Þessu lýkur hér – bók sem kemur á óvart

Bók Colleen Hoover, Þessu lýkur hér, eða It Ends With Us eins og hún heitir á frummálinu, hefur vakið mikla lukku meðal lesenda sinna. Á samfélagsmiðlinum TikTok hefur hún komist inn á BookTok, en hér tala ég ekki af mikilli innsýn. Mín reynsla af TikTok einskorðast við þau myndbönd sem vinir mínir senda mér af og til, eða leka í mig upplýsingum um hvað er að gerast á BookTok. Það má þó færa mjög sannfærandi rök fyrir því að þetta sé bók sem er í tísku, þar sem bækur sem komast á BookTok verða gríðarlega vinsælar og seljast vel. Einnig hefur bókin vakið mikla athygli á Goodreads og Hoover hefur unnið til verðlauna fyrir bækur sínar meðal lesenda þar. Íslenskir útgefendur láta þetta æði ekki framhjá sér fara og Marta Magnadóttir og Birgitta Elín Hassel hjá Bókabeitunni þýddu bókina og hún er því aðgengileg á íslensku núna.

Sjóðandi heit ástarsaga

Lily Bloom er 22 ára gömul þegar sagan hefst. Hún flutti til Boston á námsárunum og býr þar enn. Á fyrstu síðum bókarinnar kynnist Lily Ryle Kincaid, í meira lagi myndarlegum og heillandi heila- og taugaskurðlækni. En þau komast fljótt að því að þau eiga ekkert sameiginlegt og því verður ekkert úr ástarsambandi. Örlögin leiða þau þó saman með einum tognuðum ökkla. Hér verð ég að minnast á pistil Önnu Margrétar um hinn alræmda snúna ökkla í ástarsögum og konur í klípu. Sem sagt, þegar hér var komið var ég farið að dæsa hátt inn á milli. Þessi klisja var einhvern veginn toppurinn yfir i-ið á bók sem var þegar smekkfull af klisjum. Óánægja mín var raunar svo hávær að fjölskyldan fór að hafa áhyggjur og spyrja hvað væri eiginlega í gangi. En af einhverri ástæðu hætti ég ekki við þennan snúna ökkla, heldur hélt áfram. Við tók sjóðandi heit ástarsaga. Sagan tók stökkið frá hinni klassísku skvísubók, yfir í frekar kynferðislega sögu og svo átti bókin eftir að taka enn eina beygju og verða sálfræðitryllir. Ég vil ekki segja meira til að spilla ekki fyrir væntanlegum lesendum.

Of mikið af því góða?

Ég les mikið af bókum sem myndu flokkast sem ljúflestur á sumrin. Ég finn það líka að þegar maður hefur lesið yfir sig af þessum sykursætu bókmenntum, þá er það svolítið eins og að hafa borðað heila köku, einn nammipoka og drukkið sykrað gos með. Maður verður mettur og svo óglatt og jafnvel veikur. Ég hélt ég væri komin á þetta stig þegar ég fór að dæsa, því klisjan var svo áberandi. Eftir að hafa klárað bókina hef ég komist að þeirri niðurstöðu að upphaf bókarinnar er hreinlega svo sykursætt að maður fær velgju. En ég hélt áfram að háma í mig úr nammipokanum og bókin hélt mér. Samband Lily og Ryle er mjög spennuþrungið og það helst þannig alla bókina í gegn. Og ég borðaði allan pokann! Það kom reyndar í ljós að þessi bók var frekar eins og sterkur brjóstsykur en vanilluís með skrauti.

Heilt yfir hélt bókin mér alla leið í gegn, fyrir utan þetta atriði með ökklann. Það fer í taugarnar á mér þegar konur eru gerðar að ósjálfbjarga greyjum sem karlmenn þurfa að bjarga. Ég meina, er nokkur það slasaður eftir snúinn ökkla að ekki er hægt að sækja kælipoka. Það var meira að segja önnur kona á staðnum sem hefði getað aðstoðað! En viðsnúningurinn um miðja bók, þegar hún verður að sálfræðitrylli, hélt mér algjörlega. Mig langaði að vita meira, sjá meira og skilja meira.

Þessu lýkur hér er bók sem kemur á óvart. Hún hefst í gervi skvísubókar en þegar á líður verður hún að heljarinnar sálfræðitrylli sem heldur manni alla leið.

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...