Þvílíkur draumur!

23. október 2025

Um þessar mundir er nýr og ferskur leikhópur að setja upp Jónsmessunæturdraum William Shakespeare í Tjarnarbíó. Leikhópurinn kallar sig Silfurskeiðina. Um er að ræða uppsetningu byggða á þýðingu Þórarins Eldjárns frá árinu 2019. Og þvílík þýðing! Ekki að undra að hún fékk tilnefninginu Íslensku þýðingaverðlaunanna sama ár. Textinn rennur svo mjúklega en á sama tíma svo skarpt til áhorfenda að erfitt er annað en að heillast af. Leikhópurinn samanstendur af ungum en kröftugum leikurum og er verkið leikstýrt af Maríu Ellingsen og Magnúsi Thorlacius. Aðstoðarleikstjórn og dramatúrg er í höndum Eyju Gunnlaugsdóttur. 

Eitt vinsælasta gamanleikrit allra tíma

Þrátt fyrir að þetta sé vinsælasta leikverk Shakespeare þá er þetta í fyrsta skipti sem að þessi leikhúsgagnrýnandi hefur séð uppsetningu á verkinu. Ég hafði nýlega samt horft aftur á kvikmyndina Dead Poet’s Society, en það er líklega eina snerting mín við verkið fram að þessu. Ég var því mjög spennt að fá loks að sjá þetta rómaða verk á sviði. Ég held að ég hafi líka verið einkar heppin að hafa fengið að upplifa það fyrst í gegnum þessa uppsetningu. Þetta er uppsetning sem að enginn má láta framhjá sér fara. Ég myndi jafnvel hvetja hörðustu gagnrýnendur Shakespeare að kaupa sér miða í Tjarnarbíó á Jónsmessunæturdraum. Þvílíkur draumur. 

Fagurhvítur draumur 

Verkið byrjar á smá forleik. Verkamannahópurinn,  sem er leikhópurinn innan leikverksins, spyrja áhorfendur sem ganga inn í salinn hvort þeir vilji taka þátt í leikprufum. Þetta er skemmtileg kitla sem byrjar á að mynda stemminguna. En svo setjast áhorfendur og sjá sviðið. Það er draumkennt og fagurhvítt. Auðvelt er að týna sér inn í verkinu um leið og það byrjar en þar spilar lýsingin, leikmyndin og svo búningarnir mikilvægt hlutverk. Búningar og leikmyndahönnun er í höndum Írisar Ólafsdóttur en minimalísk leikmyndin er fullkomin til að búa til dularfullan blæ en á sama tíma er hún nógu mikið tilbaka svo að texti, leikur og búningar fái að njóta sín. Ef ég ætti að tilnefna búninga til næstu grímuverðlauna þá myndi ég tilnefna búninga Írisar í Jónsmessunæturdraumi. Þeir eru dulúðlegir og áhugaverðir og gaman er að sjá hvernig hún nýtir mismunandi áferðir til að skapa dýpt. Sumar persónur fá jafnvel ákveðinn blæ af ókennileika yfir sér og má þar helst nefna Búkka sem Rakel Ýr Stefánsdóttir túlkar en hann verður hálf óhugnalegur en á sama tíma ærslafullur og fullur leikgleði. Hvítt yfirbragð sýningarinnar er því að mínu mati glæsilegt og áhugavert í alla staði.

Ærslafull geysireið 

Ég veit ekki hvort ég geti farið yfir söguframvindu í stuttu máli en verkið er auðvitað röð furðulegra atburða sem ná einhvern veginn að tengjast saman þótt ótrúlegt sé. Þetta er eins og dómínó-spil á geysireið. Þarna fléttast saman saga af átökum konungs og drottningar álfanna, saga af fjórum ungum elskendum og svo af leikhópi sem æfir leikrit í skóginum. Þetta er alveg stórskemmtileg blanda og persónusköpunin sem verður til með samspili handritsins, leiksins og búninga gegnir þarna lykilhlutverki. Þá voru fjórmenningarnir í handverksmanna-leikhópnum einstaklega fyndnir og vel útfærðir en þeir voru túlkaðir af Níelsi Thibaud Girerd, Fjölni Gíslasyni, Óskari Snorra Óskarssyni og Björk Guðmundsdóttur. Ég held það sé langt síðan ég hló jafn mikið eins og af atriðum þeirra. Ég fékk illt í kinnarnar. Elskendurnir fjórir voru líka með æðislegt samspil í átökum sínum. Killian G. E. Briansson lék Demetríus, Sigríður Halla Eiríksdóttir var Hermía, Vilberg Andri Pálsson var Lýsander og Kristín Þorsteinsdóttir lék Helenu. Sömuleiðis áttu Jón Gunnar Vopnfjörð Ingólfsson og Heiðdís Hlynsdóttir frábæran leik sem Þeseifur/Óberon og Hippolíta/Títanía. Í raun á heildina litið þótti mér afar vel valið í hvert hlutverk og ungur aldur leikhópsins átti jafnvel mikinn þátt í því að undirstrika þema og andrúmsloft verksins. Túlkun Rakelar á Búkka var einnig einstök en liprar hreyfingar hennar, leikgleði og taugakiprur voru afar vel útfærðar og skapaði heildstæðan og minnistæðan Búkka.

Eins og áður sagði að þá hefur þessi gagnrýnandi engann samanburð á uppsetningum á þessu tiltekna verki svo ekki verður farið í saumana á því. En það sem skiptir meira máli er að ég skemmti mér konunglega og textinn og handritið grípa hvern mann sterkum tökum. Uppsetning þessi á Jónsmessunæturdraumi í Tjarnarbíó er einstaklega vel heppnuð og töfrandi og augljóst er að mikið hefur verið lagt í bæði leik og umgjörð.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...