Hleypum öllum inn

28. október 2025

 Eigendur 300 milljóna og 300 fermetra glæsiíbúða eiga í vændum erfiðan húsfund. Kosið skal um hvort eigandi einnar íbúðarinnar megi leyfa 20 hælisleitendum að búa í íbúðinni sinni, sem hefur verið innréttuð til að rúma þennan fjölda. Hjónin Felix og Halla, sem eru lýtalæknir og verkfræðingur og vinahjón þeirra Heiðar og Marta, fjárfestir og rithöfundur, hittast fyrir fundinn til að stilla saman strengi og passa að þessi atburðarrás, sem þau telja hræðilega, verði ekki að veruleika.

Það sem liggur fyrir þeim er þó ekki fordómar fyrir hælisleitendum, auðvitað ekki, heldur er þeim annt um reglur húsfélagsins, sem tilgreina að ekki megi leigja út íbúðina sína. Auðvitað kemur þó fljótt í ljós að alls kyns fordómar eru í spilinu og aðaláhyggjuefnið er að rýra ekki söluverð þessara fokdýru eigna með því að hafa hælisleitendur í húsinu.

 Plottað yfir ostum

Hjónin tvö hafa boðið öðrum hjónum að hitta sig fyrir húsfundinn til að athuga hvort þau séu ekki örugglega á sama máli, en það er allt annað en auðvelt að bjóða þessu fólki heim, þar sem maðurinn er svartur. Og eins og allir vita er ógurlega vandræðalegt að þurfa að eyða kvöldstund með svörtum manni þar sem maður gæti sagt eitthvað vitlaust og verið slaufað fyrir vikið. Eða svo telja þau Heiðar, Felix, Halla og Marta.

„Annað liðið sigrar og hitt tapar, eins og í lífinu.“

Verkið er stofudrama með húmorísku ívafi, og minnir á verkið Skömm (e. Disgraced) eftir bandaríska leikskáldið Ayad Akhtar, sem leikhópurinn Elefant setti upp árið 2017. Í því verki, rétt eins og þessu, eru þemu kynþáttafordóma og stéttaskiptingar mikilvægur liður í framvindu verksins, sem gerist einnig á einni kvöldstund í fínni íbúð. Munurinn er þó að í Skömm eru engir hvítir leikarar svo hvítleikinn verður ekki miðlægur, en í Íbúð 10B kemur svartur maður inn í heim hvítra og er aðraður frá því áður en hann gengur inn. 

Salnum, sem var að algjörum meirihluta hvítur, fannst ógurlega fyndið hversu vandræðalegt hvíta fólkinu á sviðinu fannst að tala um og við svartan mann. Ég veit af eigin reynslu að þetta er mjög raunsönn sviðsetning, allir sem umgangast brúnt og svart fólk mikið hafa séð þessi samtöl eiga sér stað trekk í trekk. Og þó að ég sé orðin leið á því að ræða hvort það „megi segja svartur“ þá er greinilegt að það er þörf á að sýna fáránleika kynþáttafordóma á sviði. Persóna Andrésar er ekki feiminn við að benda á misréttið og valdaósamræmið í orðum annarra, en það er á ákveðin hátt svolítið ósennilegt að svartur maður á Íslandi nenni alltaf að taka slaginn, slag sem honum er boðið upp í oft á dag, alla daga ársins.

Leikarar

Björn Thors, Gísli Örn Garðarsson, Unnur Ösp og Nína Dögg leika burðarhlutverk verksins, pörin tvö sem eru á sviðinu allan tímann. Mér fannst Nína Dögg bera af í leik sínum sem fangaði alls kyns tilfinningar og margbreytileika án þess að leikurinn yrði yfirgengilegur, en það var sennilega mjög fín lína að feta. Þá fannst mér Gísli Örn gera sínu hlutverki góð skil, og tókst sérstaklega vel að sýna margbreytileika mannsins, sem bæði er viðkvæmur og í valdastöðu, undirförull og furðulega bláeygur. Margrét Vilhjálmsdóttir stal senunni þegar hún steig á svið í hlutverki Dóru og var gaman að sjá hversu vel aðrir leikarar léku á móti henni og hvernig orkan breyttist með komu hennar og brotthvarfi.

