Sumarleslisti Lestrarklefans 2025

19. júní 2025

Er þetta ekki að fara að vera frábært sumar? Það fer alla vega vel af stað með hlýjasta maí-mánuði í manna minnum. Við vitum öll að sumarið er best með bók í hönd. Hvort sem það er hefðbundin kilja, rafbók eða hljóðbók að þá er fátt betra í góðu veðri en að sóla sig með skemmtilegri sögu. Ef þið eruð með háleit lestrarmarkmið fyrir sumarið, en vitið ekki hvað þið eigið að lesa þá þurfið þið ekki að leita lengra, hér eru okkar leslistar fyrir mögulega bestu árstíðina. 

Leslisti Rebekku Sifjar

 

Oh, það eru alltof margar bækur á leslistanum hjá mér fyrir sumarið. Ég set mér alltaf mjög háleit markmið um lestur í janúar en les voða hægt þessa fyrstu mánuði ársins. Eldmóður jólabókaflóðsins er farinn á bak og burt og svo þarf maður líka bara smá hvíld frá þessum mikla lestri sem fylgir flóðinu. Ég fór til Edinborgar í byrjun mars og keypti aðeins of mikið á bókum þannig það er stæðilegur stafli í bókahillunni heima sem bíður eftir mér. Meðal þeirra bóka er t.d. nýjasta skáldsaga Chimamanda Ngozi Adichie, Dream Count, nýjasta skáldsaga Murakami og Panopticon eftir Jenni Fagan, vinsælan skoskan höfund. Svo fór ég auðvitað á bókmenntahátíð og keypti þrjár bækur þar sem verða vonandi lesnar í sumar, My Cat Yugoslavia eftir Pajtim Statovci, Into the Distance og Trust eftir Hernan Diaz. Svo verð ég líka fljótlega að lesa James eftir Precival Everett sem hlaut Pulitzer verðlaunin nýlega og Sjöfn okkar hefur mælt með. Annars er ég mjög hvatvís lesandi þannig það gæti vel verið að ég taki upp einhverjar allt aðrar bækur í sumar! En vonandi ekki. Kannski. Það er allavega alltaf nóg til að lesa. 

Leslisti Sæunnar

Ég er nýlega komin í fæðingarorlof sem setur ákveðinn svip á lestrarvenjur mínar. Ég er til allrar hamingju með vært barn enn sem komið er en þar sem mikið af tíma mínum fer í brjóstagjöf, kúr með nýburanum og göngutúra með vagninn finnst mér þægilegast að lesa á kindle eða hlusta á hljóðbók. Ég ákvað svo að leyfa mér að kaupa sumar bækur bæði á kindle og audible, ef þú hlustar á bókina á audible og opnar svo kindle er hægt að hafa hann stilltann þannig að þú opnir á þeim stað sem þú varst komin í hlustun og öfugt. Í sumar ætla ég að fara í langt ferðalag erlendis og þá er mikilvægt að minnka umfang farangursins og því mun kindle formið verða vinsælt áfram. 

Áður en ég held út í sumarfrí ætla ég að lesa bækur sem ég á í harðspjaldaformi og hafa gripið áhuga minn undanfarið. Má þar nefna Fíladans og framandi fólk eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur. Bókin kom út 1988 og segir frá áhugaverðum ferðalögum Jóhönnu um framandi slóðir. Jóhanna var hluti af einni frægustu fjölskyldu landsins, móðir Elísabetar, Illuga og Hrafns Jökulssonar og amma Veru Illugadóttur. Hún var fædd 1940 og var ótrúlega djörf og ferðaðist ein um ótrúlegustu lönd, meðal annars Sýrland, Djibouti og Sri Lanka, hún segir frá þessum löndum og fjölmörgum öðrum í bókinni. Jóhanna var blaðamaður á Morgunblaðinu og fór síðar meir sem fararstjóri með Íslendinga um framandi slóðir. Illugi og Vera eiga ekki langt að sækja frásagnargleðina, ég er hálfnuð með þessa bók sem geymir stutta en forvitnilega kafla um hvert land.

Einnig ætla ég að lesa kiljuna Ofsóttur eftir Bill Browder, bók sem okkur hjónum var gefin árið 2022 og maðurinn minn las loksins um daginn og var mjög hrifinn af svo nú vil ég vita hvað vakti athygli hans! Bókin er saga Bill Browders, sjóðsstjóra, en samkvæmt lýsingunni er þetta hrikaleg en sönn saga sem gerist í hásölum pólitísks valds þar sem svik, mútur, spilling og misþyrmingar viðgangast hvar sem litið er.

