5 mikilvægustu bækur úkraínskra samtímabókmennta sem þarf að þýða yfir á íslensku

Úkraínski höfundurinn Andrej Kúrkov er handhafi Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness sem verða veitt 7. september næstkomandi. Andrej Kúrkov sló í gegn með bókinni Dauðinn og mörgæsin sem gerði hann að þekktasta samtímahöfundi Úkraínumanna. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur hjá Bjarti árið 2005 og var endurútgefin vorið 2022. 

Í tilefni af verðlaunaafhendingunni og nýliðnum sjálfstæðisdegi Úkraínu 24. ágúst og þess að sex mánuðir eru liðnir síðan innrás Rússa hófst er viðeigandi að kynnast samtímabókmenntum þessa lands sem hafa ekki enn verið þýddar yfir á íslensku.

Serhiy Zhadan – Voroshilovgrad (Ворошиловград 2010)

Sergei Zhadan er aðalhetja úkraínskra samtímabókmennta. Hann er bæði margverðlaunaður prósahöfundur og ljóðskáld. Titill skáldsögunnar Voroshilovgrad er ekki beint tengdur hinum raunverulega Voroshilovgrad, sem heitir nú Lúhansk. Skáldsaga fjallar um það sem þarf að varðveita og vernda. Sögumaðurinn er eirðarlaus ungur maður sem hangir í borginni á skrifstofu og kemst svo að því að bróðir hans er horfinn og bensínstöð bróðurins stendur varnarlaus gagnvart árásarmönnum. Leiðarstef skáldsögunnar eru tvö orð sem þar eru oft nefnd – „þakklæti“ og „ábyrgð“. Verk Zhadan einkennast af því að hann tvinnar saman ólíkum bókmenntagreinum – hann sameinar sterka frásögn og ljóðræna nálgun. Og í síðari skáldsögum hans er alltaf goðsögulegur þáttur: í Voroshilovgrad fer hetjan yfir Styxfljót með rútu inn í ríki hinna dauðu. Við skiljum ekki alveg hvað er að gerast. Er þetta veruleiki eða skáldskapur, veruleiki eða einhvers konar táknræn ferð?

Taras Prokhasko — ÓVandalaus (НепрОсті 2002)

Taras Prokhasko er talinn merkilegasti úkraínski höfundurinn en hann hefur skrifað hörmulega lítið. Hann skrifaði aðeins eina stutta skáldsögu ÓVandalaus. Bókin er úkraínskt töfraraunsæi, sem á sér ekki uppruna á aðgengilegu flatlendi, heldur á hrikalegum afskekktum fjallasvæðum. Fyrir Milorad Pavich var þetta Balkanskagi og fyrir Prohasko – Karpatafjöll. Rithöfundurinn lýsir goðsögulegum Karpataheimi, þar sem engin mennsk lög eru í gildi, ekki aðeins félagsleg, heldur einnig lögmál heimsins. Söguhetjan giftist einni konu og hver af næstu konum hans er hans eigin dóttir frá þeirri fyrri. Maður má samt ekki að taka sifjaspell innan bókarinnar of bókstaflega, það hefur líka goðsagnakennda náttúru og merkingu sem lesandinn verður að afhjúpa smám saman.

Oksana Zabuzhko — Vettvangsrannsóknir á úkraínsku kynlífi (Польові дослідження з українського сексу 1996)

Saga Oksönu Zabuzhko Vettvangsrannsóknir á úkraínsku kynlífi kom út um miðjan tíunda áratuginn og þá kölluðu margir höfundinn þjóðlegan femínista. Satt, í þeim skilningi að bókin var líka einhvers konar sjálfstæðisyfirlýsing kvenna, og þetta er eðlislægt í bókmenntum fyrstu ára sjálfstæðis Úkraínu. Þetta er bók með áberandi þjóðlegum blæ um ást konu og það að vera háð karlmanni, sem kvenhetjan vinnur bug á í gegnum söguna. Þó titill bókarinnar hljómi svívirðilega er bókin í rauninni frekar skírlíf. Ást er uppáhaldsþema hjá Zabuzhko. Fyrir nokkrum árum síðan gaf Zabuzhko út stórkostlega skáldsögu Safn yfirgefinna leyndarmála (Музей покинутих секретів), sem margir kölluðu nánast aðalbók úkraínskra samtímabókmennta. Mikið af henni er helgað úkraínska uppreisnarhernum, þó að höfundurinn hafi sagt að bókin sé ekki um herinn, heldur um ást. Bókin var þýdd á rússnesku. Nú er ómögulegt að ímynda sér útgáfu slíkrar bókar í Rússlandi.

