Allt í smáatriðunum – og þeim stóru

26. janúar 2026

Leikfélag Reykjavíkur hefur hafið sýningar á Galdrakarlinum í Oz á stóra sviði Borgarleikhússins. Um er að ræða leikgerð John Kane sem inniheldur söngtexta og tónlist eftir Harold Arlen og E.Y. Harburg, en allt verkið er byggt á samnefndri skáldsögu eftir L. Frank Baum sem var upprunlega gefin út um aldamótin 1900.

Uppsetning Borgarleikhússins er í leikstjórn Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur og tónlistarstjórn Agnars Más Magnússonar. Bragi Valdimar Skúlason hefur þýtt söngtexta og Maríanna Klara Lúthersdóttir sá um þýðingu á leiktexta. Aðstoðarleikstjóri er Karla Aníta Kristjánsdóttir.

Sívinsæl saga

Sagan um Galdrakarlinn í Oz hefur verið vinsæl frá því hún leit fyrst dagsins ljós en söngleikur byggður á bókinni var fyrst frumsýndur árið 1902. Kvikmyndaaðlögunin frá 1939 með Judy Garland átti síðan sterkan þátt í því að festa söguna alrækilega í menningunni. En hvað er það sem gerir söguna svona sívinsæla? Jú vissulega hafa frægar aðlaganir haldið sögunni í stöðugu minni okkar allra en það hlýtur líka að liggja eitthvað meira þar á bak við. Er það ekki? Kannski er það hvernig sagan inniheldur mjög tímalaus þemu sem eiga alltaf við, en í kjarna sögunnar liggur mikilvægi vináttunnar, vonarinnar og að finna sinn innri styrkleika. Það gæti líka spilað inn í að sagan er á köflum myrk og er hún óhrædd við að fara inn á alvarleg málefni og þannig talar hún jafnt til barna og fullorðinna. Tilfinningaþrungin augnablik og leit hetjunnar að heimili sínu er eitthvað sem allir geta tengt við.

 

Enginn eftirbátur

En aftur upp í Borgarleikhús. Uppsetning leikfélagsins ætlar sér ekki að vera neinn eftirbátur annarra aðlaganna. Þá sérstaklega verð ég að bregða út af vana í leikhúsumfjöllunum, sem oftast hefja upptalningu á aðalleikurum, og nefna í fyrstu búninga og leikmynd. Það er augljóst að mikið hjarta og mikil sál hefur verið lögð í þessa uppsetningu og búningar og leikmynd bera af. Auðvitað eru allir þættir og öll hlutverk mikilvæg til þess að skapa svona sýningu en leikmynda – og búningadeild lögðu greinilega allt sitt í að skapa þennan töfraheim Oz. Ef vel er litið á eru  ótrúlega mörg smáatriði í búningunum sem síðan skapa svo mikla dýpt. Get ég til dæmis þar nefnt tölurnar á jakka fuglahræðunnar, sem eru allar mismunandi. Og það eru einmitt svona litlir hlutir, ásamt mörgum öðrum smáatriðum sem gerir búninginn marglaga á ákveðinn hátt. Sama má segja um ljónið sem var skapað með mismunandi efnum og áferðum, búningurinn marglaga. Svo er það kjóll Glindu sem var svo fallegur og eftirtektarverður að búningahönnuður ætlaði greinilega ekki að vera eftirbátur í samanburði við hinar vinsælu Wicked kvikmyndaaðlaganir á hvíta tjaldinu þar sem Glinda spilar einnig stórt hlutverk. Ég get líka nefnt kjól Vestur-nornarinnar sem augljóslega var lagt jafn mikil alúð við og gerði það að verkum að þrátt fyrir hræðilega illgirni persónunnar, sem Sólveig Arnarsdóttir túlkar snilldarlega, að þá vildi fimm ára, síbleika dóttir mín einnig fá að eiga einn slíkan. Ég gæti líka nefnt búninga Snúðanna og hand-hekluðu blómin í höttum þeirra, auk annarra heklaðra muna í leikmyndinni, eða hvernig íbúar Smaragðsborgar voru skapaðir með hjálp gerviefna og hörðu plasthári sem rímaði einhvernveginn svo vel við og bjó til hugrenningartengsl til Kapítól- búa úr bók Suzanne Collins, Hungurleikjanna.

Allt í smáatriðunum

Leikmyndin var sömuleiðis öll í smáatriðunum og vil ég sérstaklega hrósa fallegri lausn þeirra á að skapa skógi vaxið umhverfi og hvernig ljósmyndahönnun og leikmyndahönnun unnu svona einstaklega vel saman í að skapa gráa veröld Kansas í upphafi sem lýstist síðan upp þegar Dórótea hóf upp raust sína á fyrsta stefi af Over the Rainbow. Ég hvet alla til að taka eftir öllum þessum smáatriðum ef þið ákveðið að fara á sýninguna – til dæmis prjónuðu/hekluðu ávöxtunum á trjánum!