Ég er nýbyrjuð á nýrri bók eftir ástralska höfundinn Liane Moriarty sem nefnist Here One Moment. Ég hef áður fjallað um þennan höfund sem er með einstakt lag að skrifa spennusögur og má nefna þar bækur hennar Big Little Lies og Apples Never Fall. Bókin hefst á stuttu innanlandsflugi í Ástralíu sem mun draga dilk á eftir sér. Rétt fyrir lendingu stendur eldri kona upp og gengur um vélina og bendir á fólk og tilkynnir því dánarorsök þeirra og aldur við andlát. Mörgum spáir hún langlífi en nokkrum spáir hún andláti innan skamms. Lesendur fylgja þessum óheppnu sálum eftir og fá að lesa þeirra sjónarhorn auk sjónarhorn spákonunnar Cherry, hvað gera þau við þessar upplýsingar? Bókin byrjar vel og ætti að henta afar vel í sumarlestur, jafnvel í flugvélalestur. Vonandi fer þó enginn að góla á mann dánarorsök í því flugi samt!

Leslisti Hugrúnar

Leslisti minn verður afskaplega einfaldur í sumar. Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi greip mig heljartökum fyrr í vor og markmið mitt er að klára allar fimm bækurnar. Ég er búin með fyrstu tvær og er að lesa þriðju.

Það að geta gert íslensk sveitalíf í kringum 1900 svona áhugavert og ómótstæðilegt er magnaður hæfileiki.

Ever after kápa
The midnight feast kápa
Gáfaða dýrið kápa

Leslisti Sjafnar

Sumarið 2025 mun ég líta upp úr doktorsritgerð í fyrsta sinn í langan tíma og helga mig afþreyingarlestri. Sú fyrsta sem verður fórnarlamb mitt er Bat Eater and Other Names For Cora Zeng, eftir Kylie Lee Baker, en bókin fjallar um unga kínversk-ameríska konu sem missir systur sína þegar henni er hrint fyrir lest. Ekki er nóg með að hinn seki gangi laus heldur finnst Coru sem stöðugt fleiri Asísk-Amerískar konur séu að finnast myrtar. Bókin er tímasett í Covid-19 faraldrinum í New York, þegar hatursglæpir gegn asísku fólki jukust til muna, og Cora getur ekki annað en velt því fyrir sér hvort þetta sé tilviljun, eða hvort fleiri morðingjar eins og sá sem varð systur hennar að bana séu á stjái að ná sér niðri á konum sem þeir telja að séu valdar að faraldrinum.

Bók núm er tvö á listanum er svo Private Rites sem ég verð að viðurkenna að ég er búin að lesa, en hún er svo æðisleg að ég verð að mæla með henni. Hún er önnur skáldsaga Juliu Armfield og er eins konar framtíðartwist á Lé konungi, og fjallar um þrjár systur sem takast á við dauða föður síns, flókin erfðamál, fjölskyldutráma og loftslagsvá. Gerist ekki betra. 

Bókin sem ég ætla að lesa á eftir Leðurblökuætunni er The Trees eftir Percival Everett, en sú bók fjallar um lítinn bæ í Mississippi þar sem lík af ungum svörtum manni dúkkar hvað eftir annað upp á mismunandi morðvettvöngum. Þegar lögreglumenn frá MBI koma að rannsaka þessi dularfullu morð og flökkulíkið fara þeir að sjá ókennileg líkindi við eitt frægasta haturglæpamorð í sögu Bandaríkjanna, mál Emmetts Till. Getur verið að líkið sem flakkar um sé lík Emmetts sjálfs að leita hefnda hjá afkomendum þeirra sem urðu honum að bana fyrir þann eina glæp að vera svart barn í Mississippi? Percival Everett er einn af mínum uppáhalds höfundum, en þessi bók hefur verið ókláruð hjá mér um hríð því hún er svo hræðilega ógeðsleg. En ég ætla að vera sterk í sumar og klára. Áfram ég.

Verður eitthvað fleira lesið? Já alveg örugglega, en þetta er það sem er á listanum núna. Svo stökkva alltaf óvæntar bækur upp í fangið á manni hér og þar. Nýjasta viðbótin við bókasafnið mitt er til dæmis 1984 á þýsku, en ég er að safna þeirri bók á mismunandi tungumálum og mun glugga aðeins í hana í sumar til gamans, án þess þó að geta sagst vera að lesa hana því ég kann ekki þýsku. Allir hafa sín áhugamál, mín eru tungumál og bækur.

