
Vinkona mín gerði mér á dögunum tilboð sem ég gat ekki hafnað. Hún var með tæplega 800 blaðsíðna bók sem hún hélt að ég myndi hafa gaman af að lesa og bauð mér að fá hana í láni. Ef það er eitthvað sem ég elska meira en feitar bækur eru það bækur sem fólk hefur mælt með. Ég var spennt að sjá hvaða bók þetta væri sem ég myndi fá í láni og það kom mér á óvart þegar ég hitti bókina, sem var 800 síðna kilja með nærmynd af andliti manns að fá fullnægingu framan á, að ég hafði aldrei heyrt á hana minnst. A Little Life, stóð hvítum stöfum á grárri kápunni, eftir Hanya Yanagihara.
Þeir sem þekkja bókina súpa nú eflaust hveljur, en ég vissi ekki að þessi bók hefur verið kölluð „besta bók sem þú munt nokkru sinni lesa og munt þó ekki vilja mæla með við neinn.“ En ég var við það að henda mér inn í ótrúlega frásögn sem náði að halda mér í heljargreipum í þá tíu daga sem ég var að lesa hana.
Tímalaus vinátta
Í upphafi bókar kynnist lesandi fjórum vinum, þeim JB, Malcolm, Jude og Willem. Þeir eru allir á þrítugsaldri, voru saman í háskóla og eru nú að reyna að koma undir sig fótunum í New York borg. Bókin kemur út árið 2015 en tími sögunnar er óræður mjög, hún gæti hafist 2015, eða 1975, eða allt þar á milli. Ég ákvað að hún byrjaði 2015, því þá eru persónurnar jafnaldrar mínir, en ég hef sjálf verið í bandarískum háskóla og var að reyna að koma undir mig einhverskonar fótum á þeim tíma.
“Why wasn’t friendship as good as a relationship? Why wasn’t it even better? It was two people who remained together, day after day, bound not by sex or physical attraction or money or children or property, but only by the shared agreement to keep going, the mutual dedication to a union that could never be codified.”
Fjölbreytt persónugallerí
JB er sonur haítískra innflytjenda, hann hefur aldrei þekkt föður sinn en er dekraður af móður sinni og frænkum. Hann er listmálari, og viss um eigið ágæti. Malcolm er sonur svarts föður og hvítrar móður og býr enn heima hjá vel stæðum foreldrum sínum og vinnur myrkranna á milli á virtri arkitektastofu. Draumur hans hefur alltaf verið að vinna sem arkitekt, en þröngt sniðinn stakkurinn á stofunni hentar honum ekki. Hann er óviss um allt í lífi sínu, vinnuna, kynhneigðina, fjölskylduna, peningana og mest af öllu sjálfan sig. Willem langar að verða leikari en þegar sagan hefst vinnur hann sem þjónn á vinsælum veitingastað og hefur næstum ekkert leikið frá háskólaárunum. Hann átti fatlaðan bróður sem dó ungur og hafði það mikil mótandi áhrif á hann. Fjórði maðurinn í vinahópnum, hinn dularfulli Jude, vinnur sem lögfræðingur hjá saksóknara. Meira veit lesandi ekki um Jude, nema að hann glímir við dularfulla fötlun, er bráðgáfaður og sérlega prívat. Meira að segja bestu vinir hans vita ekki hvaðan hann kemur, af hvaða kynþætti hann er, að hvaða, ef einhverju, kyni hann laðast, og svo mætti lengi telja. Lesendur fylgja vinunum fjórum að í ár og áratugi, og sér vináttu þeirra mótast, dýpka, rofna og styrkjast á ný.
