Alfie missti pabba sinn fyrir þremur árum og satt best að segja gengur henni ekki vel að takast á við missinn. En er það kannski eitthvað fleira en ástvinamissir sem er að plaga hana? Hún er þrjátíu og átta ára og gengur illa að eignast barn. Kærastinn hennar og hún virðast ekki alveg vera á sömu blaðsíðu í lífinu, hvort sem er með barneignir eða annað, og ekki er hún að vinna áhugavert starf á sínu sviði. Svo drekkur hún svolítið mikið, illa gengur að hætt að reykja, mamma hennar á nýjan kærasta og hún hefur eitt þúsundum punda í smáforritið AiR.
Hvað er þetta AiR? Jú, það er skammstöfun sem stefnur fyrir Artificial Intellegence Resurrection. Hljómar ekki eins og neitt geti farið úrskeiðis þar. Með þessari framsæknu tækni er hægt að fá raunsanna heilmynd af látnum ástvini sem talar við þig. Það er auðvitað mánaðarlegt áskriftargjald og svo þarf að kaupa alls kyns tól í skýjunum sem bæta samskipti þín við gervigreindina sem þykist vera framliðinn ættingi þinn, allt með það að markmiði að eftirlifendum líði vel. Eða hvað? Það gæti þó ekki verið að þetta sé ómanneskjuleg gróðravél sem nýtir sér sorg og örvinglan til að húkka fólk í áskriftir sem það á ekki fyrir? Nei, það gæti ekki verið.
Ævintýralegt ferðalag
Á rúmum klukkutíma fer Álfrún Rós Gísladóttir, í hlutverki Alfie, með áhorfendur í æsispennandi og fyndið ferðalag um þennan hliðarveruleika þar sem allt er eins og í okkar heimi en með þessari óhugnarlegu viðbót. Við kynnumst Alfie í gegnum frásagnir, minningar og samtöl, bæði við gervigreinarútgáfu af föður hennar sem og lifandi fólkið í lífi hennar. Höfundurinn og flytjandinn, Álfrún Rós, missti sjálf föður sinn sviplega árið 2023, en hefur tekið fram að verkið sé ekki um hann, heldur fyrir hann. Má líta á sem svo að Álfrún leiki eins konar útgáfu af sjálfri sér, kannski leyfir hún öllum sínum verstu hliðum að líta dagsins ljós þar sem hún ímyndar sér líf sitt sem Alfie í hliðarveruleikanum.
Þögnin
Nafn verksins, Dead Air, er þýðingarmikið og lýsandi. Á ensku er það það sem þögn í útvarpsútsendingum kallast. Það þegar óvænta þögn ber að garði, þegar ekkert er í loftinu. Þá kallar nafn gervigreindarfyrirtækisins AIR, og vísunin í dauðann fram myndir af látnum ástvini Alfiear, af föðurnum sem hún er að tala við en er sam ekki að tala við, af þögninni sem er nú endalaus á milli þeirra, því faðir hennar mun aldrei aftur svara neinu sem hún spyr hann að. Ekki í alvörunni. Rétt eins og gervigreindarútgáfa af listaverki, af bíómynd, af skrifuðum texta, er gervigreindarpabbi Álfrúnar útþynnt útgáfa af raunverulegum manni. Gervigreindin er samhræringur af ágiskunum og eftirherman, hún gerir ekkert óvænt, hún er ekki samkvæm sjálfri sér, hún fylgir engum æðri sannleika, heldur er bara hérna til að fylla í rými, útmá þögnina sem myndast eftir missi, öskra inn í tóma rýmið til þess eins að yfirgnæfa þögnina.
Náframtíðarhryllingur
Á heildina litið er verkið vel skrifað, vel slípað, dásamlega vel flutt og hittir á fullkomið jafnvægi milli húmors og sársauka. Ég sé sífellt fleiri einleiki á sviði þessi síðustu ár og er alltaf jafn heilluð af valdinu sem flytjendur geta haft á líkama sínum, rödd og andliti, hvernig þau geta skapað heilan heim með sjálf sig ein að vopni. Álfrún Rós á endalaust lof skilið, bæði sem höfundur og leikari. Ef ég réði yfir heiminum myndi ég láta gera þetta verk að sjónvarpsþáttaröð í anda Fleabag, sem var einmitt líka einleikur fyrst, eða búa til úr því bíómynd eða skáldsögu. Ég, og margir fleiri, myndu hafa gagn og gaman af að kafa enn dýpra í heim Alfiear, á þessum óskýru mörkum veruleika og náframtíðarhryllings, og hrífast með.