Volodymyr Rafeienko — Descartes djöfull (Демон Декарта 2013 год)

Volodymyr Rafeienko er ef til vill merkilegasti rússneskumælandi rithöfundur í Úkraínu. Hann bjó áður í Donetsk en í júlí 2014 flutti hann af augljósum ástæðum til Kænugarðs. Rafeienko er arftaki hefðar Gogols. Skáldsögur hans eru alltaf fantasmagóríur en með mjög sterkum félagslegum þáttum og mjög sérkennilegu tungumáli, sem sameinar háan og lágan stíl, skiptir úr goðsögulegu yfir í raunsæi. Þegar Rafeienko bjó í Donetsk voru bækur hans nánast óþekktar í restinni af Úkraínu. Þær voru gefnar út hjá örforlögum í Donbas, en síðan hlaut hann verðlaun í Rússlandi nokkur ár í röð. Í fyrsta skipti fyrir bókina Skemmtun í Moskvu (Московский дивертисмент) og síðan fyrir Descartes djöful. Sú síðarnefnda var gefin út af Eksmo forlaginu í Rússlandi og Rafeienko varð þekktur í heimalandi sínu. Þetta fannst mörgum svo fáránleg leið á þeim tíma: til að verða frægur í Kænugarði þurfti maður að gefa út bækurnar sínar í Moskvu. Árið 2019 gaf hann út fyrstu bókina sína á úkraínsku.

Liubko Deresh – Eyðilegging (Спустошення 2017)

Hann er oft kallaður „undur úkraínskra bókmennta“ og ekki að ástæðulausu. Þessi hæfileikaríki rithöfundur skrifaði sína fyrstu bók 15 ára að aldri. Einstök verk hans hafa mikil áhrif á lesendur, vekja þá til umhugsunar, hvetja lesendur til að átta sig á lífi sínu og stað sínum í heiminum. Söguhetjur Dereshs eru yfirleitt unglingar og sögur hans segja oft frá heillandi, óútreiknanlegu og stundum óvenjulegu lífi þeirra. Hann er alltaf að reyna að koma nútímalífi á framfæri á sannfærandi hátt og hann gerir það með einstökum ritstíl sínum, notar mikið nútímaslangur og stundum blótsyrði. Eyðilegging er þroskasaga um þáttaskil sem gerast í lífi hvers og eins, um hversu erfitt það er stundum að velja og stíga skref í átt að hinu óþekkta. Í verkinu talar höfundur um mörk lífsins og með fordæmi persónanna talar hann um að einhver hafi hugrekki til að stíga yfir mörkin og halda áfram á meðan hinn þorir ekki að breyta einhverju. Eftir að hafa lesið þessa bók mun lesandinn ósjálfrátt hugsa um hvaða leið maður velur og af hverju maður tapar eða sigrar.

Andrej Kúrkov og Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness

Kúrkov er afkastamikill rithöfundur og hafa bækur hans komið út á 42 tungumálum. Hann skrifar bæði fyrir börn og fullorðna og fjölmargar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir handritum hans. Á þessu ári kemur út á bók með dagbókarskrifum hans sem hófust í aðdraganda innrásar Rússa í Úkraínu. Bókina skrifar hann á ensku og ber hún heitir Diary of an Invasion. Kúrkov er forseti alþjóðlegu rithöfundasamtakanna PEN í Úkraínu og hefur undanfarin misseri ferðast víða um heim og fjallað um innrás Rússa í Úkraínu. Kúrkov tók þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2005 og muna margir eftir stórskemmtilegri framkomu hans á upplestrarkvöldi í Iðnó.

Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness verða afhent í Hátíðarsal Háskóla Íslands miðvikudaginn 7. september kl. 16 og mun Kúrkov við það tilefni flytja fyrirlestur Halldórs Laxness. Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Um kvöldið kemur Kúrkov fram á upplestrarkvöldi í Iðnó ásamt fleiri höfundum. Báðir viðburðirnir eru ókeypis og opnir öllum.

Kúrkov Andrej Halldór Laxness 2022

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...