Hey Jude
Eftir því sem líður á bókina verður Jude stærri og stærri persóna. Lesandi kynnist æsku hans og áföllum og kemst hægt og bítandi að því hvers vegna hann er eins og hann er. Jude nefnilega gangandi sársauki, hann er æskutráma klætt í jakkaföt sem hylja næstum það sem hann reynir að fela en ekki alveg. Trámað í æsku Judes raungerist í líkamlegum kvillum hans, og má líta á lýsinguna á líkamlegum erfiðleikum sem allegóríu fyrir andlegan sársauka og hversu mjög hamlandi sár á sálinni geta verið. Sár á sál sjást kannski ekki á sama hátt og líkamlegir áverkar, en það að blanda þessu saman í lýsingunni á Jude er að mínu mati áhrifarík leið til að sýna lesendum hversu mjög er hægt að skemma manneskju með ofbeldi.
Bókin er í sjö hlutum, og eru þeir mismyrkir. Tímabilin í lífi vinanna fjögurra eru, eins og tímabil í lífi okkar allra, jafn misjöfn og þau eru mörg. Eitt af því sem mér finnst allra best við bókina er hve stuttum tíma er eytt með fjórmenningunum þegar þeir eru kornungir, einungis er litið á háskólaárin og æsku þeirra í endurlitum, og miklu púðri er eytt í líf þeirra og hræringar á fullorðinsárum. Og það er svo dásamlegt að sjá persónur sem díla við heilu æviskeiðin, að sjá fólk á fimmtugs og sextugsaldri sem er enn að vinna í sjálfu sér, í stað þess að setja punkt um leið og persóna verður þrítug og hætta þar. Það er enginn „þau lifðu hamingjusöm til æviloka“ það er bara þau lifðu til æviloka, kannski lengur, en enginn var hamingjusamur allan tímann.
Púsluspil fortíðar
Bókin er löng, áhrifarík og skrifuð af ótrúlegu innsæi og fegurð. Ljótleiki og sársauki bókarinnar er svo djúpur og gríðarlegur að hálfa væri nóg, en höfundur missir sig þó ekki í að velta sér upp úr ofbeldi eða eymd heldur nýtir fortíð Judes sem púsluspil sem hún leggur hvert við annað til að fanga heilsteypta mynd af brotnum manni. Einhver fór að gráta svona þrisvar við lestur bókarinnar, en þessi gagnrýnandi nefnir engin nöfn.
“…things get broken, and sometimes they get repaired, and in most cases, you realize that no matter what gets damaged, life rearranges itself to compensate for your loss, sometimes wonderfully.”
Vilt þú rústa þér líka?
Mæli ég með henni? Já og nei. Hún fangaði svo sannarlega athygli mína. Ég var örlítið lengi að komast í gang þar sem ég hélt að ég væri með venjulega eftirháskólabók í höndunum, og var ekkert allt of spennt yfir að sjá 27 ára menn reyna að ná starfsframa í þrjú ár eða svo. En svo varð hún svo miklu meira en ég hefði getað ímyndað mér. Ég hugsaði um lítið annað á meðan ég las. Persónurnar eru ljóslifandi og raunverulegar, og tráma bókarinnar er fangað á svo sannan hátt að ég veit ekki alveg hvort ég eigi að hringja heim til höfundar og spyrja hvort það sé allt í lagi hjá henni. Á einn hátt er bókin dásamleg upphafning á platónskri vináttu og á fegurð fjölskyldunnar sem maður velur sér sjálfur. Á annan hátt er bókin lýsing á stigvaxandi ömurlegheitum þess að þurfa að takast á við tráma án þess að fá nokkur tól til að vinna í sjálfum sér, innlit í heila sem er svo skemmdur í frumbernsku að ómögulegt virðist að beina brautum hans á heilbrigðari slóðir. Mæli ég með henni? Bara ef þér líður vel og ert á öruggum stað. Annars skaltu geyma hana. Í öllu falli er bókin vel skrifuð, launfyndin og virkilega grípandi og ég var glöð að sjá að bók gæti vakið með mér svona miklar tilfinningar.
“Wasn’t friendship its own miracle, the finding of another person who made the entire lonely world seem somehow less lonely?”