Önnur skáldsaga Júlíu Margrétar Einarsdóttur Guð leitar að Salóme kom nýlega út hjá Unu útgáfuhúsi. Júlía Margrét starfar við menningarblaðamennsku og vakti athygli fyrir þremur árum fyrir bókina Drottningin á Júpíter.

Guð leitar að Salóme er samansafn af tuttugu og fjórum bréfum, skrifuðum á hverjum degi fram að aðfangadegi í desember 2010, af söguhetjunni Salóme. Kötturinn hennar, Lúpína, týnist skyndilega og fær brotthvarf hennar Salóme til að gera upp líf sitt og horfast í augu við atburði sem áttu sér stað tíu árum fyrr, árið 2000 þegar hún vann með heillandi stúlku, Helgu, í búðinni Betra líf í Kringlunni.

Ástin og bæld vandamál

Bókin er í raun ástarsaga, fjölskyldusaga og þroskasaga. Salóme hefur þjáðst yfir sambandsslitum þeirra Helgu í heil tíu ár en þar átti í hlut áfall sem henti Salóme í æsku. Það ásækir hana í formi martraða og mikilli vanlíðan sem veldur því að hún flýr samband sitt við Helgu. Einnig á Salóme erfitt við að horfast í augu við sjálfa sig, hver hún raunverulega er, vegna eineltis sem hún varð fyrir þegar hún var í grunnskóla. Salóme hefur bælt allt þetta niður, forðast vandamálin eins og heitan eldinn og hleypir engum almennilega inn.

Í fyrri hluta bókar rekur Salóme fjölskyldusögu sína, allt frá æsku móður sinnar og lífi foreldra hennar, og fram í nútímann. Allar þessar endurminningar eru skrifaðar af mikilli næmi og frásagnargleði. Það er líf og fjör í textanum en harmleikur skekur fjölskylduna og þarf Stella, móðir Salóme, og Lára, tvíburasystir hennar, að upplifa dauðann ungar að aldri. Bæði þær og Salóme alast upp á Akranesi og gerir höfundur vel grein fyrir bæjarstemningunni í gegnum tíðina. Auðvelt er að finna fyrir smábæjarandanum og breytingunni sem verður þegar sögusviðið færist til Reykjavíkur á unglingsárum Salóme.

Nostalgíusprengja

Bókin er tímahylki, algjör nostalgíusprengja. Júlía Margrét skreytir textann með vísunum í íslenskt samfélag og menningu síðustu aldamóta. Í Kringlunni eru enn risavaxin pálmatré, peningatjörn og fljúgandi Cadillac Hard Rock Café. Að ógleymdum klifurturninum fyrir framan Nanoq. Textinn er heillandi og fullur af lífi. Í lok bókar vill lesandinn halda áfram, vita meira, er fastur inni í heimi Salóme, þrátt fyrir að bókin sé tæplega 400 síður. Frásögnin missir aldrei dampinn frá því að áhugi lesandans er kveiktur á fyrstu síðunum sem telst virkilega vel gert.

Guð leitar að Salóme er hjartahlý og orkumikil frásögn af ungri konu sem þarf að kljást við að finna sjálfa sig og gefa sér leyfi til að elska. Myrkið vofir þó yfir en þrátt fyrir það vekur þessi bók yl í hjarta og er einstaklega fallegur lestur á aðventunni. Sumir hafa jafnvel lesið hana sem jóladagatal þar sem bókin hefst á bréfi sem er sent 1. desember, og svo koll af kolli, þangað til bókin endar 24. desember. Júlía Margrét hefur svo sannarlega sannað sig með þessari frábæru skáldsögu og það verður spennandi að fylgjast með henni næstu ár.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...