 Búningar eru í höndum Júlíönnu Steingrímsdóttur og Eva Signý Berger sér um leikmynd. Með Júlíönnu er Tinna Ingimarsdóttir með umsjón yfir leikgervi. Gunnar Hildimar Halldórsson sér um ljósahönnun.

Einlæg Dórótea og traust þríeyki

Þórey Birgisdóttir er Dórótea Gale og má með sanni segja að Þórey sé vissulega mjög fjölhæf. Það er varla að þetta geti verið sama manneskjan og sem túlkaði Ífigeníu í Ásbrú svo listilega. Þórey er mjög einlæg Dórótea með mikið aðdráttarafl í einlægni sinni og skæru brosi. Hilmir Jensson var dásamlegur sem fuglahræðan og var gaman að sjá túlkun hans á liðamótalausri verunni sem gæti á hverri stundu dottið í sundur, sem hann jú reyndar gerði með alveg ótrúlega skemmtilegum leikhústöfrum. Björgvin Franz var flottur Tinkarl og Pétur Ernir Svavarsson lék huglausa ljónið með sannfæringu.

 

Litríkar persónur

Berglind Alda Ástþórsdóttir var síðan hin góða norn Glinda og gerði það með miklum húmor. Mér þótti sérstaklega skemmtilegt að sjá hana í atriðinu með Snúðunum þar sem persónusköpun hennar og leikur virðist hafa fengið innblástur frá dans-mömmum úr raunveruleikaþáttum. Þessar sem eru fastar í að stýra börnum sínum í því að setja upp hina fullkomnu sýningu. Vilhelm Neto túlkaði Galdrakarlinn sjálfan og var mjög heilsteyptur galdrakarl og skemmtilega ýktur. Vilhelm náði mjög vel að gefa okkur galdrakarl sem er bæði mjög óöruggur en líka mjög kokhraustur á sama tíma. Hann gefur af sér að vera mest marglaga persóna verksins.

Sólveig Arnarsdóttir sem vonda nornin var, eins og fyrr segir, alveg frábær og hreint út sagt hræðileg. Jafnvel svo hræðileg að það voru ekki liðnar fimm mínútur af verkinu þar til einhver lítill í salnum var farin að háskæla. Kannski ekki furða, enda alveg hræðilegt atriði þar sem vonda nornin sparkar í grey Tótó með þeim afleiðingum að hann er rifinn af grey Dóróteu. Þetta er auðvitað sýning sem er með mjög jákvæðan og bjartan boðskap en inniheldur þó mjög þungan og alvarlegan undirtón. Ég myndi samt segja að þetta sé alveg klárlega barnasýning en mögulega hentar þetta best þeim sem hafa náð fjögurra ára aldri, já eða þeim sem eru alvanir leikhúsi.

Hæfileikaríkir krakkar

En það sem mér þótti gefa alveg aukalag inn í sýninguna er einmitt að hafa hæfileikaríka krakka sem aukaleikara fyrir Snúðana, flug-apana og fleiri persónur. Það hefði auðveldlega verið hægt að hafa einungis fullorðið-leikaraval en ég er mjög ánægð og verð að hrósa fyrir það að ákveðið var að hafa fjölbreyttan aldur. Bæði eru barnaraddirnar svo fallegar og svo eru þau alltaf svo ótrúlega góðir dansarar í þessum hóp-dansatriðum. Lee Proud er höfundur að dansi og á hann hrós skilið fyrir að ná svona góðum takti í hópinn.

 

Töfrandi heimur með hliðstæðum við raunveruleikann

Vert er svo auðvitað að nefna brúðuhönnun Pilkington Props sem var einstaklega falleg og vönduð. Dýrin voru bæði svo ljóslifandi en einnig svo fullkomlega töfrandi.  Tótó er auðvitað í aðalhlutverki með Dóróteu og þríeykinu en það var Marino Máni Mabazza sem stýrði Tótó og gerði það vel.

 

Það eina sem ég gæti kannski fundið út á sýninguna er að það er augljóst að aðalfókusinn er ekki á sönginn. En mér þótti það ekki koma að sök og ég er ánægð með það val aðstandenda sýningarinnar að setja mikið púður í leikmynd og búningasköpun. Ég var líka ánægð að sjá hvernig er gert enn meira úr hliðstæðum Kansas og Oz í þessari sýningu og jafnvel ýtt undir þær.  

 Það er erfitt að nefna alla sem stóðu á bak við sýninguna, svo margir eru þar en hópurinn er í heild sinni mjög þéttur og góður. Galdrakarlinn í Oz er dásamleg skemmtun fyrir alla aldurshópa, og þá er ég ekki bara að segja þennan frasa af því að hann er klassískur. Ég tel að sýningin sé mismunandi upplifun fyrir ólíka aldurshópa en í kjarnann góð og eftirminnileg upplifun fyrir alla. Oz Borgarleikhússins er mikið sjónarspil og spilað er á allan tilfinningaskala áhorfenda. Smáatriðin í leikmynd, búningum og sviðshreyfingum skilar sér í alveg hreint frábærri sýningu sem að er á heimsmælikvarða.

Lestu þetta næst