Þessi umfjöllun inniheldur spilla.
Ég er nýflutt í íbúð með góðar svalir sem baðaðar eru síðdegissólinni (svona þegar hún lætur sjá sig). Í vor plantaði ég sumarblómum og keypti mér sólhlíf svo ég gæti varið sumrinu á svölunum með bók í hönd. Svo leið og beið og sólin var eitthvað feimin. Þegar hún loksins mætti um miðjan júní var allt sem vantaði góð bók: Bara vinir eftir bandaríska rithöfundinn Abby Jimenez varð fyrir valinu. Bókin heitir á frummálinu The Friend Zone og kom út á ensku árið 2019 en í íslenskri þýðingu Ingibjargar Valsdóttur árið 2025. Útgefandi er Björt.
Bara vinir fjallar um Kristenu Petersen, tuttugu og fjögurra ára konu sem býr í Los Angeles. Kristen er sjálfstæð kona sem situr ekki á skoðunum sínum. Hún á hund, rekur fyrirtæki af heimili sínu og er í langtíma fjarsambandi með manni sem mun brátt flytja inn með henni. Líf Kristenar virðist, á yfirborðinu í það minnsta, á góðum skrið í átt að hamingjusömum endalokum. Þó er ýmislegt sem kraumar undir yfirborðinu. Kristen hefur lengi þurft að eiga við slæmar blæðingar sem hafa sett líf hennar úr skorðum, svo slæmar að hún hefur ákveðið að fara í legnám. Þótt Kristen lýsi því yfir að hún hefði viljað eignast börn virðist hún ekki ósátt við ákvörðunina. Að auki hefur kærastinn ekki áhuga á barneignum og Kristen hefur sætt sig við það að geta aldrei orðið móðir, ekki einu sinni með hjálp staðgöngumæðrunar eða ættleiðingar.
Þegar Kristen hittir svo slökkviliðsmanninn Josh hriktir í stoðum hennar og hún fer að efast um framtíðina sem hún hefur valið sér. Josh er úr stórri fjölskyldu og vill eignast stóra fjölskyldu (hann nefnir töluna níu fyrir barnafjöldann!). Þegar hann flytur til Los Angeles er hann nýhættur með kærustunni. Ástæðan fyrir sambandsslitunum? Hún vildi ekki eignast börn. Josh steinfellur fyrir Kristenu og reynir sitt besta að vinna ástir hennar. Þegar Kristen heyrir um barnaþrá Josh ákveður hún að hún geti aldrei verið með honum. Hún ákveður líka að segja honum ekki ástæðuna, en sú ákvörðun drífur söguna áfram að mestu.
Staðalmyndir kven- og karlleikans
Í Bara vinir stígum við inn í mjög heterónormatívan bandarískan heim þar sem karlinn (sem á handbyssu) á að vernda konuna (jafnvel með því að grípa til ofbeldis) og konan á að eignast börn (helst níu). Ofan á bætist að Kristen fellur vel undir staðalímynd pick-me girl. Ég – eins og við flest – er vön því að neyta bandarískrar afþreyingar þar sem kynjahlutverkin eru oft mjög afmörkuð en stundum fannst mér of langt gengið í Bara vinir, í það minnsta fyrir minn smekk. Ég velti fyrir mér hvort þetta séu einhver áhrif frá spicy bókunum sem hafa tröllriðið TikTok um langt skeið og einmitt verið gagnrýndar fyrir að ýta undir mjög hefðbundin kynjahlutverk.
Barneignir og ófrjósemi er meginþema bókarinnar. Að mér vitandi er þetta efni ekki algengt að hitta fyrir í skvísubókum en er nokkuð sem vakti áhuga minn sem lesanda. Ófrjósemi kvenna er vaxandi vandamál en um ein af hverjum tíu bandarískum konum glímir við ófrjósemi á lífsleiðinni. Þrátt fyrir algengi kvillans verðum við ekki mikið vör við hann í okkar daglegu lífi, enda er ófrjósemi enn mikið feimnismál. Andlegir fylgifiskar ófrjósemi eru vel þekktir en konur sem kljást við ófrjósemi upplifa oft þunglyndi, skömm og sjálfsdómhörku.
