Glóandi goðsögn í nútímabúningi

21. október 2025

Þetta er gjöf eftir Kolbrúnu Björt Sigfúsdóttur, er 90 mínútna einleikur án hlés sem fyrst var fluttur í Skotlandi en færir sig nú um set og sækir Þjóðleikhúsið heim. Katla Njálsdóttir sér um flutninginn, leikstjórn er í höndum höfundar, sem einnig sá um þýðingu verksins með Friðriku Benónýsdóttur.

Í þetta sinn fóru báðir leikhúsgagnrýnendur Lestrarklefans á verkið og er þessi dómur undir áhrifum samræðna okkar Díönu Sjafnar um verkið.

Sóley er venjuleg menntaskólastelpa sem stefnir á háskólanám í Kaupmannahöfn fái hún styrk, annars liggur leiðin beint í HÍ. Hún er dóttir einstæðs föður sem rekur verslun með halla og eru þau feðginin með skuldahala á eftir sér og áhyggjur af framtíðinni. Þegar hinn dularfulli Silvain birtist rænulaus á útidyratröppum þeirra feðgina og þau skjóta yfir hann skjólshúsi verður líf þeirra aldrei samt, því í ljós kemur að Silvain er eins konar þjónn dularfulls og valdamikils ginframleiðanda sem getur látið óskir rætast.

Mídas nútímans

Faðir Sóleyjar gerir það sem allir myndu gera ef þeim væri boðið að óska sér hvers sem er – hann slær á létta strengi. Ég vildi að allt sem ég snerti breyttist í gull segir hann fyndinn og viti menn, honum verður að ósk sinni. Mídas konungur í nútímanum er þó ekki háttvirtur aðalsmaður heldur er hann, rétt eins og mörg okkar, þræll kapítalískrar hringekju. Hann hleypur á sínu gyllta hamstrahjóli en kemst hvorki lönd né strönd, sama hversu mikið hann reynir að græða endar hann blankur og fullur sektar- og vanmáttarkenndar gagnvart dóttur sinni. Dóttirin er á sama hátt óörugg gagnvart framtíðinni eins og fólk sem á ekki sterkt bakland er á þessum síðkapítalísku og verstu tímum.

Leikið er upprunalega skrifað á ensku og gerist í Leith hverfinu í Skotlandi. Stéttamunur Sóleyjar og sumra bekkjarsystkina hennar er henni hugleikinn, þar sem hún veit að hún þarf að leggja sig alla fram til að ná langt í lífinu, annað en sumir. Sumir telja það ósannfærandi að hafa bresku stéttaskiptinguna í Reykvískum veruleika en við megum ekki gleyma því að sú hugmynd um að Ísland sé stéttskiptingalaust samfélag er löngu dauð. Það er frussandi stéttaskipting og í sömu hverfum búa hér og hvar fólk í félagsíbúðum, fólk sem nurlar saman fyrir leigunni og borðar núðlur í lok hvers mánaðar og svo aftur á móti eignaaðall sem á hús og leigir út íbúð á okurverði til að maka krókinn. 

Goðsaga staðfærð

Mikið er sótt í upprunaefnið, konungurinn og dóttir hans verða faðirinn og Sóley, og það er gaman að sjá söguna sagða út frá Sóleyju en ekki þeim sem lendir í álögunum beint. Þá er vínguðinn Díónísos gerður að Dennis, sem hljómar eins og klassískur viðskiptakall, og kentárinn hans auðmjúki verður að Silvain, óræðum karakter sem hleypir framvindu verksins af stað. Rósagarður Mídasar verður að einni stakri rós á tröppunum, konungsríkið að rykfallinni verslun og íbúð sem má muna fífil sinn fegurri. Einn hængur á uppsetningunni er að mínu mati sá að áhorfandi þarf að vera vel að sér í sögu Mídasar til að ná tengingunum, þekkja persónur og leikendur, og hefði hjálpað að glöggva áhorfendur á goðsögninni sjálfri í upphafi verks. Þó skilar boðskapurinn sér vel í þessum nýja veruleika Mídasarálaganna og ef maður les söguna sem ádeilu á kapítalískt kapphlaup þar sem foreldrar eru þvingaðir til að leggja allt í sölurnar til að skapa verðmæti fyrir börnin sín án árangurs og öllum til bölvunar þá gengur það vel upp.

