Brothætt mæðgnasamband og ástin

24. október 2025

Sé eftir þér, eða eins og hún heitir á frummálinu Regretting You, er 19. bók höfundarins Colleen Hoover og kom hún fyrst út á frummálinu árið 2019.

Íslenska þýðingin kom hinsvegar út núna á haustmánuðum á vegum bókaútgáfunnar Bjartrar. Það eru Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir sem þýða. Þetta er sjötta bókin eftir Hoover sem kemur út í íslenskri þýðingu en ég hef lesið allar íslensku þýðingarnar (fyrir utan Aldrei aldrei, sem er á listanum mínum). Ég var því spennt að hefja lesturinn á þessari.

 


Átakanlegt mæðgnasamband

Bókin fjallar um mæðgurnar Morgan og Clöru sem verða fyrir áfalli þegar Chris, eiginmaður Morgan og faðir Clöru, lendir í hræðilegu slysi og þvingar þær mæðgur til að endurhugsa lífið á nýjan leik. Þessar tvær ólíku konur, á ólíku æviskeiði, þurfa því að fóta sig í breyttum veruleika sem reynir verulega á mæðgnasambandið. Á sama tíma dúkkar ástin upp hjá þeim báðum sem hefur líka áhrif á hið brothætta samband móður og dóttur. Það er erfitt að fjalla nánar um söguþráðinn án þess að gefa of mikið upp, því mæli ég með að fólk næli sér í eintak og lesi.

Ástin er rauður þráður í gegnum þær bækur eftir Hoover sem ég hef lesið og þessi var engin undantekning. Hins vegar er þetta sú fyrsta eftir hana sem ég hef lesið sem fjallar svo náið um samband móður og unglingsdóttur. Það var hressandi, öðruvísi og átakanlegt allt í bland. Afleiðingar slyssins á líf þeirra mæðgna er áþreifanlegt og höfundur kemur þungu andrúmsloftinu vel til skila. Sjálfri fannst mér sem móður erfitt að horfa upp á samband mæðgnanna liðast í sundur – en ung og barnlaus manneskja myndi kannski upplifa bókina á annan hátt. Framvindan er fremur hæg og einblínt er á hugsanir og sálarlíf þessara tveggja aðalpersóna.

Það gæti komið íslenskum lesendum spánskt fyrir sjónir að móðirin Morgan fann sig knúna til að setja nám sitt og starfsferil í algjöra biðstöðu þegar hún varð ólétt að Clöru aðeins 17 ára. Hegðun Morgan og hugsanir í bókinni litast af knýjandi þörf til að uppgötva sjálfa sig á ný í kjölfar slyssins, og ekki síður vegna þess að Clara er sjálf að verða fullorðin. Það gætir því á ákveðnum trega og eftirsjá innra með Morgan sem eru gerð góð skil. Sjálfri finnst mér þó að Morgan hafi haft ríflegan tíma til að byggja upp náms- og starfsferil. Hafa þarf því í huga að höfundur er bandarískur og sagan gerist í bandarískum veruleika.

Hjartnæm og skemmtileg mynd

Ég var svo lánsöm að fara á forsýningu kvikmyndarinnar sem var gerð eftir bókinni. Og ég var í einu orði sagt stórhrifin! Það var ánægjulegt að sjá hve vel myndin fylgdi bókinni og hversu vel það tókst að nýta það besta úr henni. Myndin er þó ekki jafn átakanleg og bókin, kannski af því að þar var meiri áhersla lögð á rómansinn.

Þetta er í annað sinn sem ég er ánægðari með kvikmynd eftir bók Colleen Hoover heldur en bókina sjálfa, en hin myndin er að sjálfsögðu sú sem gerð var eftir bókinni It Ends With Us, sem Katrín fjallaði um hér á Lestrarklefanum. Þó að sú bók hafi  einnig verið fín þótti mér kvikmyndaleg aðlögunin að sama skapi betri.

Afkastamikill höfundur

Mér hefur fundist bækur Colleen Hoover misjafnar, enda eru þær margar. Þegar þetta er ritað hefur hún gefið út 23 bækur og von er á nýrri bók í janúar á næsta ári. Nú hafa komið út tvær myndir eftir bókum hennar og því má segja að frægðarsól Hoover skíni skært.

Persónulega þá mun ég halda áfram að þræða mig í gegnum bækur hennar því þó að mér finnist þær ekki allar góðar leynast demantar inn á milli. Ef ég ætti að nefna tvær af mínum uppáhalds þá væri það Hjartabein og Reminders of Him. Það gladdi mig mjög að sjá að það er von á mynd eftir Reminders of Him á næsta ári. Ég krossa því putta og vona að íslenska þýðingin líti bráðlega dagsins ljós.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...