Þegar ég tók bókina upp og las kápulýsinguna átti ég von á að í henni yrði tekist á við akkúrat þessi atriði og uppfyllti bókin þær væntingar að hluta. Ekki er reyndar að sjá að þunglyndi einkenni líðan Kristenar. Eins og áður sagði er hún ekki ósátt við ákvörðun sína um legnám, jafnvel þegar besta vinkona hennar reynir að sannfæra hana um að bíða þar til fullreynt sé að Kristen geti eignast barn á hefðbundinn máta. En eftir því sem á líður bókina, og tilfinningar Kristenar gagnvart Josh vaxa, verður skömm og sjálfsdómharka Kristenar meira áberandi. Þessi skömm og sjálfsdómharka er þó öll á forsendum þarfa og óska annarra (Josh), ekki hennar sjálfrar, eins og sést skýrt á eftirfarandi hugsunum Kristenar (bls. 288):
Ég myndi ekki þola að sjá virði mitt verða að engu í augum hans, sjá hann átta sig á að ég væri ekki sú sem hann vildi.
Minni kona.
Skemmd vara.
Óbyrja.
Ófrjó.
Sjálfsmynd margra bandarískra kvenna er mjög tengd barneignum og eiginkonuhlutverkinu. Þessi tilfinning – að finnast maður ekki vera alvöru kona ef maður getur ekki eignast barn – er nokkuð sem sumar konur sem kljást við ófrjósemisvanda upplifa, jafnvel þær sem vænta þess að geta ekki eignast börn þótt það sé ekki fullreynt.
Í gegnum lesturinn upplifði ég að Kristen væri að breyta sér fyrir Josh, sorgin yfir að geta ekki eignast barn tengdist ekki barninu sjálfu heldur því að ófrjóseminnar vegna gæti hún ekki verið með draumakarlinum. Það er ekki svo að skilja að þetta séu ekki gildar tilfinningar, alls ekki. Ég hefði þó viljað að höfundur leyfði Kristenu sjálfri, hennar löngunum og líðan að vera meira í forgrunninum. Meginþorri lesanda skvísubóka eru konur og það hefði gefið bókinni meiri tilfinningalega dýpt að kafa í áhrif ófrjóseminnar á Kristenu óháð Josh.
Falleg sögulok?
Í lok bókar, þegar Josh veit loks af hverju Kristen hefur haldið aftur af sér í sambandi þeirra, stígur hann skref á móti henni. Hann setur fram plan um ófrjósemismeðferð og mögulegar staðgöngumæður, hann segir henni að jafnvel þótt þeim myndi aldrei auðnast að eiga barn myndi hann samt velja hana. Falleg sögulok, ekki satt? En sagan er ekki búin. Þegar Josh og Kristen ætla að hefja ófrjósemismeðferð kemur í ljós að Kristen er þá þegar ólétt. Svo virðist sem kraftaverkasæði Josh (hann er kallaður frjósemisvél vegna afbragðs sáðfruma hans, bls. 367) hafi barnað Kristenu strax fyrstu nótt þeirra saman. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta hálfklén endalok.
Í bandarísku samfélagi, sem er að mörgu leyti íhaldssamara en íslenskt samfélag, er mikil áhersla lögð á barneignir (hvítra) kvenna og er virði þeirra jafnvel mælt í barneignum. Enn hvílir stigma yfir barnleysi kvenna þótt viðhorf til þeirra sem eru barnlausir hafi mildast á síðustu árum. Kærkomið hefði mér þótt ef höfundur hefði valið að leysa ekki vandamál Kristenar og Josh með töfrasprota heldur sýna erfiðleikana sem fylgja ófrjósemismeðferð eða – sem væri enn betra að mínu mati – að Josh lærði að elska Kristenu sem konu, ekki sem mögulega móður. Í núverandi formi upplifði ég sem endalokin ýttu frekar undir þá hugmynd að barnlaus kona væri minni kona, skemmd vara. Að hamingjusöm sögulok yrðu eingöngu ef barn kæmi undir.
Þrátt fyrir það sem ég hef talið hér upp get ég alveg mælt með bókinni ef maður nálgast hana á hennar eigin forsendum: Bara vinir er góð bók til að grípa með sér á ströndina, garðinn, sumarbústaðinn eða svalirnar í sumar. Hún er þægileg aflestrar, passlega léttkrydduð og tekur óvæntan snúning á skvísubækur með ófrjósemisumræðu sinni, þótt persónulega hefði ég viljað sjá höfund kafa dýpra í sálarlíf aðalpersónunnar og kosið önnur sögulok.






