögunum tilboð sem ég gat ekki hafnað. Hún var með tæplega 800 blaðsíðna...