Stuttu eftir að ég kvaddi rauðglóandi París í Borgarleikhúsinu er ég aftur komin til Parísar, og það aftur í Borgarleikhúsinu. Það vill nefninlega svo skemmtilega til, og jú ég held það sé algjör tilviljun, að ný sýning í Borgarleikhúsinu á vegum Óðs, sviðslistafélags, fjallar einnig um líf bóhema í París alveg eins og Moulin Rouge. Í þetta skiptið er það óperan La bohéme eftir Puccini en sú var reyndar vissulega mikil fyrirmynd Baz Luhrman þegar hann skapaði kvikmynd sína Moulin Rouge árið 2001. Verkin eru samt gjörólík og er þá aðallega í kjarna sögunnar sem að strengir á milli. Því verður ekki meiri samanburður þar á, þetta er bara skemmtileg tilviljun.
Eins og áður sagði að þá er þessi sýning á vegum sviðslistahópsins Óðs og þeir þakka sérstaklega bakhjörlum og segja í sýningarskrá að án þeirra hefðu þeir ekki geta sett upp þetta tiltekna verk. Ég þakka fyrir að það tókst og að þau fengu þessa góðu bakhjarla. Óður hefur verið duglegur í að setja upp hinar ýmsu óperusýningar víðsvegar á síðustu fjórum árum en þetta er í fyrsta skiptið sem þau eru með verk í Borgarleikhúsinu og einnig er þetta í fyrsta skiptið sem þau hafa fullskipaða hljómsveit. La Bohéme er í leikstjórn Tómas Helga Baldurssonar með tónlistarstjórn frá Sævari Helga Jóhannssyni.
Sagan skín í gegn í fallegri þýðingu
Ég verð að koma með ákveðna játningu hérna svona í upphafi, en sú játning er að ég, og því miður Lestrarklefinn, höfum einhvern veginn flaskað á að kíkja á fyrri sýningar hjá Óði. Ég tók samt eftir þegar sýningar voru í gangi á Póst – Jóni í Þjóðleikhúskjallaranum á sínum tíma og hugsaði mér alltaf að reyna að ná að fara, en skilaði mér því miður aldrei. Ég fór því án nokkurs samhengis inn á Litla sviðið á frumsýninguna á La Bohéme. Ég fór kannski án samhengis við fyrri uppsetningar hópsins en ég kom hinsvegar mjög vel undirbúin. Hvernig undirbúin spyrjið þið? Jú, ég hafði nefninlega heyrt að það væri í raun betra að kynna sér söguþráðinn áður en maður færi á óperuverk. Ég hef ekki farið á margar óperur en ég fór einhvern tímann á La Traviata þegar ég var dálítið yngri, og þó mér þætti söngurinn þar fallegur og búningarnir flottir að þá skyldi ég ekki alveg framvinduna þar sem allt fór fram á ítölsku, eins og venjan er. Ég ætlaði aldeilis ekki að gera sömu mistök aftur og kynnti mér því verkið vel. Ég í raun spillti fyrir mér söguframvindunni. Ég hinsvegar hefði frekar getað kynnt mér, eða allavega tekið eftir, að þessi sýning Óðs, ásamt fyrri sýningum þeirra, er í reynd þýdd á íslensku. Þvílík dásemdar uppgötvun og léttir það var þegar þau hófu upp raust sína og íslensku orðin rúlluðu fram og ég skildi allt sem fram fór. Og hversu lipur og vel ígrunduð þýðing er þarna á ferðinni eftir þau Sólveigu Sigurðardóttur og Þórhall Auð Helgason. Þau eiga mikið lof skilið fyrir þessa þýðingu því ég get rétt svo ímyndað mér að það hafi ekki verið lítið verkefni að ná réttum orðum fyrir tónlistina og hrynjandann. Húmor verksins náði afar vel í gegn og íslenskan hljómaði fallega og áreynslulaust.