 

Leslisti Díönu

Þetta er líklega frumraun mín í að setja mér upp sumarleslista hér á vegg, sem er ákveðin skömm að segja frá. Ég hef því aldrei ákveðið fyrirfram hvað ég ætla lesa yfir ákveðið tímabil. Eða í það minnsta er þá orðið langt síðan ég gerði það síðast. Það var ánægjulegt að prófa að hugsa fyrirfram hvaða bækur ég vil taka með mér inn í sumarið. Auðvitað er alltaf gott að hafa einhverjar léttar bækur í árstíð sem er full af flakki og útiveru. En léttmeti fyrir mér er ekki endilega ljúflestrarbækur heldur frekar styttri sögur, ferskar nýjar skáldsögur sem grípa og jafnvel ljóðabækur.  Ég hef nefnt það á öðrum miðlum að ég er mjög spennt fyrir nýjustu skáldsögu Júlíu Margrétar en fyrri bók hennar Guð leitar að Salóme greip mig alveg og er mér mjög minnistæð. Dúkkuverksmiðjan er titill nýju skáldsögunnar en hún gerist á Vestfjörðum sem eru mér einmitt mjög kærir –  en ég frétti að þorpið sem er sögusvið bókarinnar er þarna jafnframt í hlutverki sögumanns. Mér finnst það mjög áhugavert og skemmtilegt svo ég held ég eigi von á góðu og ég ætla reyna næla mér í eintak sem fyrst.

Ég fór  síðan á bókasafnið í Árbæ um daginn og þar voru afskrifaðar bækur sem er alltaf vert að skoða og fá einhverja mola á litlar 100 krónur. Ég rak þar augun í bókina Dauðinn í Feneyjum eftir Thomas Mann og ákvað að grípa hana með mér. Þetta er nóvella sem gerist að sumri til, en miðað við það sem ég hef heyrt er ekki endilega bara gleði þar að finna. Bókin fjallar um rithöfund sem að ákveður að ferðast til Feneyja og verður gagntekinn af  ungum manni eða dreng. Þetta er ein af þekktustu sögum Mann en hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1929. Ég ætla mér að lesa hana í sumar og bæta fyrir kannski einhvern skort minn á lestri á klassískum verkum eftir löngu dauða höfunda. Er hún ekki líka rosa sumarleg?

Að lokum setti ég mér fyrir smásagnasafn en eftir umræður okkar Lestrarklefans í nýjasta hlapvarpsþætti okkar um smásögur þá ákvað ég að taka meðmælum Rebekku og Sjafnar og lesa bók Chimamöndu Ngozi Adichie sem ber titilinn Það sem hangir um hálsinn eða The Thing Around Your Neck. Þær sögðu mér að allir smásagnaaðdáendur þyrftu að lesa þessa bók. Ég læt ekki mitt eftir liggja. Ég held ég hafi náð nokkuð góðri blöndu með þessum þremur; glæný og fersk bók, gömul klassík og innihaldsríkt smásagnasafn. 

Dúkkuverksmiðjan

Lestu þetta næst

Hamingjusöm sögulok?

Hamingjusöm sögulok?

Þessi umfjöllun inniheldur spilla.  Ég er nýflutt í íbúð með góðar svalir sem baðaðar eru...

Hinsegin hugarheimur

Hinsegin hugarheimur

Sjálfsævisögulegi söngleikurinn Góðan daginn faggi kom fyrst á svið árið 2021 og hlaut mikið og...

Að sleppa tökunum

Að sleppa tökunum

Spennusagan Bylur er önnur bók höfundarins Írisar Aspar Ingjaldsdóttur sem hefur áður gefið út...

Mega þorskar segja frá?

Mega þorskar segja frá?

Þorskasaga  eftir HAFstein Níelsson og Ólíver Þors(k)teinsson    Nú er loksins komið að því! Ég...

Ég vil bara að einhver muni

Ég vil bara að einhver muni

Ég vil bara að einhver muniGunnella eftir Kötlu Þórudóttur Njálsdóttur hjá Afturámóti Á sviðinu er...

Rústaðu mér

Rústaðu mér

Vinkona mín gerði mér á dögunum tilboð sem ég gat ekki hafnað. Hún var með tæplega 800 blaðsíðna...