Skortur á undirbyggingu

Til að fá tilfinningalegu dýptina myndi að mínu mati þurfa að byggja frekar upp samband Sóleyjar við aukapersónur verksins. Ástarævintýri hennar er krúttlegt og spennandi en endir þess er endaslepptur og skyndilegur og maður hefur ekki náð nægum tilfinningalegum tengslum við sambandið til að syrgja það almennilega. Hvers vegna elskhuginn verður afhuga Sóleyju er ekki nægilega sannfærandi heldur eins og misskilningur í rómantískri gamanmynd sem er svo aldrei leystur. Þá er fráfall Silvains skyndilegt og áhorfandi ekki viss hvers vegna Sóley ber svo miklar tilfinningar í hans garð eða hvers vegna hann er dáinn. Er það af eftirsjá eða er það algerlega ótengt? Ég hefði viljað að hann reyndi að hjálpa feðginunum eða gerði eitthvað sem setti Dennis úr jafnvægi svo áhorfandi myndi sjá hvers vegna fór sem fór. Það samband við aukapersónu sem er hvað sterkast er samband Sóleyjar og vinkonu hennar sem snýr svo við henni bakinu þegar henni sýnist Sóley vera að reyna um of í flottræfilshætti. Missir vináttunnar er virkilega sár vegna þess að ljóst er hversu mikilvægt samband vinkvennanna er þeim.

Millikafli verksins er sem sagt sístur, en verkið nær sér aftur á strik þegar endirinn nálgast. Lokasena Sóleyjar og föður hennar er átakanleg og falleg, ljóðræn og í skýrri tengingu við goðsöguna sem byggt er á.

Búningar, leikmynd og leikur

Búningur Kötlu er dásamlegur, en vekur þó upp spurninguna af hverju er Katla svona oft í hnébuxum á sviði? Er það persónulegt val eða eru búningahönnuðir allir sammála um að það sé hennar lúkk? Hvort svo sem svarið er þá breytir það ekki öllu, Katla er ótrúlega flott í gullgallanum sínum, hnébuxum og hnésokkum, og efri hluti búningsins hennar sem er í senn brynja, lífstykki og bolur er algjör veisla fyrir augað. Þá er sviðið margslungið og tækninni sem beitt er í lýsingu og speglun fangar brotakennda upplifun Sóleyjar og hennar flóknu tilfinningar. Guðný Hrund Sigurðardóttir sem sér um búninga og leikmynd og Garðar Borgþórsson sem sér um lýsingu eiga skilið mikið hrós þar.

Katla leikur ótrúlega vel, eins og henni einni er lagið og leggur mikið upp úr sköpun raunsærra persóna. Textinn er vel skrifaður, ljóðrænn en um leið raunsær á sinn hátt, eitthvað sem ég myndi trúa að unglingsstúlka í Reykjavík myndi hugsa og segja. Þá eru viðbrögð Sóleyjar við aðstæðum oft svo ótrúlega raunsönn að það er stórkostlegt, ég get séð fyrir mér að maður myndi bregðast við á nokkuð svipaðan hátt ef manns eigin faðir breyttist í Mídas konung.

Verkið heldur manni vel og er fyndið án þess að reyna um of. Tragedían er mjög sterk undir lokin. Ótrúlega flottur leikur hjá Kötlu sem skiptir á sannfærandi hátt milli persóna og heldur salnum allan tímann. Það gloppóttasta í verkinu öllu og uppsetningunni er millikafli handritsins, en ef hann væri aðeins þjappaður og styttur og persónum jafnvel fækkað myndi ég ekki hafa út á neitt að setja.

 

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...