         Unnsteinn Manúel Stefánsson lék Andrés og stóð sig afbragðsvel, en hann virðist vera að snúa sér meira að leikhúsinu nú í seinni tíð. Eini gallinn við hlutverkið hans er að Unnsteinn er tilfinnanlega miklu yngri en allir aðrir á sviðinu. Það er aðeins ótrúverðugt að hann eigi líka hálfstálpaðan ungling og hafi verið giftur í 20 ár, því leikarinn er bara 35 ára. Kona hans, Nanna, er leikin af Svandísi Dóru Einarsdóttur sem er komin á fimmtugsaldur rétt eins og hjónin tvenn. Það sýnir svolítið svart á hvítu þá ógurlega vandræðalegu staðreynd íslensks leikhúss að við eigum enga eldri svarta leikara. 

 

Forréttindafarsi

Samband Andrésar við tengdaföður sinn finnst mér sérlega áhugavert og gerð góð skil, en í umræðum um föður Nönnu, konu Andrésar, sést sérlega vel hversu mörg andlit fólk getur átt sér. Ríka, hvíta fólkið sem þekkti Ragnar úr húsfélaginu veit engan mann betri og almennilegri og rólegri en hann Ragnar heitinn, en dóttir Ragnars ber honum allt aðra sögu, þar sem hann setti sig á móti sambandi hennar við Andrés frá upphafi. 

         Þegar Dóra kemur inn í verkið er áhugavert að sjá hana þora að setja út á forréttindi Andrésar sem enginn annar hefur þorað að gera. Þá er einnig gott að hún sé ekki sett fram sem gallalaus hetja sem sér sannleikann, þar sem hún er kvótaerfingi sem býr í sinni 300 milljóna íbúð og gengur í fokdýrum fötum og kvartar svo yfir máttleysi sínu í að berjast gegn óréttlæti. Ekki það að ein kona geti lagað heiminn, en þessi eina kona gæti selt íbúðina sína og búið mun ódýrar og beint fjármunum í hjálparstarf eða grasrótarsamtök. Eða jafnvel breytt íbúðinni sinni í íbúð fyrir hælisleitendur. 

 

Búningar

Verkið er skrifað af Ólafi Jóhanni Ólafssyni og er leikstýrt af Baltasar Kormáki með Önnu Katrínu Einarsdóttur í hlutverki aðstoðarleikstjóra. Leikmyndin í höndum Ilmar Stefánsdóttur er falleg og stílhrein og stendur algerlega fyrir sínu. Það er ekki lagt of mikið upp úr að hafa allt sem einfaldast eða sem hlaðnast heldur er fundinn mjög góður meðalvegur þar sem allir hlutir hafa sinn tilgang en mínímalisminn er ekki yfirþyrmandi. Þá er ekki hægt að komast hjá því að sviðið er í gylltu búri, rétt eins og persónurnar sem inn á það ganga.

Sunneva Ása Weisshappel sér um búninganna sem eru skemmtilegir, raunsannir og með smá ókennileika vöfðum saman við, sem sést best í hárlokkum og beltafjölda leikaranna. Pör eru pöruð saman í lita – og fatavali og eru allir klæddir á sérlega raunsannan hátt.

Lokaorð

Verkið er á margan hátt skemmtilegt, samræður eru vel skrifaðar og mjög raunverulegar og allir leika einstaklega vel. Stigmögnunin er góð og höfundur passar sig að detta ekki algjörlega út í vitleysu heldur heldur hann framvindunni á sviði tilfinninga og innri baráttu. Þó kynþáttafordóma- og forréttindaádeilan sé með þægilegasta móti fyrir hvíta Íslendinga þá er gott að hún sé alla vega til staðar, sem er meira en hægt er að segja um flest verk. Þó það sé ekki gallalaust er það langt frá því að vera algerlega bitlaust, og þó það tyggi margsagða sögu er það því miður saga sem við þurfum að segja miklu miklu oftar á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu.

 

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...