EKKI – sería Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Braga Páls
Nú er hrekkjavakan að ganga í garð með tilheyrandi ógurlegheitum. Þessi hátíð er kannski nokkuð ný hér á landi en unga kynslóðin tekur hana jafn hátíðlega og mín tók öskudaginn forðum. Þannig að sem fyrirmyndarforeldri og mikil stemningsmanneskja hef ég undanfarin misseri séð um að finna ógnvekjandi lesefni fyrir börnin á heimilinu.
Hrekkjavökulestur barnanna
Á hverju ári er leitin svolítið erfið því í fyrsta lagi gleymi ég venjulega að byrja tímanlega. Í öðru lagi er svolítið erfitt að áætla hvað sé hentugt fyrir aldurinn sem maður ætlar að lesa með eða fyrir. Svo þarf að gá hvort bækurnar eða sögurnar sem verða fyrir valinu sé uppfullar af einhverjum vafasömum fordómum sem maður vill ekki tyggja ofan í börnin, og svo þarf bókin auðvitað að vera aðgengileg á íslensku svo börnin þurfi ekki að hlusta á mig lesa fyrir þau á ensku með vafasömum hreim.
Í fyrra þurfti ég ekki að leita langt því Storytel gaf út vægast sagt óhugnanlega seríu sem var samvinnuverkefni tveggja höfunda, Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Braga Páls Sigurðarsonar. Fjórar sögur, sem allar voru rétt um klukkustund að lengd, komu út í seríunni, og þær áttu það sameiginlegt að titlar þeirra byrjuðu allir á orðinu „ekki.“
Ekki fara á skíði
Ekki fara niður í fjöru
Ekki fá þér hamstur
Ekki gera samning við Kölska
Hljóma þær ekki spennandi?
Ekki gera eitthvað
Sem foreldri sem hefur verið undir áhrifum frá Gentle Parenting þar sem orð eins og „ekki“ og „nei“ eru almennt spöruð, fannst mér þetta einstaklega spennandi fyrirbæri. Þessar sögur voru svolítið „bannaðar“, eða báru það í það minnsta með sér að á síðum þeirra leyndist einhver ógn.
Ég og miðjubarnið mitt, sem á þessum tímapunkti var 10 ára, tókum að okkur hlustunina og viti menn. Þetta voru akkúrat sögurnar sem okkur vantaði í aðdraganda hrekkjavökunnar. Þær voru smá ógnvekjandi, en ekki nægilega til að setja heimilið á hliðina – enginn þurfti að sofa uppí hjá mér (nema makinn minn) og það mátti slökkva ljósið á nóttunni, en þó kitluðu sögurnar aðeins tærnar. Spennan við hlustunina óx jafnt og þétt og alltaf gerðist eitthvað sem kom á óvart. Höfundar fóru ekki endilega auðveldustu og beinustu leiðina að niðurstöðu sögunnar svo hún kom okkur að óvörum, og mér þótti ánægjulegt að sögurnar fylgdu aðeins Roald Dahl forminu og enduðu ekkert endilega vel eða hafa góðan boðskap. Nú, nema þann boðskap að það sé ekki mjög gáfulegt að gera samning við Kölska, en við vissum það svo sem fyrir.
Furðuverur og ævintýr
Annar skemmtilegur vinkill er að sögurnar sækja sér innblástur í íslenskum þjóðsögum, en alls konar furður sem foreldrar kannast við er að finna á síðum þeirra. Og það besta? Nú eru komnar tvær nýjar sögur á Storytel sem verða teknar fyrir í hámhlustun heima hjá mér í október. Það eru sögurnar Ekki passa hund og Ekki fara í sumarbústað. Ég er að hugsa um að leyfa yngsta barninu að hlusta líka, en aðallega vegna þess að mér finnst svo kósý þegar hann vill sofa uppí hjá mér.