Kaldar hendur en heit hjörtu
La Bohéme gerist í París, sirka árið 1830, og fjallar um sex listræna einstaklinga. Í fyrstu hittum við vinina fjóra, Rodolfo (leikinn af Þórhalli Auði) sem er skáld og Marcello (leikinn af Ásláki Ingvarssyni) sem er listmálari, en þeir búa saman í nöturlegri íbúð í kulda og fátækt. Síðan eru það Colline, heimspekingurinn (leikinn af Ragnari Pétri Jóhannssyni) og Schaunard sem er tónlistarmaður (leikinn af Gunnlaugi Bjarnasyni). Síðar kynnumst við svo Mimi, sem er saumakona (leikin af Sólveigu Sigurðardóttur) og Musettu sem er söngkona (leikin af Bryndísi Guðjónsdóttur). Rodolfo og Mimi fella hugi saman á aðfangadagskvöld inni í kaldri íbúðinni og síðar fá áhorfendur að vita að Marcello og Musetta eiga fortíð saman sem er hvorki gleymd né grafin. Níels Thibaud Girerd kemur þarna inn í hlutverki elskhuga Musettu og leikur einnig leigusala og frakka. Þá á eftir að nefna Karl Friðrik Hjaltason sem leikur þjón og frakka.
Látlaus umgjörð og sterkar persónur
Umgjörðin er nokkuð látlaus en gaman er að sjá þá Níels og Karl koma inn sem eins konar sviðs-þjóna á milli atriða og skipta um leikmynd og leiktjald. Búningarnir hinsvegar finnst mér segja mjög mikið en Helga I. Stefánsdóttir sér um bæði leikmynd og búninga. Föt allra persónna eru í sömu litapallettu og skapar það fallega heildarmynd og þegar horft er nánar að þá eru búningarnir að styðja afar vel við leikarana í persónusköpun sinni. Það á sérstaklega við um karlmennina fjóra, listrænu vinina, sem að eru hver öðrum ólíkari þó þeir eigi marga sameiginlega snertifleti. Í fyrstu hugsaði ég mikið um hvort að litla sviðið hentaði þessu tiltekna verki en mér þótti hópurinn nýta plássið mjög skemmtilega með því að koma inn ýmist ofan eða neðan frá. Mögulega eru ýmis atriði sem að spila inn í val á sviði, ef til vill hljóðvistin. Ég hinsvegar átti stundum erfitt með að horfa svona mikið upp á við og hugsa ég að áhorfendur sem sitja aftast eða á svölum fái betri heildarmynd en fremsti bekkur í þetta skiptið. Á sama tíma var ótrúlega einstakt að fá að vera í svona mikilli nálægð við hópinn og þá sérstaklega í lokaatriði verksins.
Gæsahúð og hlátur
Hópurinn er flottur og söngurinn sterkur. Eins og áður sagði er verkið mjög húmórískt og húmorinn nær vel í gegn, en Níels sér að miklu leyti um kómísku hliðina og gerði það frábærlega og var atriðið þar sem Musetta segir elskhuga sínum upp á veitingastaðnum alveg hreint ótrúlega fyndið. Persónan Schaunard í túlkun Gunnlaugs var líka hress, létt og skemmtileg en félagarnir eru duglegir við að lyfta upp anda sínum í leikgleði þrátt fyrir fátækt og kulda. Þórhallur og Sólveig stóðu sig vel í hlutverkum Rodolfo og Mimi og blönduðust raddir þeirra fallega saman. Lokaatriðið var sérstaklega sterkt og gæsahúðin hríslaðist um mann við örlög Mimi og sára sorg Rodolfos. Bryndís kom sterk og ákveðin inn sem Musetta og sama má segja um Áslák sem Marcello og Ragnar Pétur var með afar fallega bassa-rödd og stóðu áhorfendur á öndinni meðan hann söng ljúfsára sönginn um jakkann sinn sem lagði grunninn að hjartnæmum endinum.
Verkið hefst á aðfangadagskvöldi og finnst mér því tilvalið fyrir öll að skella sér í óperuna á aðventunni. Ég mæli allavega heilshugar með, og eins og áður sagði að þá er óþarfi að undirbúa sig fyrirfram í þetta skiptið og þeir sem mikla fyrir sér eða hugsa að ópera sé of háfleygt eða erfitt listform að þá get ég sagt ykkur að þetta er mjög aðgengilegt verk og ennþá aðgengilegra í þýðingu. Ég fagna því innilega að það sé kominn metnaðarfullur hópur sem að setur upp dáðar óperur á íslensku og það í svona fallegri og vandaðri þýðingu. Ég vona að ég fái að sjá fleira frá Óði sem allra fyrst. La Bohéme er frábær skemmtun með dásamlegum söng og leik.






