Dauði skvísu, eða morð?

11. nóvember 2023

Ragnheiður Jónsdóttir er sigurvegari Svartfuglsins árið 2023. Svartfuglinn eru glæpasagnaverðlaun sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson standa að baki ásamt Veröld og voru fyrst veitt árið 2018.
Bókin sem sigraði  í ár heitir Blóðmjólk .
Sem mikill aðdáandi glæpasagna get ég ekki annað en fyllst spennu á hverju ári þegar tilkynnt er um sigurvegara Svartfuglsins, en sigurvegari er eingöngu gjaldgengur ef hann hefur ekki áður gefið út bók. Það er svo frábært að fá nýja höfunda inn í glæpasagnaflóru landsins, sem geta síðar meir sprungið út. Eva Björg Ægisdóttir vann til að mynda verðlaunin þegar þau voru fyrst veitt og hefur gefið út fjölda frábærra glæpasagna um allan heim. Það vakti athygli mína í ár að í umsögn dómnefndar kom fram að um væri að ræða sannkallaðan skvísukrimma, en þetta má teljast til nýjunga í íslenska krimmaheiminum.
Blóðmjólk fjallar um vinkonuhóp frá því í menntaskóla sem nú eru að nálgast miðjan fertugsaldurinn. Í nóvember 2022 skilur ein vinkvennana, áhrifavaldurinn Kría, eftir dramatísk skilaboð á Instagram sem ýja að því að hún ætli að svipta sig lífi. En var það raunin? Eða drap einhver Kríu?

Vinkonur á framabraut

Í bókinni, rétt eins og í mörgum skvísubókum, flakkar sjónarhornið milli eftirlifandi vinkvennana, Sunnefu, Öddu og Rakelar. Þær hafa haldið hópinn frá því í menntaskóla en líf þeirra þróast í mismunandi áttir. Allar vinkonurnar, að Sunnefu undanskilinni hafa eignast börn og eru allar á framabraut. Þær eru í mishamingjusömum hjónaböndum og hver og ein að takast á við sín raunsæju vandamál: framann, ófrjósemi, samsetta fjölskyldu og hjónabandserjur. Skilaboð Kríu koma þeim öllum úr jafnvægi í sínum hversdagsleika og taka þær strax þátt í að leita að henni. Fljótlega finnst þó lík og ljóst er að Kría er flogin á brott. Í fyrstu styðja vinkonurnar hver aðra við að takast á við sorgina sem fylgir andlátinu, en svo fer ýmislegt að koma í ljós sem fær vinkonuhópinn efast um örlög Kríu. Fortíð vinkonu þeirra var flókin og hún lék sér oft að eldinum, og því fara þær að velta því fyrir sér hvort andlátið gæti hafa borið að með saknæmum hætti.

Grípandi saga

Blóðmjólk er byggð upp á klassískan hátt. Hún hefst með innsýn inn í daglegt líf vinkvennana áður en ótímabært andlát Kríu kemur upp. Þegar ljóst er að andlát hennar var ekki af völdum sjálfsvígs fara nokkrar kenningar af stað og er nóg af misvísandi vísbendingum (e. red herrings) í þessari þó stuttu bók. Vinkonusamböndin eru á margan hátt raunsæ, þær hafa fjarlægst í gegnum árin og eiga minna sameiginlegt en áður, en þær halda þó í þennan vinskap og ljóst er að þær verða að vita hver drap Kríu. Ólíkt hefðbundnum glæpasögum er Blóðmjólk öðruvísi því, eins og Ragnheiður benti sjálf á í viðtali við morgunútvarpið er ekki verið að fylgjast með rannsóknarlögreglunni, hún kemur lítið sem ekkert við sögu. Í staðinn er fylgst með vinkonunum í þeirra daglega lífi og fjallar bókin líka mikið um hvað þær eru að kljást við og vinkvennasamböndin.

Bókin er virkilega grípandi og las ég hana nánast í einni setu, skvísuformið gerir hana „léttari“ í lestri þó að um glæpasögu sé að ræða. Morðinginn kom mér á óvart en ég var ekki alveg nógu ánægð með fléttuna. Sagan er byggð vel upp framan af en mér fannst aðeins of mikið verið að hnýta saman lausa enda í hraði undir lokin með of miklum útskýringum. Skemmtilegra hefði verið að leyfa þessu að spilast meira út.

Lifi Svartfuglinn!

Líkt og síðustu árin fagna ég Svartfuglinum og gleðst yfir því að hafa fengið Ragnheiði Jónsdóttur í glæpasagnaflóruna. Það verður spennandi að fylgjast með því sem Ragnheiður sendir frá sér næst því ljóst er að hún kann svo sannarlega að skrifa grípandi bók!

Lestu þetta næst