Morð í sumarbústað rannsakað af hamingjusamri löggu?

Eva Björg Ægisdóttir

Eva Björg sendir í ár frá sér fimmtu bók sína, Strákar sem meiða en hún er gefin út af Veröld líkt og fyrri bækur hennar. Þetta er fjórða bókin sem fjallar um rannsóknarlögregluna Elmu og var undirrituð spennt að hefja lestur á henni. Eva Björg hefur frá fyrstu bók vakið athygli fyrir skrif sín. Fyrsta bók hennar, Marrið í stiganum vann Svartfuglinn árið 2018. Frumraun hennar vakti mikla athygli fyrir utan landsteinana og hefur hlotið fjölda tilnefninga og unnið til verðlauna. Bókin hefur síðan verið þýdd á fjölda tungumála og fengið góða dreifingu.  Bók hennar frá í fyrra, Þú sérð mig ekki, var valin besta íslenska glæpasagan af Morgunblaðinu.

Væntingarnar fyrir bókum Evu Bjargar eru því orðnar nokkrar hjá flestum lesendum og hefur hún verið nefnd sem ein af hæfustu glæpasagnahöfundum Íslands. 

HMorð í Skorradal

Sagan hefst á að maður um fertugt finnst myrtur í sumarbústað í Skorradal. Blóðug skilaboð hafa verið skilin eftir og málið er allt hið furðulegasta. Rannsókn þess leiðir Elmu tugi ára aftur í tímann en einnig inn í sitt nærumhverfi. Dauðsfall í sumarbúðum fyrir unglinga tvinnast inn í rannsóknina sem og sérstök, eldri kona sem vill svo til að er nágranni Elmu og Sævars, sambýlismanns hennar og samstarfsfélaga.

Sjálft morðmálið sem er til rannsóknar þykir mér gríðarlega spennandi og hélt bókin mér allan tímann. Hvernig Eva tvinnar saman nútíð og fortíð í rannsókn málsins er stórkostlega vel gert og einnig hvernig hún heldur spennunni uppi. Eva kann að skrifa spennusögur. 

 Rannsóknarlögregla og jákvætt einkalíf?

Það sem heillar mig þó alltaf mest við bækur Evu, þá sérstaklega bækur hennar um Elmu er Elma sjálf og aðrar sögupersónur sem henni tengjast. Í þessari bók eru það Sævar og Hörður, yfirmaður Elmu sem koma sérstaklega við sögu. Ekki misskilja mig, aðrar persónur í þessari bók eru áhugaverðar þá sérstaklega þær persónur sem tengdust fórnarlambinu og gerandinn, ó mæ! 

En hún Elma er svo frábær karakter því saga hennar er ekki hin klassíska saga rannsóknarlögreglukonu í anda Nordic Noir. Elma er sátt við lífið. Hún er hamingjusöm! Hún og Sævar, samstarfsmaður hennar, eru í sambúð og nýbúin að eignast litla dóttur. Þau eru hamingjusöm. Þau hafa vissulega bæði gengið í gegnum áföll og glíma við eftirköst þeirra, eins eiga þau auðvitað leyndarmál sem krauma undir niðri, þetta er jú glæpasaga, en líf þeirra er samt ekki heltekið af köldu, neikvæðu uppskriftinni sem oft fylgir aðalsögupersónum í Nordic Noir sögum. Það er einnig áhugavert að fylgjast með lífi Harðar. Hann er að takast á við sorgina eftir missi eiginkonunnar og virðist ætla að gera það eins og manni af hans kynslóð er einum lagið en undir niðri á hann sér mjúkar hliðar. 

 Skaginn í nútíð og fortíð

Eva er öflug í að tvinna Akranes inn í sögurnar sem gefur þeim, að mér finnst, skemmtilegan brag. Í þessari bók er sögusviðið Akranes í nútíð og fortíð og það er augljóst að Eva hefur góða þekkingu á sögu bæjarins enda sjálf frá Akranesi. Hún setur sögusviðið vel upp og veit ég af og þekki Skagamenn sem kunna að meta að bærinn sé í brennidepli í bókum hennar, þó það séu glæpasögur! Eva skrifar hér sögu með frábærri fléttu og þótti mér líka áhugavert að sjá svo hver gerandinn væri. Ég sá hann alls ekki fyrir og þótti það tilbreyting, frábær tilbreyting, að sjá þessa týpu af geranda. Þær eru of sjaldséðar í íslenskum glæpasögum. 

Það er óhætt að segja að Eva Björg sé búin að skipa sér sess meðal okkar fremstu glæpasagnahöfunda. Hún trónir þar skuldlaust í topp fimm sætunum. 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...